Skógrækt á barnsaldri.

Þótt skógrækt hafi verið stunduð á Íslandi í rúma öld er hún að ýmsu leyti ekki enn búin að slíta barnsskónum hvað það snertir að svo virðist sem lítil yfirsýn sé yfir verkefnin og verið að gera ýmis mistök. 

Í eðlilegum ákafa sínum við að planta trjám hafa ýmis fljótræðismistök verið gerð.

Ég hef áður sýnt barrtré, sem gróðursett voru í Sandey á Þingvallavatni og gott er ef ég ekki fjallað um það að sums staðar er landslag þannig, að ræktun stórra trjáa er beinlínis óæskileg. 

Sem dæmi má nefna austurhlíð ofanverðs Norðurárdals í Borgarfirði þar sem lágir klettastallar móta afar fallegt landslag, sem líkist risastórum tröppum. 

Þetta landslag yrði auðvelt að eyðileggja með plöntun hárra trjáa en vonandi verður það ekki gert.

Hér í Reykjavík eru menn nú að vakna upp við vondan draum varðandi það að setja aspir niður án þess að huga að afleiðingunum.

Nefna má tvenns konar afleiðingar: 

Rótarkerfið er miklu umfangsmeira en ætla mætti og getur valdið skemmdum líkum þeim sem orðið hafa við Landsspílann.

 Síðan er á það að líta að þessi tré verða oft svo hávaxin að þau byrja algerlega fyrir útsýni, þar sem það er mikils virði.

Í blokkaríbúðinni sem ég bý í við Háaleitisbraut hefur verið afar gott útsýni á báðar hendur. 

Nú hefur Hálfvitinn við Skúlatún tekið af okkur útsýni til Snæfellsjökul og aspir, sem gróðursettar hafa verið á lóðamörkum hinum megin við blokkina eru að taka stóran hluta útsýnisins til vesturs. 

Verkefni í skógrækt á Íslandi eru ærin og mikilsverð um allt land og því óþarfi að gera þau mistök að planta stórum trjám á svæðum þar sem þau eiga ekki við.  Nóg verkefni bíða samt fyrir það hugsjónafólk sem stundar það þjóðþrifastarf að rækta skóga.

Þegar Ari fróði sagði að landið hefði verið viði vaxið milli fjalls og fjöru merkir orðið viður vafalítið bæði hátt birki og reyni og kjarr, sem er viðartegund. 

Þegar rætt er um endurheimt landgæða sýnast mér birkitré og reynitré liggja beinast við víðast hvar. 

Einkum finnast mér reynitré vera til mikillar prýði. 

Það sem heillar erlenda gesti okkar einna mest er hið mikla útsýni sem hægt er að njóta hér á landi. 

 Þótt víðast hvar megi rækta skóg þarf að gæta þess að spilla ekki um of útsýni á þeim slóðum þar sem það er mikilfenglegast.

Velja þarf af yfirsýn og kostgæfni þau svæði, þar sem ræktun barrtrjáa og annarra stórra trjáa af erlendum uppruna á við, en forðast skipulagslausa og fljótfærnislega rækt þeirra á svæðum, þar sem þau skerða fallegt útsýni eða spilla yfirbragði landsins. 

 

 


mbl.is Aspir fjarlægðar af spítalalóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógleymanlegt augnablik.

Eitt ógleymanlegasta augnablikið þau ár sem ég var íþróttafréttamaður Sjónvarpsins var á landsmótinu á Vindheimamelum 1972 þegar ég fékk að vera komast afar nálægt frægasta gæðingi mótsins, Náttfara, þegar hann þaut fram hjá mér þar sem ég mundaði myndavélina.

Enn í dag á ég eritt með að lýsa þeim hrifningarstraumi sem fegurð, þokki, kraftur, mýkt, snerpa og glæsileiki þessa hests kveikti í brjósti mér þegar hann þaut fram hjá mér, krýndur af skagfirskum fjallahring í baksýn. 

Hvílíkt sköpunarverk, hvílík snilld!

Ég var að syngja inn með Ragga Bjarna lagið "Í þá gömlu góðu daga" upp á nýtt, stytta textann og færa til nútímans til þess að hafa það á 70 laga ferilsplötu sem Sena er að fara að gefa út. 

Nú eru Vígdís, Björk, Bubbi, Ólafur Ragnar og Davíð komin inn í textann ásamt fundinum í Höfða og hruninu en öðrum nöfnum og fyrirbærum síðustu 60 ára, sem síður munu lifa, sleppt og erindum fækkað úr fimm í fjögur. 

Í erindinu um áttunda áratuginn er þessi setning: "...Hannibal var ráðherra og Náttfari var klár." 

Í orðunum "Náttfari var klár" felst tvíræðni því að Náttfari var auðvitað hestur klár, en um svipað leyti var slunginn innbrotsþjófur á ferðinni í Reykjavík að næturlagi, sem varð þekktur undir heitinu Náttfari, því að enginn vissi hvað hann hét, - hann náðist aldrei. 

Já, sá Náttfari var klár, það er óhætt að segja það, - með þeim allra klárustu. 

 


mbl.is Landsmót a Vindheimamelum næsta sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegna Hólmsheiði ?

"Tapaði máli vegna Hólmsheiði" er fyrisögn fréttar á mbl.is sem hefur þegar þetta er ritað verið óbreytt í að aðra klukkustund.

Það er svo sem ekki nýtt að fólk beygi ekki orð, sem koma á eftir orðinu "vegna" en þetta er með því hastarlegra. Vona að þessu verði kippti í lag. 


mbl.is Tapaði máli vegna Hólmsheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sama bullið áfram?

Ísland sem minnst spillta land heims einmitt á þeim tíma sem hún var einna mest hér var auðvitað í besta falli brandari en í raun einhver dapurlegasti fáránleiki svona kannana.

Þegar kafað var betur ofan í forsendur þessarar einkunnar sást, að forsendur hennar voru algerlega galnar gagnvart okkur. Þetta kom meðal annars vel fram í mynd Gunnars Sigurðssonar þegar hann heimsótti þessa stofnun, sem stendur að baki einkunnagjöfinni.

Í okkar fámenna samfélagi kunningsskapar, ættar- vensla- og vinatengsla hefur alla tíð þrifist sérkennileg gerð spillingar sem hefur speglast í endalausri barátttu um auð ög völd, allt frá deilum þeirra Hafliða og Þorgils til dagsins í dag. 

Öll saga okkar er lituð af þessu böli, sem Halldór Laxness lýsti svo eftirminnilega og vel í frægum sjónvarpsþætti sem að sjálfsögðu var þurrkaður út. 

Eitt eftirminnilegasta atriði myndar Gunnars Sigurðssonar var heimsókn hans í höfuðstöðvar Transparency International þar sem hann mætti einstökum hroka og yfirlæti þeirra sem þar ráða ríkjum. 

Vafi hlýtur að leika á því að vinnubrögð eða forsendur fyrir nýjasta listanum hafi lagast mikið miðað við þessi viðbrögð. Líklegast að um sama bullið sé að ræða og fyrr. 


mbl.is Spillingareinkunn Íslands lækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. október 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband