20.10.2010 | 11:45
Erfitt mat.
Ég hef áður rakið hér á blogginu hvað ýmsar niðurstöður alþjóðlegra kannana geta verið hæpnar ef forsendurnar eru rangar.
Þannig var spilling talin minnst hér í slíkri könnun þegar hún var augljóslega afar mikil og þetta heiðurssæti bara eitt dæmið um þá einstæðu firringu sem hér ríkti á árum Græðgisbólunnar.
Ísland var talið með eitthvert besta ástand í umhverfismálum á sama tíma og stefnt var að framkvæmdum með mestu mögulegu neikvæðum umhverfisspjöllum sem hugsast gátu og auk þess komust Íslendingar upp með það að skila auðu í dálkinn "ástand jarðvegs og gróðurs", sem sé NA, upplýsingar ekki fyrir hendi.
Var þó Ólafur Arnalds búinn að fá umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs einmitt fyrir rannsóknir sínar á því sviði. Ísland setti NA í dálkinn sem og ýmsar aðrar þjóðir þar sem allt var líka í steik í jarðvegsmálum, svo sem Úkraina og nokkur lönd í austanverðri Evrópu.
Í kringum aldamótin sýndist á yfirborðinu að talsvert frelsi ríkti hér í dagblaðaútgáfu þar sem Mogginn og DV kepptu um hylli lesenda. En í raun var það svo skömmu áður en Fréttablaðið var sett á fót að hægri menn og Sjálfstæðisflokkurinn næstum því einokuðu þennan markað með því að ráða yfir báðum þessum dagblöðum, Mogganum og DV.
Davíð lét sér þetta vel líka þangað til skyndilega var komin upp ný staða þar sem Mogginn og Fréttablaðið voru í höndum þeirra tveggja andstæðu valdablokka, sem þá börðust um völd og áhrif.
Þá þótti honum nauðsynlegt að setja á fjölmiðlalög sem augljóslega miðuðu að því að klekkja á þeim sem þá ógnuðu hinu gamla veldi Kolkrabbans.
Í raun hafa orðið miklar sviptingar á fjölmiðlasviðinu síðan hið gamla og 60 ára gamla kyrrstöðuástand Morgunblaðsins-Vísis-Tímans-Þjóðviljans-Alþýðublaðsins var fast í sessi.
Sveiflurnar hafa í meginatriðum orðið þrjár: Fyrst nær alger einokun Davíðsmanna um aldamótin, síðan hörð keppni milli Fréttablaðsins og Morgunblaðsins og nú síðast sú staðreynd að keppni þessara blaða er komin að miklu leyti í sama far og hin harðpólitíska keppni gömlu flokksblaðanna á sinni tíð.
Það þýðir að fólk verður nú að lesa Morgunblaðið og Fréttablaðið með svipuðum augum og gömlu flokksblöðin voru lesin á öldinni sem leið, og taka ýmsu í þeim með fyrirvara með tillitii til þess að Mogginn og Fréttablaðið eru nú í eigu tveggja hópa sem berjast um völd, áhrif og fjármagn á Íslandi.
Annars vegar sægreifarnir og leifar Kolkrabbans, en hins vegar fjármálagreifarnir.
Bloggið, Fésbókin og Netið sjá um það að þessi valdabarátta er þrátt fyrir allt með ákveðið aðhald og takmörkun á því hve langt er hægt að ganga í því að nota fjölmiðla blygðunarlaust í valdabaráttu.
Mat á frelsi fjölmiðla og samanburður milli landa er erfitt verkefni.
Hve mikið er frelsi Morgunblaðsins gagnvart eigendum sínum og ritstjóra, sem þekkir ekkert annað en valdabaráttu, sem eru hans ær og kýr?
Hve mikið er frelsi 365 miðlanna gagnvart eigendum sínum sem eiga í grjótharði baráttu við að viðhalda sínu eftir hremmingar Hrunsins?
![]() |
Frelsi fjölmiðla mest hér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.10.2010 | 07:39
Hálfvitinn skal hann heita.
Þegar tákn Græðgisbólunnar reis og olli tjóni í öryggismálum sjófarenda sem kostar tugi milljóna að bæta, ef reynt verður, gaf ég þessum Babelsturni heitið Hálfvitinn.
Því að sú er staða hans miðað við vitann í Sjómannaskólaturninum. Bygging Hálfvitans var lögbrot en þó er hann fyrst og fremst tákn um siðbrot Græðgisbólunnar.
Hans vegna var molað mélinu smærra hið fallega hornhús á mótum Skúlagötu og Skúlatúns og Hálfvitinn, ómerkilegasta hús borgarinnar, yfirgnæfir svo mjög merkilegasta og jafnframt eitt fallegasta hús hennar, Höfða, að fundarstaður leiðtoga heimsins verður eins og dúfnakofi í samanburðinum.
En verðugra minnismerki um oflæti, græðgi, frekju og yfirgang Græðgisbólunnar er vandfundið.
Ekki hefur álit mitt á Hálfvitanum vaxið við það að hann skyggir á útsýnið til Snæfellsjökuls úr blokkinni sem ég bý í og mörgum öðrum húsum.
![]() |
Fáviti og hálfviti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (35)