Víðsfjarri bankabólunni, sem sprakk.

Sjálfbær og græn bankastarfsemi, sem hljóta á Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs, er eins víðsfjarri bankabólunni sem sprakk í Hruninu og hugsast getur. 

Þetta leiðir hugann að því hugarfari sem var í hávegum haft á Íslandi fyrir aðeins rúmum tveimur árum og að lúxusferð Landsbankans á Kárahnjúkasvæðið sumarið 2005. 

Þá hafði komið í ljós að síðasti kaflinn, sem átti að bora í göngunum, ca 6 km langur, lá um mikið misgengi og neðanjarðargjár, sem sást vel úr lofti.

Hins vegar var þetta eini kafli ganganna sem sleppt var að kanna með borunum og sagði fjölmiðlafulltrúi virkjunarinnar að það hefði verið talið óþarfi að gera það af því að "við ætluðum þarna í gegn hvort eð var". 

Ég ræddi þetta við annan aðalbankastjóra Landsbankans, sem var aðallánveitandi virkjunarinnar og einnig við nokkra aðra Landsbankans og spurði hvort þeir hefðu engar áhyggjur af því að síðasti borunarkaflinn gæti orðið hræðilega dýr og að virkjunin gæti jafnvel mistekist af þessum sökum.

Þeir sögðust litlar áhyggjur hafa og einn þeirra sagði: "Því verr sem þessi framkvæmd gengur, því meira græðum við". 

Síðar frétti ég af neyðarfundi, sem haldinn var einn morgun, þar sem Landsvirkjun, fjármálaráðuneytið og skrifstofa sem sér um svona mál fyrir ríkið voru í símatorgi, vegna þess að útvega þyrfti sjö milljarða króna fyrir klukkan tíu. 

Þennan neyðarfund þurfti að halda vegna þess að lánið var aðeins hægt að fá með afarkostum, allt of háum vöxtum. 

 Þetta var keyrt í gegn og haldið áfram.

Þegar ég heyrði þetta fattaði ég hvað átt var við með því að segja: "Því verr sem þessi framkvæmd gengur, því meira græðum við." 

Bankinn hafði allt sitt á þurru. Þjóðin borgaði brúsann ef illa færi og því fleiri neyðarfundir, sem yrðu haldnir til að samþykkja ofurvexti, því betra. "Tær viðskiptasnilld". 

Þegar ofan á þetta bættist að virkjunin hafði mestu mögulegu neikvæðu og óafturkræfu umhverfisáhrif, sem möguleg voru, og að hún yrði ekki sjálfbærari en það lónið yrði ónýtt sem miðlunarlón eftir 2-400 ár vegna þess að dalurinn, sem það er í, fylltist upp af auri, er óhætt að segja að framferði bankans hafi verið eins fjarri því að vera í þeim anda sem nú eru veitt umhverfisverðlaun fyrir og hugsast getur. 

 

 

 


mbl.is Hluta verðlauna ánafnað til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flottur og virkur þegn að vanda Ómar. Takk fyrir uppl.

solo (IP-tala skráð) 3.11.2010 kl. 01:57

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Eitt af því sem er á stefnuskrá þessara norrænu banka er að lána fyrst og fremst til verkefna sem stuðla að sjálfbærni eða hafa í för með sér augljósan ávinning fyrir nærsamfélagið. Lykilatriði í því að skapa þennan ávinning er ekki að stefna að skammtímagróða fyrir bankann, heldur að sýna samfélagslega ábyrgð í verki.

Þetta er eitthvað sem er eftirspurn fyrir á Íslandi.

Af þeirri ástæðu hefur orðið til hópur áhugfólks um úrbætur á fjármálakerfinu, sem kýs að nefna sig Icelandic Financial Reform Initiative. Hópurinn kynnti tíu helstu tillögur sínar að samfélagslega ábyrgu fjármálakerfi á blaðamannafundi í Norræna Húsinu þann 6. október sl. á tveggja ára afmæli bankahrunsins. Áhugasömum er bent á að kynna sér starfsemi hópsins á heimasíðunni IFRI.is.

Guðmundur Ásgeirsson, 3.11.2010 kl. 05:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband