16.10.2010 | 23:25
Október samt vel yfir meðallagi.
Næstu viku er spáð meðalhita í Reykjavík upp á 5-6 stig, sem er aðeins hlýrra en í meðalári, þótt norðlægar áttir verði ríkjandi, því að meðalhiti í október í Reykjavík er 4,5 stig.
Fyrirsjáanlegt er að október verði mun hlýrri en í meðalári þótt svalt verði það sem eftir er mánaðarins.
Ég er nýkominn úr flugi yfir mestallt hálendið og hvergi sést snjór, ekki einu sinni í Öskju, sem er í 1100 til 1500 metra hæð. Aðeins er hvítt á tindi Herðubreiðar en alautt í Kverkfjöllum, sem teygja sig upp í 1920 metra hæð.
Ætla að skjóta inn ljósmyndum úr þessu ferðalagi þegar búið er að leysa tæknilegt vandamál, sem kemur í veg fyrir það í augnablikinu.
![]() |
Veðrabrigði í nánd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.10.2010 | 16:26
Áratuga reynsla í Lapplandi.
Áratuga reynsla er af því að nota íshótel í Lapplandi, bæði Svíþjóðarmegin og Finnlandsmegin, sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn.
Við Helga fórum þangað fyrir sex árum og tókum myndir og viðtöl, sem ég sýndi í Sjónvarpsfréttum.
Fyrir um áratug var prófað að gera svipað á Langjökli á yfirborði jökulsins en augljóslega er miklu traustara og jafnvel skemmtilegra að búa til völundarhús neðanjarðaríshótels í jökli hér á landi eins og nú er loksins farið að athuga varðandi Langjökul.
Búast má við ýmsum mótbárum gegn hugmyndum um neðanjarðaríshöll og hótel í Langjökli, svo sem þá að ísgöngin aflagist smám saman og þurfi viðhald.
Ef svipaðar mótbárur hefðu verið viðhafðar í Lapplandi hefði aldrei verið gert neitt íshótel þar, því að þau bráðna til grunna á hverju voru og verður að endurbyggja þau árlega.
Hér á landi eru til gríðarlegir íshelldar í skriðjöklum, sem finnast einn og einn en aflagast síðan smám saman. Reynslan sýnir þó að hver þeirra getur haldið sér í nokkur ár, jafnvel meira en áratug, en síðan myndast nýir.
Fleiri ferðamenn koma til Lapplands á veturna en allt árið til Íslands.
Allar mótbárur varðandi það að lengra sé að fara til Íslands frá vestanverðri Evrópu en til samkeppnislanda eru fráleitar, því að það er styttra að fara hingað heldur en til Lapplands.
Landslag allt og sérstaða er slík hér á landi að landið okkar tekur Lapplandi langt fram.
Til Lapplands eru ferðamenn laðaðir með því að selja þeim fernt: Kulda, myrkur, þögn og ósnortna náttúru.
Kuldann og myrkrið hafa Íslendingar hins vegar talið til ókosta og þögnin er nú víða rofin með hvæsandi borholum.
Náttúran í Lapplandi byggist að mestu á snævi þakinni flatneskju með skógum og frosnum vötnum.
Helstu skíðasvæðin eru utan í ávölum ásum.
Þættu þau ekki sérlega merkileg hér.
Eftir síðasta stríð trúðu evrópsk börn því að jólasveinninn væri á Íslandi og skrifuðu þúsundir bréfa sem okkur var mikill ami af.
Svo fór að Finnar "stálu" jólasveininum af okkur og fá nú tugþúsundir ferðamanna til Rovaniemi til þess að skoða stórbrotin heimkynni hans, sem þar hafa verið reist.
Finnar eiga einn jólasvein, hreindýr og frosin vötn og skóga og alþjóðaflugvöll í Rovaniemi.
Við eigum þrettán jólasveina, Grýlu, Leppalúða, tröllinn, álfakóng og álfadrottningu, hreyndýr, frosin vötn og skóga og stór fjöll á austurhálendinu, auk alþjóðaflugvallar á Egilsstöðum.
En álver var það eina sem gat "bjargað" Austurlandi.
Finnar fóru út í þessa hluti í mikilli kreppu fyrir fimmtán árum eftir að þeir höfðu hætt við að reisa síðustu st'órvirkjun landsins fyrir stóriðju.
Í dag dytti engum slíkt í hug þar. En við keyrum á stóriðjuna sem aldrei fyrr.
![]() |
Vilja gera ísgöng í Langjökli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
16.10.2010 | 13:39
Þeir greiði sem njóta ?
Víða erlendis er tekinn aðgangseyrir að þjóðgörðum. Í Bandaríkjunum eru hlið og þar er hægt að kaupa aðgang í eitt skipti eða með magnafslætti fyrir mörg skipti.
Í hliðinu er þess gætt að allir fái í hendur góðan bæklning með reglum þjóðgarðsins, korti af honum og nauðsynlegum upplýsingum.
Alls staðar vestra er þetta talið sjálfsagt mál og í samræmi við þá höfuðreglu að þeir borgi sem njóta.
Eftir því sem friðuðum svæðum fjölgar hér á landi og í ljósi þess að langflestir erlendir ferðamenn eru hingað komnir samkvæmt skoðanakönnunum til þess að skoða einstæða náttúru lansins, gerist tvennt
Annars vegar aukast líkur á því að ferðamenn fari inn á þessi svæði ef þeir á annað borð koma til landsins , - og hins vegar verður flóknara og erfiðara að innheimta svona gjöld alls staðar því að aðstæður til þess eru misjafnar og sums staðar ógerlegt að koma þessu við, vegna aðstæðna.
Ef farin verður sú leið að innheimta heildargjald af öllum ferðamönnum er það ekki sanngjarnt gagnvart þeim sem ekki hyggjast fara inn á náttúruminjasvæðin og friðuðu svæðin.
Ef tekið er mið af þjónustunni sem veitt er í þjóðgörðum vestanhafs ættu allir þeir sem borga þetta gjald að fá miða, sem tryggir þeim ókeypis kynningarbæklinga um þau svæði, sem hliðstæð eru þjóðgörðum vestra.
![]() |
Andstaða við gistináttagjald |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2010 | 13:22
Frá árum einvaldanna.
Á árum einvaldanna Davíðs og Halldórs var annar hvor þeirra utanríkisráðherra lengst af. Um samvinnu þeirra gilti bandaríska máltækið, "ef þú klórar mér á bakinu skal ég klóra þér."
Þennan tíma fékk utanríkisráðuneytið frítt spil hvað varðaði útgjöld og fjárfestingar í lúxusvillum fyrir sendiráðin.
Salan á húsnæðinu í London sýnir eitt dæmi þess.
Ég hef komið í sendiráð Indlands í Reykjavík. Indverjar eru 3000 sinnum stærri þjóð en Íslendingar en láta sér nægja skrifstofuhúsnæði í blokk við Sæbraut.
![]() |
900 milljóna gróði af sölu sendiherrabústaðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.10.2010 | 12:11
Lýðræðið er óhjákvæmilega dýrt.
Í 66 ár hefur það verið yfirlýst stefna íslenskra stjórnvalda að setja landinu nýja stjórnarskrá.
Oftar en einu sinni hafa verið settar á stofn nefndir stjórnmálamanna til þess að gera þetta en aldrei hefur þessum nefndum tekist ætlunarverk sitt.
Tvisvar hefur kjördæmum verið breytt og fyrir rúmum áratug voru sett ákvæði um mannréttindi sem sárlega vantaði.
Fróðlegt væri að skoða hve mikla fjármuni allt þetta basl hefur kostað samtals, en það gæti hlaupið á milljörðum sé allt til talið, svo sem tvennar alþingiskosningar, sem haldnar voru árið 1959 vegna breytingar á kjördæmaskipaninni.
Að ekki sé nú talað um tvennar kosningar vegna kjördæmabreytinga snemma á fjórða áratugnum og tvennar kosningar árið 1942 af sömu orsökum, ef menn skoða þetta mál 80 ár aftur í tímann.
Mörgum kann að blæða í augum þessi kostnaður, ekki hvað síst þegar kostnaður vegna komandi stjórnlagaþings bætist nú ofan á á slæmum tíma.
En það mætti líka reyna að finna út hve mikið það hefði kostað að gera alls ekki neitt eða reyna ekki neitt.
Til dæmis væri fróðlegt að velta fyrir sér hvernig stjórnmálaástandið væri nú ef við byggjum enn við kjördæmaskipanina frá 1931 eða frá árinu 1959.
![]() |
Hálfur milljarður í stjórnlagaþing |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)