14.2.2010 | 21:48
Leiðindakafli sem hægt er að losna við.
Í tilefni af frétt um óhöpp í Langadal vísa ég til Morgunblaðsgreinar sem ég skrifaði nýlega um svonefnda Húnavallaleið frá Stóru-Giljá og þvert lágt skarð í Bakásum yfir í Langadal á brú hjá Fagranesi í miðjum dalnum, - leið sem ég hef sem gamall kúarektor að Hvammi í Langadal verið áhugamaður um í 60 ár.
Lengst af í þessi 60 ár hefur eðlileg mótbára Blönduósinga gegn þessari 14 kílómetra styttingu hringvegarins verið sú að við hana myndu þeir missa tekjur af þjónustu við vegfarendur út úr sveitarfélaginu.
En nú eru aðstæður breyttar. Með tilkomu vegar um Þverárfjall liggur leið Sauðkrækinga og Siglfirðinga áfram um Blönduós.
Mörk sveitarfélagsins hafa líka breyst svo að brú við Fagranes myndi koma inn í land Blönduósbæjar og liggja um land hans á tæplega 3ja kílómetra kafla. .
Styrkja mætti Blönduósinga rausnarlega til að reisa þar þær þjónustumiðstöðvar við vegfarendur sem nú eru við Blöndubrúna hina ystu vegna þess að þjóðhagslegur ávinningur af styttingu leiðarinnar er svo mikill að þessi styrkur við heimamenn yrði örlítið brot af þessum ávinningi.
Til þess er líka að líta að vegarkaflinn yst í Langadal, sem hefur löngum verið alræmdur fyrir illviðri og óhöpp, yrði ekki lengur hluti af hringveginum.
Þessi slys og umferðartruflanir kosta líka mikla peninga.
Alla tíð hef ég talið að stytting um Svínvetningabraut yrði óæskileg.
Hún þýðir meiri vegagerð og gerð nýrrar brúar nálægt brúnni gömlu við Löngumýri í stað þess að með gerð brúar við Fagranes yrði sú brú miðja vegu á milli brúarinnar á Blönduósi og brúarinnar við Löngumýri og því miklu meiri búbót fyrir innanhéraðssamgöngur í Austur-Húnavatnssýslu.
Lítið þið bara á kortið til að sjá þetta.
Það hlýtur að koma að því að hin sjálfsagða og þjóðhagkvæma stytting verði að veruleika. Ef Blönduósingar grípa ekki tækifærið núna og fá styttingu sem tryggir að vegurinn liggi um sveitarfélag þeirra með þeim tekjum sem þeir gætu haft af því, er hætta á að ný Svinvetningabraut verði fyrir valinu sem sviptir Blönduósinga allveg þessum tekjumöguleikum.
Ég vona að það gerist ekki og að Blönduósingar bandi ekki frá sér þeim möguleikum fyrir þá, sem Húnavallaleið getur þó gefið þeim.
![]() |
Fjögur óhöpp í Langadal |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
14.2.2010 | 19:46
Afleitt leitarsvæði.
Ég þekki það af eigin reynslu að sunnanverður Langjökull og Skálpanes, sem liggur á milli jökulsins og Bláfellsháls, eru veðravíti í hvassri norðanátt.
Loftið, sem þrýstist suður Kjöl fær aukinn kraft þegar það skellur á þeirri fyrirstöðu sem suðaustanverður jökullinn og Skálpanesið eru, en þau rísa upp fyrir sunnan lægðina sem Hvítárvatn er í.
Búið er að spá daglega í heila viku að óveður ætti að skella á á þessum slóðum á bilinu milli föstudagskvölds og hádegis á laugardegi.
Vonandi fer þetta ekki illa en það er erfiðara að hafast við fyrir vélsleðafólk í óveðri en jeppafólk, sem á möguleika á að láta fyrirberast inni í bílunum og bíða hjálpar þar til veðri slotar.
Ég hef verið í ferð með vönum jeppamönnum, sem voru með réttan búnað, vistir og símasamband og gátu beðið rólegir af sér óveður sem stóð í meira en sólarhring og haldið síðan áfram ferðinni í betra veðri.
Það var vikuleiðangur hóps af öflugustu jöklajeppum landins undir stjórn færustu jöklabílstjóra um Vatnajökul og Öræfajökul og menn útbúnir í fullu samræmi við veðurspá og með rétt ög örugg viðbrögð og viðbúnað.
Tryggt var að enginn yrði viðskila og engum hefði dottið í hug að reyna þetta á vélsleðum.
![]() |
150 leita við slæmar aðstæður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.2.2010 | 19:39
Óþörf og skaðleg harka í kröfum ríkisins.
Ég hef reynt að fylgjast með þjóðlendumálunum frá upphafi og fæ ekki betur séð en að óþarfar og stundum fáránlegar kröfur ríkisvaldsins hafi gert þessum málum ógagn sem og öllum hugmyndum um þjóðgarða og friðlönd.
Þettar hefur verið afar bagalegt og mikill óþarfi.
Sem dæmi má nefna kröfurnar á Miðnorðurlandi þar sem fjallsranar á milli byggðra dala áttu að fara úr eign landeigenda sem höfðu nýtt þá og gengið um þá árlega frá upphafi byggðar á Íslandi til að tína ber og fjallagrös.
Ég þekki dæmi um að berjalönd og fjallagrasalönd sem voru í meira en 400 metra hæð og voru nýtt af heimamönnum, kannski innan við einn kílómetra frá viðkomandi sveitabæ, áttu að verða að þjóðlendum.
Það er sjálfsægt mál að taka undir með þeim landeigendum og heimamönnum sem vilja að tekið verði tillit til allra gagna, sem kunna að finnast um þessi mál, og raunar sé ég ekki þá nauðsyn sem það á að vera fyrir ríkisvaldið að ganga fram með ítrustu kröfur, sem eru oft langt umfram alla sanngirni.
![]() |
Þjóðlendulögum verði breytt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.2.2010 | 10:00
Bakari hengdur fyrir smið?
Dana drifbúnaður hefur verið í fjórhjóladrifsbílum svo lengi sem ég man eftir mér. Þetta hefur yfirleitt verið framhjóladrifið, til dæmis á Bronkónum hérna í gamla daga, en drifið hefur verið af mismunandi styrkleika og stærð.
Fréttin um innköllun á drifbúnaði Tacoma er ófullkomin og því erfitt að segja hvort verið sé að hengja bakaara fyrir smið þegar Toyota innkallar Dana-drif en aðrir ekki.
Skýringin kann að vera sú að sú gerð Dana-drifs sem er í Tacoma hafi reynst of veikburða fyrir þann bíl þótt hann sé nógu sterkur fyrir léttari bíla.
Hin skýringin kann að vera sú að eftir hremmingar undanfarinna vikna geri Toyota meiri kröfur en aðrir framleiðendur til sinnar framleiðslu og sé með innköllun að benda á það að gæða- og öryggiskröfur Toyota séu hinar mestu sem þekkjast.
Ef svo er er ekki bara bakari hengdur fyrir smið í þessum efnum heldur vill bakarinn vera hengdur fyrir hinn bandaraíska drifbúnarsmið og aðra bílasmiði.
![]() |
Innkalla 8.000 pallbíla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)