Frábær áfangi.

Stundum gerist það á stórum samkomum, þar sem margir koma saman og eru úr ólíkum áttum, að ekki næst samstaða um niðurstöðu, heldur verður til moðsuða almennra atriða sem lítið segja.

Því verð ég að segja að niðurstaða Þjóðfundar fer fram úr björtustu vonum. Ég hef áður lýst yfir áhyggjum af því að ef ekki náist breið samstaða um bitastæðar tillögur á Þjóðfundi og síðar Stjórnlagaþingi, muni ekkert gerast á vettvangi Alþingis, sem á síðasta orðið samkvæmt núgildandi stjórnarskrá. 

Satt að segja kemur mér á óvart þegar ég ber þær hugmyndir, sem ég sem frambjóðandi hef sett fram, saman við niðurstöður Þjóðfundarins. Þetta er nánast alveg samhljóða og meira að segja ákvæði um sjálfbærni og rétt komandi kynslóða, sem ég hef talið mjög brýnt að sett verði í stjórnarskrá með fyrirmyndir frá öðrum löndum í huga, svo sem Finnlandi. 

Jöfnun atkvæðisréttar á að vera auðveld í framkvæmd, jafnvel þótt núverandi kjördæmaskipan verði áfram, einfaldlega með því að þingmannafjöldinn í hverju kjördæmi verði í algeru samræmi við fjölda kjósenda í kjördæminu, en eins og er eru 2,5 sinnum fleiri kjósendur á bak við þingmann í Suðvesturkjördæmi en í Norðvesturkjördæmi. 

Er fráleitt að kjósandi á Akranesi, sem er 40 mínútur að aka til Reykjavíkur, skuli hafa 2,5 sinnum meiri rétt en kjósandi á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði, sem er aðeins tíu mínútum fljótari. 

Einnig er fráleitt að Reykjavík skuli vera tvö kjördæmi og borgin meira að segja klofin langsum, rétt eins og íbúar öðrum megin við Hringbraut hafi aðra hagsmuni en íbúar hinum megin við götuna. 

Ef skipta hefði átt borginni eðlilegar hefði skipting við Elliðaár verið niðurstaðan. 

Með fækkun þingmanna verður óþarfur hinn fráleitlega hái þröskuldur atkvæða sem verið hefur og er mjög ólýðræðislegur.

Flest atriðin í ályktun Þjóðfundar voru baráttuatriði Íslandshreyfingarinnar við kosningarnar 2007, en þá snerist kosningabaráttan um að skiptingu ímyndaðs gróða af Græðgisbólunni. 

Má þar nefna að ráðherrar séu ekki jafnframt þingmenn, persónukjör og ákvæðin um umhverfismálin og þjóðareign allra auðlinda. 

Ég vísa svo til hugmynda minna um endurskoðun á embætti forseta Íslands og fleiri atriða sem hafa komið fram á blogginu hér og blogginu á eyjan.is


mbl.is Stjórnarskrá fyrir fólkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við Íslendingar vorum aldrei og erum ekki saklausir.

Samkvæmt því sem við Íslendingar viljum trúa vorum við dáðir um allan heim fyrir stórkostlegt þjóðfélag, dugnað, heiðarleika, menningu og forystu í umhverfismálum.

"Forystan í umhverfismálunum" byggðist að hluta til á góðum grunni, sem sé þeim að við höfðum virkjað hverasvæði til upphitunar húsa okkar.  En upphaflega höfðu þær framkvæmdir aðeins verið á peningalegum forsendum þegar verð á olíu fór hækkandi og við eyddum ekki krónu í þessar framkvæmdir af hugsjónaástæðum og hefðu aldrei gert. 

Að öðru leyti gerðum við minnst allra þjóða í umhverfismálum, komum okkur upp mest mengandi og stærsta bílaflota á vesturlöndum og óðum fram í rányrkjuvirkjanir fyrir stóriðju og virkjanir með hrikalegum umhverfisspjöllum og stunduðum þar að auki beit á afréttum þar sem var mesta jarðvegseyðing á byggðu bóli. 

Við trúum því ekki að þessi glansmynd hafi verið blekking, heldur trúum við því að við höfum verið saklaus fórnarlömb um það bil þrjátíu  skúrka, sem við gátum með engu móti varast. 

En þótt segja megi að tugþúsundir Íslendinga hafi verið fórnarlömb, sem annað hvort vildu ekki eða gátu ekki tekið þátt í hinni dæmalausu Græðgisbólu fjórföldunar skulda heimilanna , á það ekki við um mikinn meirihluta landsmanna, sem fannst þetta allt saman gott og sjálfsagt, hlustaði ekki á "kverúlanta, öfgafólk og úrtölumenn" og tók þátt í græðgissvallinu af hjartans lyst. 

Þeir stjórnmálamenn voru kosnir aftur og aftur, sem stóðu fyrir þeirri stefnu, sem leiddi til hrunsins, og meira að segja vann Framsóknarflokkurinn stórsigur í kosningunum 2003 út á það að vera búinn að hrinda af stað þenslunni með því að standa fyrir mestu mögulegu óafturkræfu spjöllum á náttúru Íslands, sem er mesta verðmæti lands og þjóðar. 

Og ekki bara það, þeir hrintu líka af stað húsnæðislánabólu, sem varað var við að myndi þenjast út í samkeppni banka og fjármálastofnana, sem þeir sjálfur voru búnir að afhenda einkavinum þáverandi valdhafa á spottprís. 

Daniel Charter lýsir í bók sinni því sem ég sjálfur upplifði erlendis í októberbyrjun 2008 þegar sjónvarpað var um alla heimsbyggðina gjaldþroti Íslendinga og þáverandi Seðlabankastjóri birtist á skjánum og lýsti því yfir að við myndum ekki borga neitt. 

Þannig urðum við á einu augabragði að aumkunarverðum ösnum og skúrkum, því að nánari útskýringar komust aldrei á framfæri. 

Charter kemst líka að sömu niðurstöðu og ég hef sett fram, sem sé þeirri, að Hrunið var siðferðilegt öllu fremur.

Afneitun okkar á þessu mun einungis valda því að hið siðferðilega hrun heldur áfram og verður jafnvel verra þegar grátbiðja á erlend stóriðjufyrirtæki að virkja  og umturna því sem eftir er af helstu náttúruundrum landsins og ryðja burtu öðrum og skaplegri fyrirtækjum. 

Mitt mat er það að með því að láta ekki segjast við það að horfa upp á Hrunið, heldur sækja bara enn frekar í sama farið í "skómigu"hugsunarhættinum "ég! núna!" eða "Take the money and run!" án nokkurs tillits til komandi kynslóða, séum við að stefna inn á enn verri braut en fyrr og með enn verri afleiðingum. 


mbl.is Ímynd Íslands í molum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband