Var alltof gott til að vera satt.

Það vantaði ekki að bankabólan, sem blés upp með vaxandi hraða næstu ár fyrir 2008, væri ævintýralega stór og falleg.

Á yfirborðinu "urðu til" svo miklir fjármunir að Íslendingar höfðu aldrei séð neitt þessu líkt.

Fyrirtækin, sem sífellt voru að skipta um nöfn, kennitölur og eigendur, söfnuðu viðskiptavild upp á tugi og jafnvel hundruð milljarða og á yfirborðinu virtust þau svo rík að eigendur þeirra gátu keypt stórar verslunarkeðjur, hótel, flugfélög og hvað eina á yfirverði.

Nokkrir "öfundarmenn" og menn, sem taldir voru þurfa að fara í "endurmenntun" kumruðu eitthvað og voru eitthvað að tala íslenska efnahagsundrið niður en auðvitað var hjarðhugsunin svo rík hjá okkur að það hvarflaði varla að nokkrum að hafa orð á því að þetta væri of gott til að vera satt.

Nú er að koma æ betur í ljós, að Hannes Smárason hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði hreykinn í tímaritsviðtali í ársbyrjun 2007:  "Það sem við erum að gera dytti engum í hug nema fólki sem veit engan veginn hvað það er að fara út í." 

Til eru þeir sem hafa hæðst að Evu Joly og valið henni hin verstu orð. Þó er það fyrir hennar sambönd og tilstilli sem nú er að byrja að grilla í þann ótrúlega flókna og stóra vef af bókhaldsbrellum og flóknum fjármálagerningum sem stóðu stanslaust yfir í heilt ár fyrir hrun, ef ekki lengur. 

Ef þetta hefur allt saman verið löglegt hlýtur sú spurning að vakna hvort hægt sé að una við það regluverk fjármálakerfis sem getur fætt það af sér sem fór svo leynt en var svona stórt. 


mbl.is Segja að Landsbankinn hafi staðið mun verr en bókhald sagði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Manni verður aftur og aftur hugsað til einstaklings sem var uppnefndur "einhver stundakennari úti í Háskóla", til þess að gera lítið úr aðfinnslum hans. Það er sami maðurinn og vakti athygli á því að þátttaka þýsks banka í kaupum S-hópsins á Kaupþingi hafi aldrei verið færð til bókar, og væri því bara skáldskapur sem nægði til að yfirfæra eignarhaldið.

Nú held ég að sé freistandi fyrir suma að fara á algjört, dúndrandi "I-told-you-so fyllerí"!! Það er þó til marks um siðferðisþroska viðkomandi "stundakennara úti í Háskóla" að hann leyfir hinum brotlegu að engjast í skömm og iðrun.

Flosi Kristjánsson, 9.12.2010 kl. 11:07

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Skipulagsstofnun var líka eitt sinn nefnt nafninu "einhverjir kontóristar úti í bæ" af manni sem áður hafði sagt að hann hefði eins og flestir haldið að Eyjabakkar væru gata í Breiðholtinu.

Ómar Ragnarsson, 9.12.2010 kl. 11:35

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það er gata í Breiðholtinu sem heitir Eyjabakki. ;)

Guðmundur Ásgeirsson, 9.12.2010 kl. 12:35

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hjörleifur Guttormsson hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði eitthvað á þá leið, í tilefni þess að hætt var við miðlunarlón við Eyjabakka, að nú fyrst færi baráttan að hefjast. Baráttan um Kárahnjúka.

Hann taldi (réttilega) að afar fáir áttuðu sig á því að þar færi merkilegra land undir vatn, en við Eyjabakka.

Reyndar var landið við Kringilsárrana og norður úr til Kárahnjúka, "ómerkilegt", að mati Hjörleifs, í grein sem hann birti, laust eftir 1980. Önnur og aðgengilegri svæði væru a.m.k. jafn merkileg, í öllu tilliti.

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.12.2010 kl. 15:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband