Mannauðurinn, dýrmætasta auðlindin!

Í kvöld mátti sjá á sjónvarpsstöðvunum dæmi um hinn mikla mannauð, sem þessi þjóð á í ungu hæfileikafólki sem er að hasla sér völl, annars vegar í tónlistinni og hins vegar í fjölmenntun sem kemur vel í ljós í "Gettu betur." 

Það hefur verið unun og ótrúleg upplifun að fylgjast með sumum tónistaratriðunum í þessum spurningaþáttum og ekki síður næstum því fáránlega mikilli þekkingu keppendanna.

Sem einn þeirra sem þekkir flugvelli landsins hvað best varð ég til dæmis hrifinn af þekkingu keppenda á þeim í einni spurningunni. Og þar sem aðeins 21 kílómetra munur er á beinni flugleið frá Reykjavík til Ísafjarðar og Akureyrar var gaman að sjá að svarið við því vafðist ekki heldur fyrir keppendum.  

Og síðan gladdi mig auðvitað sem M.R.-ingi sem á 50 ára stúdentsafmæli í vor, hve vel keppendur skólans stóðu sig gegn skemmtilegu liði M.E.

Sem minnir mig á frábært svar eins að austan þegar ég hitti hann glaðbeittan á leið út úr Útvarpshúsinu um daginn og óskaði honum til hamingju með sigurinn í þeirr keppni, en bætti því við að auðvitað yrði ég að halda með gamla skólanum mínum.

Hann svaraði samstundis: "Já, haltu bara sem mest með honum á meðan hann mætir öðrum keppinautum okkar!"

En síðan fór það þannig að ég átti ekkert val, því miður.  


mbl.is MR í úrslit Gettu betur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju, Haukur Heiðar yngri !

"Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni" kom upp í hugann þegar ég fylgdist útundan mér með hluta af veitingu Íslensku tónlistarverðlaunanna í kvöld og sá hve góðu gengi hljómsveitin Dikta á að fagna. 

Ég hef fylgst með Hauki Heiðari Haukssyni frá því að hann var smástrákur í ranni foreldra sinna, Hauks Heiðars Ingólfssonar og Sveinrósar Sveinbjarnardóttur og það vakti athygli mína hvað hann var áhugasamur og fylgdist vel með þegar hann var á ferðalögum með Fjörkálfunum svonefndu sumarið 1994, föður sínum, Hermanni Gunnarssyni, Vilhjálmi Guðjónssyni, Pétri Kristjánssyni og mér.

Um daginn fékk ég hann til að raula með mér svonefndan Brunabrag og í stúdíóinu sagði hann þaulreyndum upptökustjóranum til þegar þess þurfti til að flýta fyrir verkinu.

Þeir í Dikta gera nefnilega og kunna allt sjálfir og það er dásamlegt að fylgjast með verðskuldaðri velgengni þeirra.

Þeir voru valdir vinsælustu flytjendurnir  í kvöld og tilefndir þar fyrir utan.  

Til hamingju, þið Diktamenn og þeir sem að ykkur standa!  


mbl.is Íslensku tónlistarverðlaunin veitt í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gefandi listamaður.

Páll Óskar Hjálmtýsson er mikill listamaður og það á fleiri sviðum en margur annar. Viðtalið við hann í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins er listaverk út af fyrir sig, sem hann gefur okkur í samvinnu við Kolbrúnu Bergþórsdóttur. 

Einkum er síðasti hluti viðtalsins frábær, heimspeki sem er sígild á öllum tímum og ekki hvað síst í kjölfar hruns þeirrar tálsýnar sem bar upp bóluna stóru og speglaðist best í vinsælustu myndafrásögnunum í "Séð og heyrt" og brúðkaupsþáttum Skjás eins, - sjáið þið flottu kjólana þeirra!, - gaf henni BMW í afmælisgjöf! sjáið þið lúxushallirnar í sveitinni!, - sjáið þið allar stóru brúðkaupsgjafirnar! 

Páll Óskar er ekki óskeikull frekar en við hin en ég tek ofan fyrir honum og óska honum til hamingju með fertugsafmælið.  

  


mbl.is Páll Óskar varð fangi klámsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins gott.

Það verður eins gott að stórhuga áætlanir um Hörpu sem ráðstefnustað verði að veruleika. Sem tónlistarhús á það eftir að eiga í harðri samkeppni við splunkuný og rándýr tónlistarhús í Osló og Kaupmannahöfn, sem bæði eru miklu nær miðju Evrópu en Ísland. 

Í Þrándheimi, sem er sambærilegasta byggð í heimi og Reykjavík og Ísland er frábært tónleikahús, sem heitir Ólafshöllin. 

Þarna er sama breiddargráða og svipað loftslag, svipuð menning og lífskjör.  Mannfjöldinn í Þrándheimi og Þrændalögum er sambærilegur við mannfjölda í Reykjavík og á Suðvesturlandi.

Þetta er 4-5 sinnum ódýrara tónlistarhús en Harpa og er rómað fyrir fullkomna aðstöðu fyrir hvers kyns tónlistarviðburði og óperur. 

Það var frá upphafi ætlað fyrir óperuflutning en í upphafi átti Harpa ekki að geta hýst óperuflutning.  

Ólafshöllin er ekki minnismerki sem keppi við óperuhúsið í Sydney í útliti heldur svo yfirlætislaust  í miðborg Þrándheims að það liggur við að það sé falið. 

Stóri salurinn tekur 1200 manns og sá litli rúmlega 200.  Húsið er þéttbókað allt árið og aðstaðan skemmtileg því að hótel og verslunarmiðstöð eru sambyggð og nóg bílastæði í grennd.

Mér var tjáð að salirnir væru hæfilega stórir og að menn hefðu ekki fallið í þá gryfju að hafa litla staðinn stóran eins og á að vera í Hörpu.

Betra væri að hafa salinn þannig að þar sé ævinlega þétt stemning heldur en að hafa hann svo stóran að hætta sé á að hann virki hálftómur.

Mér sýnist tilvera Hörpu og rekstrargrundvöllur standa og falla með því að vel takist til með að gera hana að aðlaðandi ráðstefnustað.

Ef ekki er ég hræddur um að erfitt verði að reka húsið án þess að það verði fjárhagsleg byrði.  


mbl.is Harpan mun skapa mikinn gjaldeyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. mars 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband