Úrelt grein og til vandræða.

Íslenska kirkjan á mjög sterk ítök í þjóðinni þrátt fyrir þverrandi traust til hennar sem stofnunar.

Kristin trú er samofin sögu og menningu þjóðarinnar og kirkjan og önnur trúfélög vinna mikið og þarft þjónustu- og menningarstarf. Þess vegna ríkir meira traust almennings til sókarkirkjunnar og prestsins í nærsamfélaginu. 

Ég er fríkirkjumaður en hef ekki síður sterkar taugar til þjóðkirkjunnar, tek jafnvel meiri þátt í menningarstarfi hennar víða um land heldur en fríkirkjunar, enda er þjóðkirkjan miklu stærri og yfirngnæfandi meirihluti þjóðarinnar er í henni. 

Ef þjóðkirkjan er hvort eð er ekki ríkiskirkja eins og biskup staðhæfir, er 62. grein stjórnarskrárinnar um þjóðkirkjuna og stuðning ríkisvaldsins við hana sérstaklega, ekki bara úrelt, hún er óþörf. 

Meðan þessi grein er við líði verður aldrei sátt um hana úr þessu. Hún er eitrað peð, hefur klofið stjórnmálaflokka, félög og þjóðina sjálfa í herðar niður. 

Af gefnu tilefni ítreka ég nú ofangreinda afstöðu mína sem hefur raunar legið fyrir alla tíð. 

Kostirnir eru tveir; að halda 62. greininni eða fella hana niður. Ég tel að úr þessu sé óhjákvæmilegt að fella hana niður og að það muni verða kristinni kirkju á Íslandi fyrir bestu.

Það er vegna þess að ófriðurinn um þessa grein truflar og eitrar. 

Auk þess benda þeir, sem hafa horn í síðu kristinnar kirkju, sífellt á, að þessi grein sýni, að kirkjan þurfi á mismunun á milli trúfélaga að halda í stjórnarskrá til þess að hún geti þrifist. 

En kirkjan á ekki að þurfa þess heldur treysta á styrk sinn og boðskaps síns. 

Kirkjan verður nú, hvort sem henni líkar betur eða verr, að horfast í augu við það að hún verður að þétta raðirnar og öðlast trú og virðingu og eyða því vantrausti sem gripið hefur um sig.

Kristin trú er friðarboðskapur og 62. greinin hefur aðeins skapað ófrið og deilur. 

Það getur orðið liður í endurreisn á trausti almennings á kirkjunni að taka þann flein úr holdi hennar sem 62. greinin hefur í raun verið. Hafi þessi grein einhvern tíma hjálpað kirkjunni er það liðin tíð. 

Sem frambjóðandi til Stjórnlagaþings með númerið 9365 tel ég að í tillögu að nýrri stjórnarskrá eigi þingið að taka tilmælum Þjóðfundar um aðskilnað ríkis og kirkju og fella 62. grein núverandi stjórnarskrár niður. 

 

 

 

 


mbl.is Þverrandi traust áhyggjuefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættuleg flóð.

Krapaflóð í ám geta verið afar varasöm og hættuleg þeim, sem eru úti í ánum þegar flóðið kemur niður eða átta sig ekki á því að flóð er í ánni.

Í bókinni "Ljósið yfir landinu" lýsi ég þremur slíkum atvikum, í Rjúpnabrekkukvísl 1987, Bergvatnskvísl 1989 og í Reykjafjarðará 1993. 

Mig minnir að þrír hafi farist í Rjúpnabrekkukvísl og fjögur fórust í Bergvatnskvísl en sjálfur slapp ég naumlega úr óhappinu í Reykjafjarðará 1993 fyrir einskæra hundaheppni. 

Enginn slysstaður á ferlinum tók eins mikið á mig að koma á og við Bergvatnskvísl og hef ég þó vegna starfs míns verið á vettvangi á öllum hamfara- og slysstöðum frá snjóflóðinu í Neskaupstað 1974. 

Sú saga verður ekki rakin hér en svona krapaflóð eru einhver lúmskasta slysagildra sem náttúra Íslands býr yfir. 

Morgunflóð í Rjúpnabrekkukvís vegna sólbráðar á jöklinum eftir kalda nótt eru tíð á sumrin. 

Fimm árum eftir flóðið, sem banaði Japönum þar, komu ættingjar þeirra til þess að halda trúarlega kveðjuathöfn á slysstaðnum. 

Ég tók að mér að fljúga þeim og aka á staðinn og varð úr því mikið og magnað ævintýri, sem ég gerði skil í þætti á Stöð tvö auk frásagnarinnar í Ljósinu yfir landinu, en síðar varð þetta tilefni fyrir Friðrik Þór Friðriksson til að gera kvikmyndina "Á köldum klaka". 


mbl.is Krapaflóð í Eystri-Rangá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband