Margt ágætisfólk býður sig fram.

Það sést á nafnalistanum um frambjóðendur til stjórnlagaþings að margt ágætisfólk býður sig fram og lumar vafalaust á mörgum góðum hugmyndum.

Nú er bara að vona að ekki komi upp slíkir erfiðleikar vegna fjölda frambjóðendanna og framkvæmdar kosninganna að þessar mikilvægu kosningar og þingið, sem kemur í kjölfarið nái ekki þeim árangri sem hlýtur að vera keppikefli þjóðarinnar.


mbl.is Nafnalisti frambjóðenda birtur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blaðamenn illa séðir í Marokkó.

Ég hef ekki orðið var við það að stjórnarfar eða stjórnarhættir í Marokkó hafi breyst mikið síðan ég kom þangað fyrst árið 1967 og síðan aftur 1975 og 1986.

Þessir stjórnarhættir eru ekki til að hrópa húrra fyrir hvað snertir lýðréttindi og frelsi.

1975 flugum við hjónin frá Kanaríeyjum til Marrakesh, sem er inni í landinu, en okkur skildist að ekki væri hægt að kynnast þessu landi í raun nema fara þangað í stað þess að koma til Tanger og Tetuan, sem eru gegnt Spáni við Gíbraltarsundið.

Ég álpaðist til að skrá mig sem blaðamann þegar ég fór þangað 1975 og allt fór á annan endann.

Seinna sögðu mér kunnugir að þetta hefðu verið arfamistök hjá mér, því að blaðamenn og fréttamenn væru afar illa séðir í landinu.

Það kemur mér þvi ekki á óvart að Al-Jazeera lendi í útstöðum við yfirvöldin þarna ef sú stöð hefur ekki makkað rétt við yfirvöldin.

Í sumar var ég í slagtogi með sjónvarpsfólki frá sjónvarpinu í Marokkó við Mývatn og tók það viðtöl við mig og flaug með mér.

Mér leist alveg prýðilega á þetta fólk og vinnubrögð þeirra og þau hafa líklega ekki lent í neinum vandræðum með að skila þessu myndefni til þjóðar sinnar, enda verið að fjalla um fjarlægt land og ekki stigið ofan á neinar tær ráðamanna landsins.

Ég vann líka mikið með sjónvarpsmönnum frá Al-Jazeera og öll vinnubrögð og umfjöllun þeirrar stöðvar var eins og best verður á kosið, enda valinn maður í hverju rúmi, tækjakostur frábær og metnaðurinn mikill.

Ég játa að ég veit ekki um málavöxtu í samskiptum Al-Jazeera og stjórnvalda í Marokkó en ólíklegt þykir mér að stjórnvöldin hafi batnað mikið síðan 1975.


mbl.is Starfsemi Al-Jazeera stöðvuð í Marokkó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Djók"? "Geimórar"?

Ég er orðinn það gamall að ég man eftir því hvernig fólk tók því þegar 1954 var fluttur í ríkisútvarpinu pistill um það að svo kynni að fara í framtíðinni að sendir yrðu menn til tunglsins.

Þessu var jafnvel tekið sem einskonar brandara eða hugarórum hálfklikkaðra vísindamanna eða í besta falli áhugaverðum vangaveltum um vísindaskáldsagna. 

Ég man að í tengslum við þetta varð til nýyrðið geimórar. 

Ef einhver hefði spáð því hér heima 1954 að eftir aðeins 13 ár myndu tunglfarar koma til Íslands og fara upp í Öskju til að æfa sig fyrir tunglferð, sem farin yrði tveimur árum síðar, hefði sá hinn sama verið talinn í meira lagi klikkaður.

Ef einhverjum hefðu þar á ofan dottið það í hug að þessi tunglfaraferð yrði notuð í framtíðinni til að lokka ferðamenn inn í Öskju hefðu það sjálfsagt verið kallaðir geimórar, svipað því sem menn sögðu í upphafi um þá hugmynd að gera út báta til hvalaskoðunarferða.

Þótt tímaritið Time hafi fyrir áratug verið með margra blaðsíðna umfjöllun og forsíðumynd um þann möguleika að senda menn til mars og stofna þar nýlendu hafa flestir kinkað kolli vorkunnsamlega til mín þegar ég hef verið að greina frá því gildi, sem ósnortnar gosstöðvarnar á Gjástykkis-Leirhnjúkssvæðinu geta haft í framtíðinni vegna þess að alþjóðleg samtök áhugafólks um marsferðir hafa valið Gjástykki sem hentug svæði fyrir marsfara framtíðarinnar til að búa sig undir ferðir þangað. 

Helsti viðmælandi Time, Bob Zubrin, kom hingað til lands gagngert til þess að kanna þetta og þremur árum síðar kom sérstök sendinefnd samtakanna hingað líka til þess að ljúka verkinu.

Djók? Geimórar?  Það voru líka tunglferðirnar 1954. 


mbl.is Kanna möguleika á nýlendu á Mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. október 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband