9.2.2010 | 22:46
Las Brown bloggið mitt?
Fyrir um það bil ári bloggaði ég um það að í viðleitni minni til að stöðva þyngingu mína hefði ég farið í saumana á mataræðinu og komist að því að ein af ástæðunum fyrir vaxandi líkamsþyngd væri sá gamli siður, sem ég tók upp fyrir meira en hálfri öld að neyta þjóðarréttar Íslendingar sem þá var nýbúinn að ryðja sér til rúms og hét og heitir enn "Kók og Prins."
Ég fann út að þriðjungur Prins Pólósins væri hrein fita og restin sykur og að þetta ætti stóran þátt í því að eftir að ég hafð lést í veikindum í hitteðfyrra um 16 klíó, niður í 74 kíló, hafði ég í gleði minni yfir batanum og því að geta í fyrsta sinni í 40 ár étið eins og mig lysti, náð öllum 16 kílóunum til baka, 10 kílóum meira en góðu hófi gegndi.
Með því að minnka Prins Póló neysluna niður í eitt stykki á viku "nammidaginn", sunnudag, gæti ég sparað 7-8 þúsund krónur á mánuði og tekið í burtu eitt til tvö kíló af þyngingu í leiðinni.
Gordon Brown hefur neytt óhollara súkkulaðis, því að Kit-Kat er með ljóst súkkulaði sem telst óhollara en dökkt súkkulaði eins og er í Prins Póló.
Nýlega var ég þó að lesa að í dökku súkkulaði sé koffein sem gerir það að þreföldu fíkniefni, koffein, fita og hvítasykur.
Það versta við þetta uppátæki Browns er það að þessi skúrkur sem hann er í augum allra sannra Íslendinga, fær ákveðna samúð þjáningarbróður síns, eða eigum við að segja nautnabróður, því að auðvitað værum við ekki að borða þetta nema vegna þess hvað okkur finnst það rosalega gott og mikill gleðiauki í lífinu.
Brown skipti yfir í banana. Ég yfir í epli. Tæknivætt "Apple"-lýðveldi er skárra en bananaríki.
![]() |
Gordon Brown skiptir KitKat út fyrir banana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 10.2.2010 kl. 00:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2010 | 18:14
Gamla stemningin að koma aftur ?
Aðeins fjórtán ára gamall átti ég þess kost að dvelja í sex vikur á venjulegu heimili í Kaupmannahöfn og fara á alþjóðlega æskulýðsráðstefnu þar.
Síðan þá hefur mér ævinlega fundist ég vera kominn heim ef ég hef komið við í Kaupmannahöfn á leið til Íslands frá fjarlægum slóðum.
Ráðhústorgið var þá miklu skemmtilegra en nú, því að göturnar iðuðu af hjólreiðafólki og gangstéttir af fólki en bílarnir voru miklu færri en nú er.
Mér fannst það óskiljanlegt þegar hin forljóta umferðarmiðstöð var reist á torginu gersamlega á skjön við allt umhverfi sitt og fagna því mjög að eiga þess kost að koma aftur á torgið og fá smá smjörþef af gamalli stemningu sem ekki er raskað með jafn ljótu mannvirki og umferðarmiðstöðin hefur verið síðustu fimmtán ár.
![]() |
Ljótasta hús Danmerkur rifið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.2.2010 | 12:40
Valdið spillir.
Peningar eru eitt afbrigði af völdum og lögmálið er að vald spillir og því meira og langvinnar sem valdið er, því meiri er spillingarmáttur þess.
Það sannast á sorphirðumanninum sem vann tvo milljarða í lottói og sóað öllu fénu og svipað lögmál var orsök efnahagshrunsins hér á landi.
George Best var einhver mesti knattspyrnumaður sem enska knattspyrnan hefur haft innan sinna raða og hafði tekjur í samræmi við það.
Hann lést langt um aldur fram vegna þess að hann réði ekki við frægð, fé og frama og drap sig á drykkju og dópi.
Ég þekki mörg dæmi um að það hefur verið lífsmunstur slíkra manna að geta ekki lifað lífinu öðru vísi en að "detta í það" með reglulegu millibili og fara út á lífið.
Þegar Best leit yfir farinn veg mælti hann þessi fleygu orð: "Ég eyddi mestu af peningunum mínum í vín og konur og afganginum í einhverja bölvaða vitleysu."
![]() |
Vann tvo milljarða í lottói en er kominn aftur á bætur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 11.2.2010 kl. 00:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.2.2010 | 10:14
Nei, þið segið ekki !
Nú er illt í efni fyrir þá sem hafa hamast á Svandísi Svavarsdóttur fyrir að bregða fæti fyrir SV-línu. Í ljós kemur að engu skiptir þótt græna ljósið sé komið á þeim vettvangi.
Það liggur nú fyrir að það tefst af öðrum ástæðum að hefja undirbúning að lagningu línunnar.
Nú les maður á bloggsíðum stóriðjufíkla að VG og umhverfisverndarfólki hljóti að líka illa að fjölga eigi um 50 störf hjá Actavis í Hafnarfirði vegna þess að umhverfisverndarfólk sé á móti allri atvinnuuppbyggingu!
Þetta er skrýtin röksemdarfærsla. Umhverfisverndarfólk hefur haldið því fram alla tíð að atvinnuuppbygging af öðru tagi en því að rústa náttúruperlum landsins skapi fleiri og betri störf en álverin án slíkra fórna.
Reynt hefur verið að hæða okkur og spotta fyrir þetta með því að segja að hugmyndir okkar séu ónýtar, þetta "eitthvað annað" sem við tölum um sé ekki raunhæft og að við höfum ekkert fram að færa nema fjallagrasatínslu.
Þegar síðan kemur í ljós að hugmyndir okkar eru raunhæfar, þá er ráðist á okkur fyrir það að við séum á móti því að þær séu framkvæmdar af því að við séum á móti allri atvinnuuppbyggingu !
![]() |
SV-lína áfram á ís |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.2.2010 | 00:19
"Að standa við gefnar skuldbindingar..."
Hversu oft skyldi ofangreind orð ekki hafa verið sögð allt frá símtali Árna Mathiesen við Alistair Darling til þessa dags?
Á öllum stigum málsins hafa allir þeir Íslendingar sem gefið hafa yfirlýsingar um Icesave-málið, forsetinn, ráðherrarnir og talsmenn flokkanna hamrað á þessu af augljósri ástæðu: Umheimurinn verður að geta treyst því að Íslendingar haldi orð sín, annars missa þeir alla tiltrú.
Ísland er eylanda og fá lönd eru eins háð því að eiga traust og mikil viðskipti við aðrar þjóðir.
Útilokað er að stunda nein viðskipti nema að orð standi og hægt sé að treysta á samninga.
Málið fór strax í þann farveg og hefur verið í honum síðan að leysa þyrfti þessa deilu með samningum.
Héðan af verður ekki hægt að ganga til samninga öðruvísi en að hægt sé að treysta því af beggja hálfu að samningarnir, hverjir sem þeir verða, standi, og að báðir aðilar hafi haft fullt umboð til að gera þá.
Hitt er hins vegar höfuðatriði að samningarnir séu sanngjarnir og taki mið af eðlilegri dreifingu þeirra byrða sem sameiginleg ábyrgð þriggja þjóða hefur í för með sér.
Samningar geta aldrei orðið sanngjarnir ef annar aðilinn neytir aflsmunar og sýnir af sér bæði ósanngirni og óskynsamlega nauðung í garð hins aðilans.
Tíminn hefur unnið með okkur til þessa í þá veru að afla skilnings erlendis á eðli þessa máls og nauðsyn þess að gera "fair deal" sem meðal annars felist í eðlilegum fyrirvörum.
Takmörk eru hins vegar fyrir því hve langan tíma við höfum og spurning hvenær tíminn fer að vinna á móti okkur.
Vandinn felst í því að meta þetta rétt og um það mat og samningana sjálfa þarf að fást sú samstaða að lausn málsins verði föst í hendi fyrir alla aðila.
![]() |
Kröfðust pólitískra sátta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)