Minnir á 1953.

Fréttirnar um að biðlað sé til Framsóknarmanna um að koma og styrkja ríkisstjórnina minnir á ástandið eftir kosningarnar 1953.

Þá höfðu Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn verið í stjórn í þrjú ár og framundan voru erfið viðfangsefni. Vegna löndunarbanns á íslenskan fisk í Bretlandi var erfitt efnahagsástand hér sem kom betur fram árið eftir en þá var ein af dýpri lægðum í efnahagnum hér á landi, allt reyrt í fjötra hafta og banna og ekki glæsilegt að þurfa að fást við það.

Þótt Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hefðu mjög ríflegan meirihluta á þingi vegna ranglátrar kjördæmaskipunar var undiralda í Framsóknarflokknum.

Ólafur Thors hafði stjórnarmyndunarumboðið og menn vildu forðast sama vandaræðaganginn og 1950 þegar leita varð til Steingríms Steinþórssonar, búnaðarmálastjóra og alþingismanns, um að verða forsætisráðherra, því að trúnaðarbrestur var milli Ólafs Thors og Hermanns Jónassonar sem eitraði öll stjórnmál á Íslandi í tvo áratugi.

Hermann vildi ekki setjast í stjórn undir forsæti Ólafs og öfugt. Þá komu upp raddir um að styrkja stjórnina með því að fá Alþýðuflokkinn inn í hana. Af því varð ekki og varla var liðið meira en ár af stjórnarsamstarfinu þegar menn þóttust verða þess varið að Hermann Jónasson leitaði að nýju stjórnarmynstri og væri á bak við tjöldin i stjórnarandstöðu á köflum ásamt óánægðum vinstri armi í Framsóknarflokknum.

Sumir Framsóknarmenn töldu krata vænlegan kost til að auka vægi vinstri manna í stjórninni.

Ástandið 1953 hefði áreiðanlega ekkert lagast við að fá krata inn. Þetta stjórnarmynstur, Stefanía, sem svo var kallað eftir daga þriggja flokka 1947-49 hefur reynst illa.

Með því að kalla Framsókn inn í stjórnina nú sýnist mér verið að koma sökinni af hruninu enn frekar yfir á Sjálfstæðisflokkinn en þó hefur verið réttilega gert. Hann færi þá einn í skammarkrókinn en Framsókn yrði tekin í sátt.

Ég sé ekki að þetta hafi mikið upp á sig. Stóriðju- og virkjanafíklarnir myndu fá aukið vægi í svona stjórn og finnst mér ekki á slíkt bætandi.

Stundum er svona sögum komið á kreik, þótt ólíklegar séu, til þess að hræra í stjórnmálapottinum. Kannski er slíkt á ferðinni nú, hver sem það nú er, sem sér sé hag í því að koma svona kvitt á framfæri.


mbl.is Biðla til Framsóknarmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. febrúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband