Pottþétt hugmynd í den. Hvað nú?

Kínverjar telja mikla lífsfyllingu og nautn fólgna í því að rækta gróður og ávexti.

Kannski er það hollt fyrir sál og líkama að leigja sér gróðurhús eins og nú er boðið upp á. 

Þegar ég var strákur var það stór hluti af lífsmynstri sumarsins að fara með afa og ömmu Þorfinni og Ólöfu í kartöflugarðinn þeirra í Kringlumýri. 

Þá var allt svæðið sem nú liggur á milli Stakkahlíðar, Háaleitisbrautar og Bústaðavegar gróið land, og stærsti hluti þess var hólfað niður í kartöflugarða sem var raðað á milli mjórra malarstíga og skurða.

Yfir skurðina lágu göngubrýr og allt var þetta stóra svæði var ævintýraland fyrir unga sem aldna.

Raunar hét eitt af litlu býlunum sem voru umhverfis þetta svæði Undraland og var skammt frá bænum Lækjarhvammi við Suðurlandsbraut skammt frá Fúlilæk, sem rann undir brautina og til sjávar þar sem nú er nyrsti hluti Kringlumýrarbrautar. .  

Afi og amma höfðu alist upp til fullorðinsára austur í Skaftafellssýslu og kartöflu-, rófu-, káls- og gulrótaræktunin var hluti af tengslum þeirra við náttúruna og eðlilegan lífsmáta þúsunda forfeðra þeirra eftir að þau fluttu til Reykjavíkur. 

Hundruð reykvískra fjölskyldna nýttu sér þarna tækifæri til hressandi og heilnæmrarar útiveru, gefandi starfs og hollrar hreyfingar í senn. 

Það þurfti að hirða um þennan garð í fleiri en einni ferð upp í hina dásamlegu Kringlumýri sem þá var uppi í sveit.

Þegar maður stækkaði var gríðarlega skemmtilegt að hjóla í loftköstum eftir hinum þröngu stígum og göngubrúm og í minningunni ríkir sérstakur ljómi yfir þessu öllu.

Nú er að sjá hvort leiga á gróðurhúsi virkar jafn vel á okkar dögum og í gamla daga. 

Hestaíþróttir, hjólreiðar og göngur hafa tekið þetta hlutverk að sér að hluta til en í kreppunni er kannski ekki vitlaust að hafa einhverjar tekjur af því í leiðinni að komast í heilnæma snertingu við gróður jarðar.  


mbl.is Pláss til leigu í gróðurhúsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Alli

Í den, eins og þú segir, hefði þetta gengið en mér er til efs að svona gróðurhús fengi að vera í friði nema að það yrði vaktað allan sólarhringinn. Amk. má ekki skilja bilaðan bíl eftir á vegum landsins yfir nótt án þess að koma að honum stórskemmdum að morgni. Ég er hræddur um að eins færi fyrir gróðurhúsunum í þessu landi þar sem eignarrétturinn er að engu virtur.

Alli, 24.2.2010 kl. 15:33

2 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Jú, en einhverstaðar verður að byrja að kenna fólki að virða eigur annarra. Ég er sjálfur fæddur og uppalinn í Kringlumýrinni, á Hrauni rétt fyrir neðan kartöflugarðana. Það voru líka garðar fyrir neðan Suðurlandsbrautina og reyndar allstaðar útum allan bæ. Við vorum garð heima með kartöflum, káli, rófum,radísum og rabbabara sem var alltaf vinsælastur hjá okkur krökkunum. Þetta góða og holla umhverfi vantar nú til dags og er það dapurt þar sem betri kennsla í samstarfi milli manna er varla til. Og ég var líka í Skólagörðunum við Klambratún og hafði 2 reiti sem var mikið. þetta var ansi góð búbót fyrir fjölskyldurnar á þeim tíma. Þetta er hægt að framkvæma ef menn vilja, en það virðist alltaf koma peningasjónarmið (les græðgi) inn í allt sem hefur með lóðir að gera. Það eru til ansi góðir blettir fyrir ofan Rauðavatn, en þar hafði afi stóran garð með kartöflukofa úr grjóti og torfi en  með góðum vilja borgarinnar er hægt að nota þetta stóra fína land til að skipta upp í smá reiti. Það mundi ég geta tekið að mér leikandi létt.

Eyjólfur Jónsson, 24.2.2010 kl. 19:01

3 identicon

Góðan daginn, Ómar.

Mig langar að spyrja þig spurningar sem tengist þessari færslu lítið sem ekkert.

Ég var að lesa hérna færslu um ferð þína á metanknúnum bíl frá Reykjavík til Akureyrar í fyrra. Þar skrifaðir þú að metastöð yrði opnuð næstu helgi (þ.e. frá því að þau orð voru skrifuð).

Allavega, mál með vexti er þannig að ég bý á Akureyri og hef mikinn áhuga á að breyta bílnum mínum þannig að hann gangi á metani, en ég kannast ekki við að þessi stöð sé hérna á Akureyri. Því var ég að vonast eftir að þú vissir nokkuð hvort hún sé einhver staðar hér í felum eða hvort hætt hafi verið við þessar fyrirætlanir án nokkurs fyrirvara?

Kveðja,

Aðalsteinn.

Aðalsteinn Grétar (IP-tala skráð) 24.2.2010 kl. 21:12

4 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Ég hef líka heyrt um þetta, en að kútnum hafi verið stolið bara um næst nótt og slöngunni líka. Svona fer með allar framfarir á Akureyri.

Eyjólfur Jónsson, 26.2.2010 kl. 02:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband