11.10.2010 | 21:01
Eyjólfur Sverrisson í annað sinn !
Þegar ég þurfti að velja 100 merkilegustu fréttir síðustu aldar í þætina "Fréttir aldarinnar" var úr vöndu að ráða varðandi þær örfáu íþróttafréttir sem ættu þar heima.
Meðal þeirra var sá atburður þegar Íslendingar voru nálægt því að halda jöfnu á móti sjálfum heimsmeisturum Frakka á troðfullum heimavelli þeirra í París og það í alvöru leik í stórmóti en ekki vináttulandsleik.
Íslendingar komu Frökkum í opna skjöldu allan leikinn með því að hafa í fullu tré við heimsmeistarana svo að þeir máttu þakka fyrir að merja eins marks sigur.
Eyjólfur Sverrisson skoraði glæsimark af löngu færi og munaði minnstu að það nægði til þess að ná jafntefli.
Nú hefur Eyjólfur leitt nýtt gullaldarlið lengra en nokkurt íslenskt knattspyrnulið hefur áður náð og enn eru það glæsimörk sem ráða úrslitum.
Vísa að öðru leyti í næsta pistil minn á undan þessum um þessa frábæru frammistöðu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.10.2010 | 20:50
Hvílíkur leikkafli !
Tíu mínútur í leik Íslendinga og Skota verða lenga minnisstæðar. Staðan var markalaus og Skotar þurftu aðeins að skora eitt mark til þess að komast áfram á markinu á útvelli, sem þeir skoruðu í Reykjavík.
Þá skoraði Gylfi Þór Sigurðsson glæsimark, sem er í klassa með því besta sem sést í knattspyrnu og skyndilega þurftu Skotar að skora tvö mörk til að falla ekki út þá þegar.
En þá gerðist eitt ótrúlegasta atvik sem ég minnist þegar Skotar tóku miðju og skutu þegar í stað af 50 metra færi og gerðu ótrúlegt mark, því að þeir sáu að íslenski markvörðurinn stóð framarlega.
Staðan var samt skárri en meðan hún var markalaus en Gylfi Þór Sigurðsson lét sér það ekki nægja heldur skoraði annað glæsimark, engu síðra en hið fyrra, sannkallað heimsklassamark, Messi-mark.
Ég var sannfærður um það þegar KSÍ-forystan tók þá ákvörðun á láta þetta landslið hafa forgang á aðallandsliðið að það væri rétt ákvörðun.
Nú hefur komið í ljós að sú ákvörðun var rétt. Við erum einfaldlega með mun betri knattspyrnukynslóð í höndunum í þessu gullaldarliði en þær sem á undan fóru.
Í framtíðinni munu menn þakka þá framsýni sem fólst í þessari erfiðu ákvörðun.
![]() |
Ísland í úrslit EM |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.10.2010 | 15:31
"Ber er hver að baki..."
Íslendingar eiga mikið að þakka í gegnum sögu sína því fólki, sem við höfum getað kallað "Íslandsvini".
Í gegnum aldirnar hefur munið mikið um atbeina þeirra út á við.
Daninn Rasmus Kristján Rask reyndist okkur drjúgur liðsmaður á 19. öld og fleiri Hauka í horni höfðum við átt.
Eva Joly fellur inn í þennan flokk Íslandsvina sem tala máli okkar svo að eftir er tekið. Það er dýrmætt í baráttunni, sem nú er háð.
![]() |
Joly: Tilvera Íslands í húfi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
11.10.2010 | 10:06
Hinn "veiki maður" Vesturlanda ?
Sú var tíð að breska heimsveldið bar ægishjálm yfir önnur heimsveldi. Sagt var að sólin settist aldrei í lendum þess hringinn í kringum hnöttinn.
Breski flotinn var sá langstærsti í heimi og Bretar gátu beitt honum til þess að taka í taumana, hvar sem nýtlenduveldi þeirra var ógnað á einhvern hátt.
Á fyrstu árum síðustu aldar reyndu Þjóðverjar að keppa við þá og afleiðingin varð heimsstyrjöldin fyrri.
Þótt Bretar ynnu þar sigur var hins vegar ljóst að ekki var allt sem fyrr og í heimskreppunni varð Sterlingspundið að láta undan eftir að hafa verið tryggasti gjaldmiðill heims.
Sigur í seinni heimsstyrjöldinni var Phyrrosarsigur og skildi heimsveldið og heimalandið sjálft eftir í sárum, skuldugt og þjakað af hráefnaskorti.
Þjóðir heimsveldisins brutust til sjálfstæðis og Bretland hlaut meðal annars nafnið "the sick man of Europe".
Saga bandaríska veldsins er um margt keimlík sögu hins breska.
Eftir heimsstyrjöldina síðari báru Bandaríkin ægilshjálm yfir önnur heimsveldi enda eina stríðsþjóðin sem ekki varð fyrir tjóni heima hjá sér.
Síðustu áratugi hefur hins vegar ekki allt verið með felldu. Í skjóli gríðarlegs fjárlagahalla árum saman og hrikalegra erlendra skulda hefur tekist að halda í horfinu en ný veldi eru að rísa í Asíu og engum dylst lengur að olíuöldin, sem hefur tryggt "hinn ameríska lífsstíl" hefur náð hámarki og héðan af getur leiðin ekki legið nema niður á við.
Kannski eru Bandaríkin orðið "the sick man of the western world", hinn veiki maður Vesturlanda.
![]() |
Dalur á niðurleið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)