8.12.2010 | 22:47
Var alltof gott til að vera satt.
Það vantaði ekki að bankabólan, sem blés upp með vaxandi hraða næstu ár fyrir 2008, væri ævintýralega stór og falleg.
Á yfirborðinu "urðu til" svo miklir fjármunir að Íslendingar höfðu aldrei séð neitt þessu líkt.
Fyrirtækin, sem sífellt voru að skipta um nöfn, kennitölur og eigendur, söfnuðu viðskiptavild upp á tugi og jafnvel hundruð milljarða og á yfirborðinu virtust þau svo rík að eigendur þeirra gátu keypt stórar verslunarkeðjur, hótel, flugfélög og hvað eina á yfirverði.
Nokkrir "öfundarmenn" og menn, sem taldir voru þurfa að fara í "endurmenntun" kumruðu eitthvað og voru eitthvað að tala íslenska efnahagsundrið niður en auðvitað var hjarðhugsunin svo rík hjá okkur að það hvarflaði varla að nokkrum að hafa orð á því að þetta væri of gott til að vera satt.
Nú er að koma æ betur í ljós, að Hannes Smárason hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði hreykinn í tímaritsviðtali í ársbyrjun 2007: "Það sem við erum að gera dytti engum í hug nema fólki sem veit engan veginn hvað það er að fara út í."
Til eru þeir sem hafa hæðst að Evu Joly og valið henni hin verstu orð. Þó er það fyrir hennar sambönd og tilstilli sem nú er að byrja að grilla í þann ótrúlega flókna og stóra vef af bókhaldsbrellum og flóknum fjármálagerningum sem stóðu stanslaust yfir í heilt ár fyrir hrun, ef ekki lengur.
Ef þetta hefur allt saman verið löglegt hlýtur sú spurning að vakna hvort hægt sé að una við það regluverk fjármálakerfis sem getur fætt það af sér sem fór svo leynt en var svona stórt.
![]() |
Segja að Landsbankinn hafi staðið mun verr en bókhald sagði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.12.2010 | 15:04
Ómöguleg sögn: Að úða ?
Íslensk tunga á ágætt orð yfir ensku sögnina sem trónir í fyrirsögn í tengdri frétt þegar sagt er: "Spreyjaði piparúða á lögregluþjóna." Það er sögnin "að úða." Hvers vegna ekki er hægt að nota þetta ágæta íslenska orð en í þess stað að segja "spreyjaði piparúða" er mér hulin ráðgáta, einkum þegar íslenskur fjölmiðill eins og Morgunblaðið á í hlut.
Ef ætlunin með því að nota enska orðið er sú að komast hjá því að nota orðmyndina úði / úða tvisvar í sömu setningunni á íslenskan líka ágæt orð yfir það og þá hefði fyrirsögnin getað orðið svona á þrjá vegu:
1. Sprautaði piparúða á lögregluþjóna.
2. Dældi piparúða á lögregluþjóna.
3. Úðaði piparúða á lögregluþjóna.
Allar setningarnar lýsa því að efninu var úðað á lögregluþjónana af því að orðið piparúði lýsir því þótt annað orð sé notað um handbrögðin við að tæma brúsann.
Ekki var látið við það sitja að nota enska orðið einu sinni í stuttri frétt heldur tvisvar.
Hægt er að nefna hliðstæðu við ofangreint dæmi þar sem úðað hefði verið froðu á lögregluþjóna.
Er næst á dagskrá að orða það svona: "Fómaði froðu á lögregluþjóna" af því að enska orðið "foam" þýðir "froða"?
Við eigum heima á Íslandi og notum íslensku nema annað sé óhjákvæmilegt.
Ég fæ ekki séð að enskan hafi verið neitt betri í þessu tilfelli.
Nú rétt áðan var ágætur útvarpsþáttur um Bjarna Fel og áhrif hans á íslenska málnotkun.
Bjarni er gott dæmi um það að íslenskan dugar oft best til þess að lýsa hlutum og ættu fleiri en íþróttafréttamenn að taka sér Bjarna til fyrirmyndar.
Ef Eiður vinur minn Guðnason tekur þetta dæmi líka til meðferðar í hinum stórgóðu pistlum sínum um íslenskt mál er það bara í góðu lagi. Góð vísa er aldrei of oft kveðin.
Ég vona að Davíð taki þetta mál til athugunar.
![]() |
Spreyjaði piparúða á lögregluþjóna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
8.12.2010 | 12:32
Undirstaða atvinnulífsins vestra.
Fyrir nokkrum árum mun það hafa gerst í vestfirskum skóla að kennarinn spurði börnin, hvað væri það dýrmætasta sem Ísland ætti.
Eitt barnið rétti upp höndina og kennarinn ítrekaði spurninguna: "Hvað er það dýrmætasta sem Ísland á?"
"Pólverjarnir" svaraði barnið.
Mér kemur þessi saga, hvort sem hún er sönn eða ekki, oft í hug þegar ég kem vestur á firði, einkum þegar komið er niður á bryggju og á stundum erfitt að finna innfæddan Íslending.
Útlendingar hafa ekki aðeins skaffað nauðsynlegt vinnuafl í frystihús, hafnarvinnu og þjónustustörf, heldur hefur flust til landsins hæfileikafólk á ýmsum sviðum, svo sem í tónlist, sem hefur auðgað menninguna.
Þetta á ekki aðeins við um Vestfirði heldur ýmsar dreifðar byggðir víða um landið.
Hin árlega Þjóðahátíð, sem haldin er á norðanverðum Vestfjörðum, er glæsilegt tákn um það hvernig Vestfirðingar hafa tekið á þeim viðfangsefnum, sem það hefur í för með sér að allt að fimmtungur íbúa sé af erlendu bergi brotinn.
![]() |
10% Vestfirðinga með erlent ríkisfang |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2010 | 00:05
Hafísinn er alltaf hættulegur.
Hafísinn er alltaf varasamur og hættulegur fyrir skip. Aðal áhyggjuefnið nú gæti verið að verði suðvestan- og vestlægar áttir, sem sækja munu að á næstu dögum langvarandi muni þær hrekja ísinn til austurs og nær landi.
Ég hef einu sinni flogið á FRÚ-nni að Grænlandsströnd skemmstu leið yfir sundið þar sem það er aðeins 285 kílómetra breitt. Þetta var í miðjum nóvember árið 2000.
Það þurfti að uppfylla ströng skilyrði Dana, svo sem að vera í björgunarvesti og hafa gúmmíbát um borð, vera með HF senditæki og fylgdarflugvél.
Ég var einn í FRÚ-nni en Friðþjófur Helgason kvikmyndatökumaður var með flugmanni í fylgdarflugvélinni sem var alveg eins en með stærri eldsneytisgeyma.
Þegar komið var yfir ísinn á miðju sundinu kom í ljós að ekkert af þessu myndi hafa hin minnstu áhrif á það að ef það dræpist á hreyflinum á annarri hvorri flugvélinni vær þeir sem um borð væru í þeirri flugvél dauðans matur.
Ástæðan sést vel ef myndirnar, sem teknar voru af ísnum í gær, eru stækkaðar og skoðaðar vel.
Aðeins tveir möguleikar eru að nauðlenda á ísnum. 1. Í íshraflinu milli jakanna og fá ísklumpa í gegnum framrúðuna sem gæfi náðarhöggið.
2. Að lenda á jaka og fara út af brún hans og steyptast í íshraflið sem sömu afleiðingum og í 1.
Þegar ég var þarna á ferð var enginn borgarísjaki svo stór að lendingarbraut á honum væri nógu löng.
Eina vonin væri að finna borgarísjaka sem væri nógu rosalega stór og langur.
Engu máli myndi skipta þótt fylgdarflugvél væri á staðnum. Hún gæti að vísu tilkynnt um atvikið en flugvélin, sem lenti á íshraflinu væri löngu sokkin þegar hjálp bærist loksins.
Hreyfillinn í þessum flugvélum er af Lycoming-gerð og í aðstæðum sem þessum er aðeins ein bæn til fyrir flugmanninn: Nú er að treysta á Guð og Lycoming.
Hafísinn er alltaf hættulegur eins og Titanic-slysið og fleiri slík slys vitna best um.
Hann er enn og verður um sinn "landsins forni fjandi."
![]() |
Íshellan hugsanlega hættuleg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)