Gleði hjá gömlum Mývetningum.

Strax þegar enski boltinn byrjaði á Íslandi myndaðist mikill áhugi á honum

Ég minnist þess enn hvað ég varð hissa þegar Magnús Kjartansson, ristjóri Þjóðviljans og einn helsti talsmaður kommanna á sínum tíma játaði fyrir mér að hann væri sjúklegur áhugamaður um enska boltann.

Og enn skemmtilegra var það að uppgötva um öfluga hópa vildarmanna einstakra enskra félaga úti á landi.

Sérstakleg er mér minnisstætt að í Mývatnssveit var mjög öflugur hópur aðdáenda og fylgjenda Leeds United fyrir 35 árum.

Eftir langa og stranga eyðimerkurgöngu hlýtur það að vera síðbúið en mikið gleðiefni hjá þessum mönnum að Leeds skyldi slá sjálfa Englandsmeistarana út úr bikarkeppninni.

Fyrir suma þessara aðdáenda kemur kannski þessi sigurleikur kannski of seint, því miður, því ekki er víst að allir þeirra hafi átt það langa lífdaga fyrir höndum að fagna í dag.


mbl.is Leeds sló Manchester United út úr bikarnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandamálin varðandi undirskriftasafnanir.

Við ófullkomnar aðstæður í vanþróuðum ríkjum er alltaf hætta á kosningasvikum og einnig þar sem ofríki stjórnvalda er mikið.

Í okkar heimshluta eru svik hins vegar fátíð í kosningum.

Vandamálin varðandi undirskriftasafnanir eru erfiðari viðfangs og hafa alltaf verið.

Það er erfiðara að mörgu leyti að ná í undirskriftir með gamla laginu eins og þeir fengu að reyna sem stóðu fyrir söfnun Umhverfisvina gegn áformum um drekkingu Eyjabakka.

Listum var stolið eða þeir eyðilagðir enda gríðarlegur hiti í málinu.

Slíku er ekki til að dreifa í netkosningum en þar koma önnur vandamál upp sem leysa þarf úr svo að þær verði ekki ó marktækar eins og dæmin sanna.

Skoðanakannanir á netinu held ég að séu enn ekki eins marktækar og kannanir á borð við ÞJóðarpúls Gallups, en auðvitað veldur mjög hver á heldur því að um svona netkannanir virðast ekki gilda neinar reglur.


mbl.is Kannast ekki við fjöldapóst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áttum okkur ekki á gildi vetrarins.

Í ferðum mínum um landið og umræðum um möguelika íslenskrar ferðaþjónustu á veturna hef ég rekist á mikla vantrú á því að hægt sé að fá erlenda ferðamenn til landsins að vetrarlagi. 

Þessu finna menn allt til foráttu, segja að hér sé allt of mikið myrkur, kuldi og vindasamt og umhleypingasamt í ofanálag.

Þessir úrtölumenn gefa sér það að útlendingar hafi alveg sömu sjónarmið í þessu efni og við sjálf.

Eftirminnilegustu áramót sem ég hef lifað var gamlárskvöldið sem við Helga fórum inn í Þórsmörk til að halda upp á giftingarafmæli okkar.

Sú ferð varð eftirminnilegri en nokkur af sumarferðum okkar vegna þess hve mjög vetrarfegurðin kom á óvart.

En þar að auki eru þær hliðar vetrarins sem fara mest í taugarnar á okkur heillandi í augum þeirra útlendinga sem aldrei hafa upplifað slíkt.

Þannig var blaðamaður Sunday Telegraph sem hingað kom yfir hátíðarnar og skrifaði um það í blað sitt hrifnastur af skafrenningnum og lýsti honum fjálglega.

Vetrarfegurðina við Mývatn sýndi ég fyrir rúmum áratug í Sjónvarpinu og notaði frábærar nýjar kvikmyndir Friðþjófs Helgasonar af henni.

Á hálendinu norður af Mývatni eru náttúruundur sem njóta sín jafnvel þótt hríðarveður sé og lítið skyggni, því að gígarnir og gjárnar njóta sín samt þegar komið er á vélsleða inn í þær.

En nyrðra rekst maður samt á miklar úrtölur um mögueikana sem vetrarríkið gefur í ferðamennsku, því miður.  


mbl.is Póstkortaveður við Mývatn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. janúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband