Nikotínið er erfiðast viðfangs.

Tölurnar um reykingar alkóhólista eru sláandi og ýmislegt fleira er sérkennilegt varðandi nikótínfíknina.

Ekkert fíkniefni kemst nálægt nikótíninu í því hve erfitt er að venja sig af neyslu þess. 33% þeirra sem byrja að reykja geta með engu móti hætt og það er miklu hærri prósenttala en gildir um nokkurt annað efni. 

Nikótínið er svo erfitt, að þegar fíklar, sem reykja, koma í meðferð, er þeim ráðlagt að einbeita sér að því að hætta neyslu þess fíkniefnis sem veldur mestum daglegum vandræðum, en geyma það að fást við nikótínið.

Ég fylgdist nokkuð vel með því þegar einn besti vinur minn réðist gegn fíkniefnavanda sínum sem var orðinn mjög alvarlegur.  

Baráttan tók nokkur ár og hann hafði sigur gegn fíkniefnum, sem verst þykja viðfangs. En eitt fíkniefnið varð að lokum erfiðast og gekk verst að fást við. 

Það var nikótínið. 

Að lokum hafðist sigur í þeim slag en sjálfur sagði hann að sú barátta hefði verið lang erfiðust. 


mbl.is 79% alkóhólista reykir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvöfeldni Bandaríkjamanna.

Bandaríkjamenn guma af því að berjast fyrir frelsi og lýðræði í heiminum. En þetta nær ekki þumlungi lengra en nemur því sem kallast "brýnir öryggishagmunir" þeirra sjálfra.

Þegar Churchill þurfti að réttlæta það fyrir breska þinginu að Bretar færu í náið bandalag við fjöldamorðingjann Stalín réttlætti hann það með því að hann ætti ekkert annað val, ef takast ætti að kveða niður enn meiri villimennsku, þá mestu í sögunni. 

"Við erum að berjast við þvílíkt illþýði," sagði hann, "að jafnvel þótt ég þyrfti að gera bandalag við sjálfan Djöfulinn gegn þeim, myndi ég áreiðanlega finna einhver góð orð til að segja um skrattann í neðri málstofunni". 

Í Saudi Arabíu ríkir flest það sem vestræn lýðræðisríki segjast vera að berjast á móti, alræði spilltrar fjölskyldu og valdaklíku sem veit ekki sinna aura tal, og forneskjulegt réttarkerfi þar sem mannréttindi og jafnrétti eru fótum troðin. 

En á meðan olíuöldin varir telja Bandaríkjamenn sig neydda til að hafa olíufurstana góða svo að áfram sé hægt að viðhalda mesta orkubruðli heims, "the American way of living", amerískum lifnaðarháttum. 

Við hjónin komum á sínum tíma í fjallabæinn Avon í Colorado, en þar hefur verið stefnt að því að fara fram úr Aspen að frægð, ríkidæmi og vegsemd.

Ef menn vilja, geta þeir farið með skíðabúnað sinn í lyftu inni í jarðgöngum upp á topp, skíðað þaðan niður í jaðar bæjarsins, farið þar úr skíðagallanum í golfgalla og spilað golf niður eftir golfvelli, sem tekur við af skíðabrekkunni !

Til að tryggja að auðstéttin geti notið nauðsynlegs öryggis eru hverfin með lúxusvillunum afgirt með öryggisgirðingum og mikill viðbúnaður með öryggisvörðum og tilheyrandi. 

Þegar við vorum þarna náðu heimamenn ekki upp í nefið á sér af monti yfir því að krónprinsinn í Sádi-Arabíu skyldi í fyrsta sinn hafa tekið Klettafjöllin fram yfir Alpana í skíðafríi sínu.

En þeir voru jafnframt yfir sig hneykslaðir á bruðli Arabanna, sem hefðu tekið heilt hótel með hundrað herbergjum á leigu fyrir krónprinsinn og hefðu til afnota þyrlur og sæg af lúxuslimmum. 

Þegar ég benti þeim á alla risastóru pallbílana og lúxusbílana, sem heimamenn ættu sjálfir og þyrftu á því að halda að hafa olíufurstana góða til að fá á þá mikið og ódýrt eldsneyti og spurði hvort þeir hefðu efni á að hneykslast mikið, varð fátt um svör. 

 


mbl.is Stærsta vopnasala í sögu Bandaríkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. október 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband