Staðreyndir um naglatrúna.

Gerð vetrarmynstra á hjólbörðum hefur farið mikið fram hin síðari ár. Í hverri rannsókninni á fætur annarri fæst nú svipuð niðurstaða: Negldir hjólbarðar taka góðum ónegldu hjólbörðum aðeins fram á rennblautu svelli.

Við allar aðrar hálkuaðstæður eru góð vetrardekkjamynstur best á ónegldum dekkjum.

Það hefur ekki verið rennblautt svell í Reykjavík í kvöld og raunar eru það aðeins örfáir dagar á hverjum vetri sem hálka er í Reykjavík því að salti er ausið á göturnar. 

Ég sé á bloggi einu að þess er krafist að allir verði skyldaðir til að vera með negld dekk á bílunum í Reykjavík að viðlögðum sektum. 

Þetta er alveg á skjön við staðreyndir málsins, sem eru þær að  nánast allan veturinn eru negld dekk gersamlega óþörf í Reykjavík. 

Í blogginu er fullyrt að það kosti mannslíf og slys ef ekki séu allir á negldum dekkjum. 

Þetta er sömuleiðis alveg órökstutt og grunar mig raunar að hið þveröfuga eigi við, sem sé það að sleip tjaran sem dekkin rífa upp úr götunum og úðast um allt, valdi fleiri óhöppum  og þar með meira tjóni en ímyndaður ávinningur af því að hafa dekkin negld. 

Þegar jeppamenn fara í jöklaferðir er það fyrsta verk þeirra þegar komið er nógu langt út fyrir borgina að þrífa þessa sleipu tjöru af dekkjunum því að hún gerir þau sleipari. 

Negld dekk eru bönnuð í Vestur-Þýskalandi og liggur þó allstór hluti landsins hátt uppi í fjöllum þar sem er snjór og vetrarríki mikið. 

Þau eru bönnuð í Osló og víðar í Noregi. Í hitteðfyrra ók ég á bílaleigubíl frá vesturströnd Noregs yfir hálendið í fljúgandi hálku, enda hitinn við frostmark. 

Ég undraðist hve gott grip hin ónegldu vetrardekk höfðu, en hafði af gömlum vana óttast mjög að fara á ónegldum dekkjum um fjallvegina þarna í svona færi, enda veðurlag mjög svipað á vesturströnd Noregs um háveturinn og er hér á suðvesturhorninu hjá okkur.

Raunalegt er að horfa á tugþúsundir bíla berja auðar göturnar í Reykjavík með nöglum og slíta þær upp og úða tjöruleðju á bílglugga og rúðuþurrkur vikum saman á hverjum vetri.

Eða þá að valda svifryki á þurrum dögum sem fer langt yfir öll mörk og valda auk þess hundraða milljóna króna óþörfum útgjöldum vegna viðgerða á götunum. 

Hér hefur lengi ríkt oftrú á naglana svo að líkja má við trúarbrögð frekar en vitneskju, sem byggð er á rannsóknum og staðreyndum. 


mbl.is 28 umferðaróhöpp í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar 66 ára gömul fyrirætlan mistekst, hvað þá?

Þegar stjórnarskrá lýðveldinsins var samþykkt fyrir 66 árum var það yfirlýst markmið að endurskoða hana og voru skipaðar nefndir til þess arna bæði þá og síðar. Þeim mistókst það ætlunarverk sitt að undanskildu því að kjördæmaskipan var tvívegis breytt og í síðara skiptið sett inn mannréttindaákvæði.

Það er rétt hjá Heimdellingum að léleg stjórnarskrá olli ekki Hruninu heldur fyrst og fremst siðrof í þjóðfélaginu. En stjórnarskráin hjálpaði ekki til og yfirgengilegt ofríki og nánast alræði framkvæmdavalds sem var í raun í höndum tveggja manna í upphafi okkar aldar ætti ekki að geta átt sér stað.

Fyrst margyfirlýstur vilji til að endurskoða stjórnarskrána fékk ekki framgang, hvað er þá að því að reyna aðra leið nú?

Meirihluti þingmanna er við hverjar kosningar í svonefndum "öruggum sætum" þegar kosið er og í raun ráða kjósendurnir engu um það í kjörklefunum.

Það fyllir því þessa þingmenn öryggisleysi ef kjósendur fá tækifæri til að raða sjálfir í kjörklefanum og hafa úrslitavald um röðunina.

Þetta er gert í nokkrum löndum og hefur reynst vel til að auka beint lýðræði. 

Á Stjórnlagaþinginu verður að taka persónukjör til skoðunar, að minnsta kosti að leyfa þeim framboðum sem það vilja, að viðhafa persónukjör á sínum listum á þeim eina stað þar sem það virkar best og beinast, í kjörklefanum sjálfum. 

Aukin mannréttindi, jafnrétti lýðræði og frelsi ættu að vera keppikefli í nýrri stjórnarskrá og finnst mér alveg sérstaklega dapurlegt að sjá gamaldags flokkshesta sjónarmið skína í gegnum ályktun ungs fólks eins og nú gerist hjá Heimdalli. 

Bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur, aukið þingræði og sjálfstæði dómsstóla, jöfnun atkvæðavægis, ákvæði varðandi rétt komandi kynslóða og sameining forseta- og forsætisráðherraembættins í eitt embætti þjóðhöfðingja, sem væri oddviti ríkisstjórna og kjörinn beint af þjóðinni, - maður hefði haldið að eitthvað af þessu tagi kæmi frá ungu fólki. 

Nei, það vill bara hafa allt í sama farinu á sama tíma sem ég, sem er á áttræðisaldri, vil beita mér fyrir því ef ég næ kjöri til Stjórnlagaþings að svona hugmyndir verði skoðaðar og ræddar þar af yfirvegun og stillingu.

 

 

 
mbl.is Heimdallur telur stjórnlagaþing skrípaleik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að "fiska víti".

Stundum sér maður eða heyrir setningar á borð við þessa: Hann skoraði fjögur mörk, átti fimm stoðsendingar og fiskaði tvö víti.

Í svona lýsingu er það lagt að jöfnu sem hið besta mál að skora mörk, gefa stoðseningar og "fiska víti." 

Nú er það svo að í flestum tilfellum felst í því að "fiska víti" að reyna eftir bestu getu að skora en þurfa að sæta því að varnarmaður andstæðinganna neyðist til að brjóta af sér til að koma í veg fyrir að mark verði skorað. 

En því miður er það alltof oft að sóknarmenn reyna að búa til atburðarás sem gerir þeim kleift að láta líta svo út sem brotið hafi verið á þeim í stað þess að reyna sitt ítrasta á heiðarlegan hátt að sleppa fram hjá varnarmanninum og skora.

Í orðinu "fiska" leynist að vísu sú hugsun að verið sé að leggja gildru fyrir andstæðinginn og er það oft gert á ódrengilegan hátt. 

Mér kemur í hug leikmaður hér á árum áður, sem hét Elmar Geirsson. Hann var fljótur sóknarmaður sem harðir varnarmenn reyndu oft að stöðva með hörðum tæklingum, en oft var unun að horfa á Elmar hvernig hann "hljóp upp úr" tæklingum á aðdáanlegan hátt og komst sína leið með boltann. 

Oft hefði hann auðveldlega getað látið sig falla og "fiskað aukaspyrnu" eða jafnvel "fiskað víti." 

En hann var heiðarlegur leikmaður, sem gerði sitt besta án nokkurra undirmála. 

Ég hef verið afar gagnrýninn á ljót og harkaleg brot varnarmanna og jafnvel sett fram þá kenningu, að hafi leikmaður sannanlega brotið af sér og afleiðingarnar orðið þær að mótherjinn hafi beinbrotnað ætti hinn brotlegi að vera í settur út af í leikbanni jafn lengi og hinn meiddi er frá vegna meiðslanna. 

En þessi krafa um ákveðnari og betri dómgæslu hefur því miður leitt til þess að ákveðnir leikmenn beinlínis gera út á að búa til aðstæður þar þeir geta, oft með vel heppnuðum og útsmognum leikaraskap, "fiskað" víti eða aukaspyrnur. 

Þessir leikmenn gera íþróttinni meira ógagn en ruddarnir því að með leikaraskapnum gera þeir dómurum erfiðara fyrir að beita sér gegn ruddaskapnum. 

Krafa um ákveðnari dómgæslu og harðari viðurlög hlýtur því einnig að beinast að því að harðara verið tekið á þeim sem sýna þann ódrengskap að reyna að "fiska" andstæðinga sína útaf, eins og það er stundum kallað í handboltanum. 

 


mbl.is Aldridge: Nani er ógeðfelldur leikmaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Víðsfjarri bankabólunni, sem sprakk.

Sjálfbær og græn bankastarfsemi, sem hljóta á Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs, er eins víðsfjarri bankabólunni sem sprakk í Hruninu og hugsast getur. 

Þetta leiðir hugann að því hugarfari sem var í hávegum haft á Íslandi fyrir aðeins rúmum tveimur árum og að lúxusferð Landsbankans á Kárahnjúkasvæðið sumarið 2005. 

Þá hafði komið í ljós að síðasti kaflinn, sem átti að bora í göngunum, ca 6 km langur, lá um mikið misgengi og neðanjarðargjár, sem sást vel úr lofti.

Hins vegar var þetta eini kafli ganganna sem sleppt var að kanna með borunum og sagði fjölmiðlafulltrúi virkjunarinnar að það hefði verið talið óþarfi að gera það af því að "við ætluðum þarna í gegn hvort eð var". 

Ég ræddi þetta við annan aðalbankastjóra Landsbankans, sem var aðallánveitandi virkjunarinnar og einnig við nokkra aðra Landsbankans og spurði hvort þeir hefðu engar áhyggjur af því að síðasti borunarkaflinn gæti orðið hræðilega dýr og að virkjunin gæti jafnvel mistekist af þessum sökum.

Þeir sögðust litlar áhyggjur hafa og einn þeirra sagði: "Því verr sem þessi framkvæmd gengur, því meira græðum við". 

Síðar frétti ég af neyðarfundi, sem haldinn var einn morgun, þar sem Landsvirkjun, fjármálaráðuneytið og skrifstofa sem sér um svona mál fyrir ríkið voru í símatorgi, vegna þess að útvega þyrfti sjö milljarða króna fyrir klukkan tíu. 

Þennan neyðarfund þurfti að halda vegna þess að lánið var aðeins hægt að fá með afarkostum, allt of háum vöxtum. 

 Þetta var keyrt í gegn og haldið áfram.

Þegar ég heyrði þetta fattaði ég hvað átt var við með því að segja: "Því verr sem þessi framkvæmd gengur, því meira græðum við." 

Bankinn hafði allt sitt á þurru. Þjóðin borgaði brúsann ef illa færi og því fleiri neyðarfundir, sem yrðu haldnir til að samþykkja ofurvexti, því betra. "Tær viðskiptasnilld". 

Þegar ofan á þetta bættist að virkjunin hafði mestu mögulegu neikvæðu og óafturkræfu umhverfisáhrif, sem möguleg voru, og að hún yrði ekki sjálfbærari en það lónið yrði ónýtt sem miðlunarlón eftir 2-400 ár vegna þess að dalurinn, sem það er í, fylltist upp af auri, er óhætt að segja að framferði bankans hafi verið eins fjarri því að vera í þeim anda sem nú eru veitt umhverfisverðlaun fyrir og hugsast getur. 

 

 

 


mbl.is Hluta verðlauna ánafnað til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband