24.1.2010 | 20:00
"Lítið þarf til lausnar máls..."
Með tilvísun í frétt frá Suður-Kóreu um fyrirmæli stjórnvalda til opinberra starfsmanna til að taka sig til og afstýra þjóðarvá á einfaldan hátt varð þetta til nú í kvöld.
Best er að tileinka þetta heimsframtaki Bolvíkinga í þessu efni.
Lítið þarf til lausnar máls /
sem lamar heilar þjóðir. /
Arka skal til ástarbáls /
og æsa lostaglóðir. /
Ef í hendi´er hlaðinn gikkur. /
í hann skal taka af krafti. /
"Farið heim og fjölgið ykkur /
frjáls úr bældu hafti !" /
Einfalt ráð gegn vondri vá /
í voðum rekkju´er þeysa. /
Á einu augnabliki má /
allan vanda leysa. /
Loks skal ástin fljúga frjáls /
og fótum spyrna´í stokkinn, - /
líða á vængjum brímabáls /
og burt með fjandans smokkinn!
![]() |
Farið heim og fjölgið ykkur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.1.2010 | 13:26
Ekki í Eþíópíu.
Fréttin af manninum sem lifði á Coca-Cola í rústum húss í Port-au-Prince minnir á það Coca-Cola virðist vera alls staðar, samanber það, að á ferð minni með Helga Hróbjartssyni trúboða um þurrkahéruð Eþíópíu þar sem fólk og fénaður hrundi niður úr þorsta í miklum þurrkum var hvergi að finna svo aumt og afskekkt strákofaþorp að ekki væri þar á boðstólum Kók.
Ég gerði mig sekan um svipaða firringu og fávísi og María Antoinett Frakkadrottning þegar hún frétti af því að fólk sylti í hel á landsbyggðinni vegna skorts á brauði og spurði: "Af hverju borðar fólkið þá ekki bara tertur?"
Ég spurði í einu strákofaþorpanna í Eþíópíu: "Af hverju drekkur fólkið ekki bara Kók? "Og svarið var einfalt: Það á ekki peninga fyrir kók. Ef það fengi einhver laun tæki það viku að vinna fyrir einni kók og þá yrði ekkert eftir fyrir annað.
Á þessum slóðum í Eþíópíu gat fólkið ekki bjargað sér eins og Haiti-búinn í fréttinni, sem þetta blogg er tengt við. Það er umhugsunarefni að kjör milljarða fólks í heiminum séu svona.
![]() |
Lifði á Coca-Cola |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)