29.1.2010 | 23:43
Þetta gerist ekki á Íslandi.
ESB hefur nú krafist þess af Alcoa að fyrirtækið endurgreiði Ítölum niðurgreiðslur á rafmagni til álvera fyrirtækisins þar í landi.
Íslendingar eru ekki í ESB og þess vegna ætti varla að vera hætta á því að ESB muni krefjast þess af Alcoa greiði til baka ívilnanir sem fengist hafa hjá Íslendingum í formi niðurfellinga eða afsláttar á margs konar gjöldum.
Sennilega er enn ólíklegra að ESB fari að krukka í raforkuverðið til Acoa, því að það er sem kunnugt er viðskiptaleyndarmál.
Hvort aðild okkar að EES skiptir hér einhverju máli veit ég ekki. En málið er athyglisvert, sýnist mér.
![]() |
Biður Alcoa að loka ekki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
29.1.2010 | 11:11
Rödd okkar þarf að ná í gegn.
Ég þykist vita að margir hér heima verði órólegir við að heyra af því hvernig forseti Íslands beitir sér eins og hann getur til að tala máli okkar erlendis, en til þess hefur hann betri aðstöðu en nokkur annar Íslendingur.
Heyra má sagt að hér ríki þingræði sem feli framkvæmdavaldinu, ríkisstjórn og ráðherrum, að fara með vald sitt og að forsetinn eigi ekki að skipta af því sem ríkisstjórn og Alþingi sé falið í lýðræðislegum kosningum að gera.
Gagnrýnt er að forsetinn virðist upp á sitt eindæmi vera að breyta stjórnskipun íslands í nokkurs konar blöndu af forsetaræði og þingræði sem fari í bága við stjórnarskrána.
Forsetinn sé með þessu að seilast inn á verksvið utanríkisráðherra, sem kæri sig ekki um að "vera töskuberi hans" í ferðalögum erlendis eins og utanríkisráðherra orðaði það.
En nú eru óvenjulegir tímar þar sem okkur veitir ekki af því að allir leggist á eitt í því að auka skilning erlendis á málum okkar.
Allt frá forsetakosningunum 1952 hef ég verið þeirrar skoðunar að forseti Íslands þurfi að þekkja vel til í stjórnskipuninni til að geta beitt sér bæði innanlands og utan í þágu þjóðarinnar þegar mikið liggur við.
Þeir sem gagnrýna framgöngu forsetans nú mega hafa í huga að hann er eini embættismaður þjóðarinnar sem kjörinn er beint af landsmönnum. Í næstu forsetakosningum hafa kjósendur tækifæri til að leggja dóm á stöf hans á beinni hátt en nokkur annar embættismaður þarf að sæta.
Ég tel ákveðna mótsögn í því að vilja annars vegar minnka ofríki framkvæmdavaldsins og jafnframt bægja forsetanum frá nauðsynlegri þátttöku í því að hjálpa til í þeim vanda sem þetta sama framkvæmdavald og dofið þing áttu sinn þátt að koma okkur í.
Ef gagnrýna ætti störf forsetans síðustu ár er það kannski helst að hann hafi líka verið sofandi á verðinum gagnvart því sem var að gerast.
Ég sé líka ákveðna mótsögn í því þegar sumir vilja breyta stjórnskipuninni í svipað horf og er í Bandaríkjunum eða Frakklandi en vera jafnframt á móti því að kjörinn þjóðhöfðingi hér á landi leggi sitt lóð á vogarskálarnar og veit þingi og ríkisstjórn aðhald þegar þess er þörf.
Deila má um hversu langt forsetinn megi ganga og um einstök ummæli hans og afskipti.
Hitt er ljóst að enginn Íslendingur er í neitt svipaðri stöðu til að hafa áhrif erlendis og þjóðhöfðingi okkar, bæði vegna þeirra sambanda og stöðu sem hann hefur komið sér í erlendis og þeirrar sérstöððu sem þjóðhöfðingi hvers lands hefur erlendis.
Auk þess er leitun að Íslendingi sem hefur þann bakgrunn, þekkingu og færni til að gera þetta og Ólafur Ragnar.
![]() |
Ólafur Ragnar ræðir stöðu Íslands við fjölda fjölmiðla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)