Jónas - Ferðalok.

Það hefur verið mikið að gera hjá mér í dag en dagur íslenskrar tungu er þó ekki liðinn.

Í tilefni dagsins set ég inn í tónlistarspilarann á bloggsíðu minni síðasta lagið af plötu númer þrjú í afmælisútgáfu Senu á rúmlega sjötíu lögum sem ég hef átt aðild að á síðustu hálfri öld og kemur út eftir viku. Blogga nánar um það efni síðar.

En síðasta lagið í albúminu er dálítið óvenjulegt því að textinn er ekki eftir mig heldur Jónas Hallgrímsson. Þess vegna set ég þetta lag inn í dag.

Textinn er ekki af lakari endanum, frábærasta ástarljóð sem ort hefur verið á íslenska tungu, "Ferðalok" Lagið var fyrst flutt við brúðkaup Kristbjargar Clausen og Ragnars Ómarssonar fyrir 18 árum en aldrei sett á disk.

Egill Ólafsson og Sigurbjörg Hjörleifsdóttir sungu en Vilhjálmur Guðjónsson útsetti og annaðist hljóðfæraleik. Lagið er í hópi nokkurra laga á ferilsalbúminu, sem ýmist hafa ekki komið út á diskum eða eru í nýjum búningi.


Vel að þessu komin.

Vigdís, Möguleikhúið og Hjálmar eru afar vel að verðlaunum Jónasar Hallgrímssonar komin eins og rökstuðningurinn fyrir veitingunni ber með sér.

Ég var í dag á merkri ráðstefnu samtaka erlends áhugafólks og sjálfboðaliða (Seeds) um störf að umhverfismálum hér á landi, en 7-800 sjálfboðaliðar koma til Íslands á hverju ári á vegum þessara samtaka til þess að vinna að ræktunar- og hreinsunarstörfum víða um land. 

Einn fyrirlesturinn á ráðstefnunni fjallaði um hinar undrahröðu breytingar sem orðið hafa á örfáum árum á menntunarumhverfi skólafólks með tilkomu netsins og almennrar tölvueignar. 

Það leiddi hugann að því hvað þetta á eftir að hafa mikil áhrif á stöðu íslenskrar tungu, sem sótt er að úr æ fleiri áttum. 

Vigdís hefur áratugum saman verið ötull liðsmaður íslenskrar tungu og nú síðustu árin sérstakur tungumálasendiherra Sameinuðu þjóðanna í viðleitni samtakanna til að varðveita þau menningarverðmæti sem ótal þjóðtungur heimsins hafa skapað og skapa enn. 

Er ljúft að óska henni og hinum, sem fengu viðurkenningu í dag, til hamingju með verðlaunin. 

Fyrir réttu ári birti ég ljóð um það þrennt, sem gerir Íslendinga að þjóð, en það eru land, tunga og þjóð. Hægt er að nálgast það með því að smella inn orðunum land, tunga og þjóð í leitarlínuna vinstra megin á bloggsíðunni. 


mbl.is Vigdís hlaut verðlaun Jónasar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert venjulegt landsbyggðarskólahús.

Svo kann að virðast að skólamannvirkin að Núpi í Dýrafirði séu ósköp venjuleg landsbyggðarmannvirki sem aðeins snerti heimamenn.

En svo er ekki. Í áranna rás voru hundruð ef ekki þúsundir ungmenna annar staðar af landinu, þar á meðal frá Reykjavík, við nám í skólanum og eiga þaðan dýrmætar minningar. 

Það skiptir því marga máli að vel sé staðið að því hvernig þessi mannvirki verða nýtt og viðhaldið í framtíðinni. 


mbl.is Sölu frestað á húseignum að Núpi í Dýrafirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Towering inferno".

Eldsvoðinn í háhýsinu í Shanghai minnir á hina áhrifamiklu stórmynd "Towering inferno" sem á sínum tíma þótti sýna atburðarás sem væri næsta ósennileg en var samt afar mögnuð.

Tvennt vekur athygli varðandi brunann núna.  Annars vegar það að svona skuli yfirleitt geta átt sér stað og hins vegar hvernig reynt er að þagga niður og koma í veg fyrir umfjöllun um hann. 

Í myndinni "Towering inferno" voru það meðal annars alls konar undanbrögð frá lögum og reglum sem gerðu eldsvoðann að stórslysi og líklegt er að svipað eigi við um brunann í Shanghai. 

Virðist með ólíkindum að jafn áberandi hlutur og nælondúkur, sem sveipað var um húsið, hafi verið eldfimur og enginn sem athugaði það. 


mbl.is „Það var angist í svipnum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband