Áttum okkur ekki á gildi vetrarins.

Í ferðum mínum um landið og umræðum um möguelika íslenskrar ferðaþjónustu á veturna hef ég rekist á mikla vantrú á því að hægt sé að fá erlenda ferðamenn til landsins að vetrarlagi. 

Þessu finna menn allt til foráttu, segja að hér sé allt of mikið myrkur, kuldi og vindasamt og umhleypingasamt í ofanálag.

Þessir úrtölumenn gefa sér það að útlendingar hafi alveg sömu sjónarmið í þessu efni og við sjálf.

Eftirminnilegustu áramót sem ég hef lifað var gamlárskvöldið sem við Helga fórum inn í Þórsmörk til að halda upp á giftingarafmæli okkar.

Sú ferð varð eftirminnilegri en nokkur af sumarferðum okkar vegna þess hve mjög vetrarfegurðin kom á óvart.

En þar að auki eru þær hliðar vetrarins sem fara mest í taugarnar á okkur heillandi í augum þeirra útlendinga sem aldrei hafa upplifað slíkt.

Þannig var blaðamaður Sunday Telegraph sem hingað kom yfir hátíðarnar og skrifaði um það í blað sitt hrifnastur af skafrenningnum og lýsti honum fjálglega.

Vetrarfegurðina við Mývatn sýndi ég fyrir rúmum áratug í Sjónvarpinu og notaði frábærar nýjar kvikmyndir Friðþjófs Helgasonar af henni.

Á hálendinu norður af Mývatni eru náttúruundur sem njóta sín jafnvel þótt hríðarveður sé og lítið skyggni, því að gígarnir og gjárnar njóta sín samt þegar komið er á vélsleða inn í þær.

En nyrðra rekst maður samt á miklar úrtölur um mögueikana sem vetrarríkið gefur í ferðamennsku, því miður.  


mbl.is Póstkortaveður við Mývatn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Fegurð vetrarins er gríðarlega mikil og möguleikarnir sömuleiðis í ferðamennskunni.

Mér dettur í hug vantrú eldra fólks á því að einhver vildi skoða hraun og sanda. Móður minni heitinni fannst ekkert fallagt við landið nema að það væri gróið og grænt.

Skepnurnar þurftu svo mikið og gott að borða. Held að þetta séu leifar frá gamla tímanum þegar auðn þýddi svengd/hungur en grænt þýddi að vera saddur með fullann magann.

Sama er með veturinn, hann er sá tími þegar erfiðara var að bjarga sér, verða saddur. Þetta liggur svo sterkt í undirmeðvitundinni og við hlustum víst á hana.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 3.1.2010 kl. 14:51

2 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Veturinn hér er mjög sérstakur og fegurðin er bara öðruvísi en á sumrin. Þegar ég skoða ljósmyndirnar sem ég hef tekinn hér heima þá tók ég talsvert fleiri myndir á veturna. Birtan er þá alveg æðisleg.

Úrsúla Jünemann, 3.1.2010 kl. 16:40

3 Smámynd: Ingimundur Kjarval

Já væri ekki ráð að opna skíðastaði á hálendinu yfir veturinn. Þeir skíðastaðir í Evrópu og Bandaríkjunum sem eru næst fólksfjöldanum berjast stöðugt við snjóleisi og þíðu.

Síðan væri hægt að tengja þetta skoðunarferðum. Sjálft skammdegið er upplifelsi fyrir þá sem lifa sunnar. Það er fátt fallegra en skammdegissólin. Sunnar, þegar sólin birjar að lækka, dimmir fljótt. Hvað er fallegra en margra klukkutíma sólsetur.

Ingimundur Kjarval, 4.1.2010 kl. 14:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband