Tvöfeldni Bandaríkjamanna.

Bandaríkjamenn guma af því að berjast fyrir frelsi og lýðræði í heiminum. En þetta nær ekki þumlungi lengra en nemur því sem kallast "brýnir öryggishagmunir" þeirra sjálfra.

Þegar Churchill þurfti að réttlæta það fyrir breska þinginu að Bretar færu í náið bandalag við fjöldamorðingjann Stalín réttlætti hann það með því að hann ætti ekkert annað val, ef takast ætti að kveða niður enn meiri villimennsku, þá mestu í sögunni. 

"Við erum að berjast við þvílíkt illþýði," sagði hann, "að jafnvel þótt ég þyrfti að gera bandalag við sjálfan Djöfulinn gegn þeim, myndi ég áreiðanlega finna einhver góð orð til að segja um skrattann í neðri málstofunni". 

Í Saudi Arabíu ríkir flest það sem vestræn lýðræðisríki segjast vera að berjast á móti, alræði spilltrar fjölskyldu og valdaklíku sem veit ekki sinna aura tal, og forneskjulegt réttarkerfi þar sem mannréttindi og jafnrétti eru fótum troðin. 

En á meðan olíuöldin varir telja Bandaríkjamenn sig neydda til að hafa olíufurstana góða svo að áfram sé hægt að viðhalda mesta orkubruðli heims, "the American way of living", amerískum lifnaðarháttum. 

Við hjónin komum á sínum tíma í fjallabæinn Avon í Colorado, en þar hefur verið stefnt að því að fara fram úr Aspen að frægð, ríkidæmi og vegsemd.

Ef menn vilja, geta þeir farið með skíðabúnað sinn í lyftu inni í jarðgöngum upp á topp, skíðað þaðan niður í jaðar bæjarsins, farið þar úr skíðagallanum í golfgalla og spilað golf niður eftir golfvelli, sem tekur við af skíðabrekkunni !

Til að tryggja að auðstéttin geti notið nauðsynlegs öryggis eru hverfin með lúxusvillunum afgirt með öryggisgirðingum og mikill viðbúnaður með öryggisvörðum og tilheyrandi. 

Þegar við vorum þarna náðu heimamenn ekki upp í nefið á sér af monti yfir því að krónprinsinn í Sádi-Arabíu skyldi í fyrsta sinn hafa tekið Klettafjöllin fram yfir Alpana í skíðafríi sínu.

En þeir voru jafnframt yfir sig hneykslaðir á bruðli Arabanna, sem hefðu tekið heilt hótel með hundrað herbergjum á leigu fyrir krónprinsinn og hefðu til afnota þyrlur og sæg af lúxuslimmum. 

Þegar ég benti þeim á alla risastóru pallbílana og lúxusbílana, sem heimamenn ættu sjálfir og þyrftu á því að halda að hafa olíufurstana góða til að fá á þá mikið og ódýrt eldsneyti og spurði hvort þeir hefðu efni á að hneykslast mikið, varð fátt um svör. 

 


mbl.is Stærsta vopnasala í sögu Bandaríkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

En þetta hlýtur að fara að líða undir lok.

Það er mikil umræða að myndast á netinu um næsta kafla kreppunnar, þegar dollarinn leysist upp í ryk og alvöru hrun myndast. Hugsaðu þér ef að sama staða kæmi upp í Bandaríkjunum og er á Íslandi. Ég er nú hræddur um að fólk myndi brenna meira en nokkra bekki fyrir utan þinghúsið þar.

Lausnin er náttúrulega að losa okkur við þá sem að stjórna ennþá á bakvið tjöldin og gáfu okkur Jesús Obama til að þagga niður í okkur. Kani nokkur að nafni Ron Paul fór í pólitík 1971 eftir að dollarinn var tekinn úr sambandi við gullið, tapaði fyrir McCain í seinasta forvali. Nú er fólk að vakna og sér eftir að hafa ekki hlustað á hann og aðra slíka sem hafa varað við þessari kreppu í áravís.

Leikritinu er ekki lokið ennþá.

Hörður Valsson (IP-tala skráð) 21.10.2010 kl. 15:27

2 Smámynd: Tómas Waagfjörð

Ættuð að kynna ykkur heimildarmynd sem heitir  "The Money Masters - How International Bankers Gained Control of America"

Ef eitthvað er til sem fær ykkur til að trúa því að kerfið eins og við þekkjum það sé ónýtt, þá er það þessi mynd.

Tómas Waagfjörð, 21.10.2010 kl. 22:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband