"Slæmt ef það vorar vel og snemma..."

Þessi orð Stefáns Ásbjarnarsonar, bónda á Guðmundarstöðum í Vopnafirði, koma upp í hugann þegar ég lendi FRÚnni um þessar mundir á túnum, sem þyrfti að slá í þriðja sinn í sumar eða jafnvel fjórða sinn.

En þegar ég heimsótti þá bræðurna Stefán og Sighvat á Guðmundarstaði sumarið 1976 fékk maður að skyggnast inn í alveg sérstaka veröld manna, þar sem nægjusemin var fyrir öllu og lifað frá hendinni til munnsins eins og hægt var. '

Þeir höfðu aldrei skuldað neinum neitt, ekkert rafmagn var á bænum og engar heyvinnuvélar.

Aldrei hafði þeim dottið í hug að slétta þýft túnið eða stækka það.

Þeir voru með rafhhlöðuknúin sjónvarptæki og útvarpstæki, áttu ágætt bókasafn og voru eins vel að sér um hvaðeina í veröldinni, fjarlægar þjóðir, menningu, listir og tækni eins og best gerist.

Ég ræddi við þá um heyskaparhorfur og spurði hvort ekki hefði verið kalt vor

"Jú það voraði seint og var kalt langt fram á sumar", svaraði Stefán. 

"Er það ekki slæmt?", spurði ég eins og ég hafði spurt marga bændur fyrr um sumarið og fengið þá til að barma sér yfir slæmri tíð. 

"Nei það er gott", svaraði Stefán. "Það er slæmt þegar vorar vel og snemma." 

"Af hverju segirðu það?" spurði ég. 

Stefán leit á mig með undrunarsvip yfir svo fávíslegri spurningu. 

"Það er vegna þess," svaraði hann, "að þá sprettur kannski svo vel að við þurfum að slá aftur." 

Ég spurði Sighvat af hverju þeir sléttuðu ekki túnið í stað þess að vera slá það á mjög seinlegan hátt með orfi og ljá.

"Það er verra ef túnið er slétt", svaraði Sighvatur. 

Aftur gerði ég mig beran að fávisku þegar ég spurði: "Af hverju er það?" 

"Það er vegna þess að þá slær maður miklu meira á skemmri tíma og það er meiri áreynsla, meiri sviptingar", svaraði Sighvatur. 

Bæði svör bræðranna voru rétt og spurningar mínar fávíslegar miðað við þá búskaparhætti naumhyggju og nægjusemi sem þeir höfðu í heiðri. 

Allur heyskapurinn miðaðist við það að ná á sumartímanum nákvæmlega nógu miklu heyi saman til þess að það nægði fyrir bústofn sem var ekki skepnu stærri en bráðnauðsynlegt var. 

Þeir voru til dæmis ekkert að hamast við að koma öllu heyinu í hús, heldur hlóðu stórum hluta heyfengsins upp í fúlgur hér og þar á túninu og enginu og voru síðan allan veturinn að bera það smám saman inn í hlöðu og í fjárhúsin. 

Stefán komst hátt á tíræðisaldur og enda hafði hann aldrei alla sína ævi gengið nærri sér í erfiði eða streitu. 

Stundum verður mér hugsað til þeirra bræðra þegar ég horfi á okkur nútímafók með allar okkar búksorgir og Hrunvandamál. 

Ef einhver efast um að ofangreint sé rétt eftir haft getur hann keypt þátt um þá á DVD, sem RUV gaf út sem eina af Stiklunum fyrir fjórum árum. 

Hann er í svart-hvítu eins og hæfir viðfangsefninu, enda einn af síðustu þáttunum af þessu tagi, sem tekinn var áður en Sjónvarpið fór í litinn. 


mbl.is Túnin slegin í október
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lánin hljóta að vera aðalástæðan.

Nú liggur fyrir að kaupmáttur launa hafi rýrnað um meira en 15% en samt sé hann svipaður og hann var fyrir sjö árum. Fyrir sjö árum var ekki svo arfaslæmt að búa á Íslandi, þannig að ástæðan fyrir því hve fólk hefur það slæmt hlýtur að felast í tvennu:

Skuldir heimilanna fjórfölduðustu á þessum árum og síðan hafa þær vaðið enn meira upp vegna verðbólgu og erlendu lánin hækkað enn meira. 

Lánin notuðu margir til þess að kaupa sér stærra húsnæði, stærri bíla og ýmis önnur þægindi. 

Nú sitja þeir sem þetta gerðu uppi með of stórt húsnæði og of stóra bíla, sem ekki er hægt að selja nema með miklu tapi, ef það er þá seljanlegt yfirleitt. 

Ef kreppan fælist aðeins í því að kaupmáttur væri nú orðinn svipaður og fyrir sjö árum, gæti hún vart talist svo alvarleg. Hún er hins vegar grafalvarleg vegna þess sem að ofan var talið, því miður. 


mbl.is „Það er bara allt skorið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. október 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband