12.3.2010 | 20:39
Hekla og Grímsvötn líklegri en Eyjafjallajökull?

Það liggur fyrir að tími sé kominn á Heklu og sömuleiðis að eldvirkni á svæðinu Grímsvötn-Bárðarbunga hafi farið vaxandi og líkur aukist á eldsumbrotum þar.
Gos í norðaustanverðum Vatnajökli gæti orðið afdrifaríkara en gos í Eyjafjallajökli vegna hættu á hamfaraflóðum niður í virkjanakerfið á Tungnaár-Þjórsársvæðinu eða norður í Jökulsá á Fjöllum.
Öxullinn Bárðarbunga-Grímsvötn er miðja eldvirka beltisins sem gengur frá suðvestri til norðvesturs um Ísland og þar með miðja möttulstróksins sem er undir landinu og er annar hinum tveimur stærstu í heimi.
Hinn er undir Hawai.
Myndin, sem fylgir þessum pistli er tekinn af Bárðarbungu í leiðangri Jöklarannsóknarfélags Íslands á Vatnajökul í fyrravor og sést yfir Vonarskarð til Tungnafellsjökuls, Sprengisands og Hofsjökuls.
![]() |
Jarðskjálfti við Bárðarbungu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.3.2010 | 16:07
Gott fyrir litla þjóð.
Mér finnst það góðar fréttir að RUV og Stöð tvö sameinist um að sýna frá HM í knattspyrnu. Of oft hefur það gleymst í gegnum árin að þjónusta við hin íslensku Jón og Gunnu getur orðið fyrir skaða af of mikilli viðleitni keppinauta til að klekkja hvor á öðrum eða reyna að kaffæra hvor annan.
Þegar hugmyndin um Stöð tvö kom upp 1986 hafði ég enga trú á að tvær burðugar sjónvarpsstöðvar gætu keppt á jafn litlum markaði og Ísland er.
Annað kom í ljós og sjálfur réðist ég fljótlega til starfa hjá Stöð tvö og vann þar í sex og hálft ár þau ár sem stöðin var að festa sig í sessi um allt land.
Það kann að sýnast mótsögn en ein af ástæðum þess að ég fór yfir á Stöð tvö var sú að ég var ósáttur við þá ákvörðun RUV að gefa eftir fréttatímann klukkan 19:30 og fara til baka til klukkan 20:00, í þveröfuga átt við það sem rétt væri og að með þessu væri Stöð tvö að óþörfu réttur tíminn klukkan 19:30 á silfurfati.
Ég vildi spila með liði þar sem keppnisandinn væri ríkari en svo að keppinautnum væru færð vopn í hendur.
Samtímis þessu var ég þó mjög andvígur einokun á afmörkuðum sviðum en vildi að heilbrigð samkeppni væri viðhöfð og lögð rækt við hvata um að allir legðu sig fram.
Mér fannst starfið á Stöð tvö eftir 19 ára starf hjá RUV dýpka skilning minn á kostum og göllum ríkisrekstrar og einkarekstrar og mjög dýrmætt að öðlast reynslu af því að vinna í ólíku umhverfi.
Nú þurfa Íslendingar að snúa bökum saman og samstarf sjónvarpsstöða í þá veru að hámarka þjónustu við landsmenn er gott fyrir litla þjóð í nauðvörn.
![]() |
Sameinast um að sýna frá HM |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)