Pottþétt hugmynd í den. Hvað nú?

Kínverjar telja mikla lífsfyllingu og nautn fólgna í því að rækta gróður og ávexti.

Kannski er það hollt fyrir sál og líkama að leigja sér gróðurhús eins og nú er boðið upp á. 

Þegar ég var strákur var það stór hluti af lífsmynstri sumarsins að fara með afa og ömmu Þorfinni og Ólöfu í kartöflugarðinn þeirra í Kringlumýri. 

Þá var allt svæðið sem nú liggur á milli Stakkahlíðar, Háaleitisbrautar og Bústaðavegar gróið land, og stærsti hluti þess var hólfað niður í kartöflugarða sem var raðað á milli mjórra malarstíga og skurða.

Yfir skurðina lágu göngubrýr og allt var þetta stóra svæði var ævintýraland fyrir unga sem aldna.

Raunar hét eitt af litlu býlunum sem voru umhverfis þetta svæði Undraland og var skammt frá bænum Lækjarhvammi við Suðurlandsbraut skammt frá Fúlilæk, sem rann undir brautina og til sjávar þar sem nú er nyrsti hluti Kringlumýrarbrautar. .  

Afi og amma höfðu alist upp til fullorðinsára austur í Skaftafellssýslu og kartöflu-, rófu-, káls- og gulrótaræktunin var hluti af tengslum þeirra við náttúruna og eðlilegan lífsmáta þúsunda forfeðra þeirra eftir að þau fluttu til Reykjavíkur. 

Hundruð reykvískra fjölskyldna nýttu sér þarna tækifæri til hressandi og heilnæmrarar útiveru, gefandi starfs og hollrar hreyfingar í senn. 

Það þurfti að hirða um þennan garð í fleiri en einni ferð upp í hina dásamlegu Kringlumýri sem þá var uppi í sveit.

Þegar maður stækkaði var gríðarlega skemmtilegt að hjóla í loftköstum eftir hinum þröngu stígum og göngubrúm og í minningunni ríkir sérstakur ljómi yfir þessu öllu.

Nú er að sjá hvort leiga á gróðurhúsi virkar jafn vel á okkar dögum og í gamla daga. 

Hestaíþróttir, hjólreiðar og göngur hafa tekið þetta hlutverk að sér að hluta til en í kreppunni er kannski ekki vitlaust að hafa einhverjar tekjur af því í leiðinni að komast í heilnæma snertingu við gróður jarðar.  


mbl.is Pláss til leigu í gróðurhúsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. febrúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband