15.3.2010 | 21:04
Óframkvæmanleg sanngirni?
Bílalánin sem meiri hluti þjóðarinnar kepptist við að taka á gróðærisárunum eru svo margvísleg að útilokað er að setja reglur sem tryggja fullt jafnræði og sanngirni hvað það varðar að afskrifa þau eða réttara sagt að leiðrétta virði þeirra.
Dýrustu bílarnir hafa falli mest í markaðsverði eftir hrunið og ef miðað er við markaðsverðið verða afskriftirnar lang stærstar á þessum dýru bílum, sem oft voru keyptir umfram það sem skynsamlegt mátti telja.
En það er samt engin algild regla um það. Tökum dæmi af fjórum mönnum sem keyptu bíla á 10 milljón krónur hvern:
Jón kaupir sér 10 milljón króna BMW í stað þess að kaupa 4 milljón króna bíl sem hefði alveg dugað honum og gert sama gagn.
Bjarni kaupir sér Hummer á lágprófíldekkjum, sem varla er hægt að aka út á malarveg nema sprengja dekkin, og ekur honum mest í innanbæjarkeyrslu sem stöðutákni.
Hann hefði getað keypt Kia Sorentu eða Suzuki Grand Vitara fyrir 40% af verðinu, - bætt 100 þúsund kalli við kaupverðið á Súkkunni til að hækka hann upp og fengið bíl sem gerði meira gagn en Hummer á lágum dekkjum.
Daníel kaupir sér Toyota Hilux sem hann breytir í jöklajeppa vegna þess að hann hefur af því tekjur að fara með innlenda og erlenda ferðamenn á honum í hálendisferðir.
Friðrik kaupir sér tíu milljón króna sendibíl sem hann notar í atvinnuskyni.
Allir þessir menn fá sömu upphæð afskrifaða þótt tveir þeirra eigi það varla skilið.
Og þegar dæmin skipta tugum þúsunda og ekkert er líkt öðru, hver á að dæma og meta þessi mál og hver hefur tíma og mannskap til þess?
Það virðist svo sem við stöndum frammi fyrir óframkvæmanlegri sanngirni við úrlausn þessara mála sem þó er brýn nauðsyn á að verði lagfærð eftir því sem kostur er.
![]() |
Lán dýrra bíla afskrifuð mest |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 16.3.2010 kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.3.2010 | 13:25
Lennox Lewis hefði brillerað!
Því miður er því of lítið á loft haldið hve margir afburða íþróttamenn búa yfir miklu andlegu atgerfi. Skákboxið svonefnda er ekki út í hött því að ýmsir hnefaleikameistarar eru slyngir á andlega sviðinu.
Þannig var og er besti þungavigtarhnefaleikari heims frá 1992-2003, Lennox Lewis, slyngur skákmaður.
Wladimir Klitschko heimsmeistari í þungavigt, er læknir, og Michael Grant, sem var kominn í hóp örfárra bestu þungavigtarhnefaleikara heims, var og er góður píanóleikari.
Enginn þarf að efast um hvílíku andlegu atgerfi Muhammad Ali er búinn.
Þegar Tímaritið Time valdi 100 mestu snillinga síðustu aldar var Ali eini íþróttamaðurinn í þeim hópi.
Gene Tunney, sem varð heimsmeistari í einhverjum fjölsóttasta bardaga allra tíma 1926, tók sjálfan Jack Dempsey tvisvar í bakaríið með því að gjörkanna stíl hans og bardagaaðferð á nánast vísindalegan hátt. Tunney varð síðar virtur öldungadeidarþingmaður.
Manny Paquaio, besti hnefaleikari heims um þessar mundir, sem fyllti 51 þúsund manna íþróttahöll í Texas út úr dyrum s.l. laugardagskvöld og fór þar á kostum, er nú á góðri leið með að komast á þing á Filippseyjum. Ég vona nú samt að hann eyði ekki of miklum tíma og orku í það.
Svo við höldum okkur bara við bardagaíþróttir er Sigtryggur Sigurðsson, sem var nánast ósigrandi um árabil í íslenskri glímu, í hópi bestu bridds-spilara þjóðarinnar og hampaði Íslandsmeistaratitli í þeirri grein.
Sigtryggur var gagnrýndur fyrir einhæft val á glímubrögðum og fyrir að nýta sér þyngd sína og afl til að beita aðeins hábrögðum eins og sniðglímu á lofti og klofbragði.
Sigtryggur svaraði þessu eftirminnilega á einu glímumótinu með því að leggja alla keppinauta sína, hvern á sínu bragðinu!
Kom þá í ljós að hann var jafnvígur á öll brögð, jafnt hábrögð sem lágbrögð.
Sigtryggur notaði úthugsaða bardagaáætlun. Ógn hans gagnvart keppinautunum var sú að þeir yrðu að búast við hverju sem væri og þá var auðvitað skynsamlegast fyrir Sigtrygg að nota sér hábrögðin sem úrslitabrögð úr því að þau klikkuðu aldrei og voru skæðust af mörgum góðum vopnum hans.
Hermann Jónasson, glímukappi Íslands á sinni tíð, varð forsætisráðherra 1934-42 og aftur 1956-59.
Steingrímur Hermannsson, sonur hans, var ágætur fjölbragðaglímumaður á skólaárum sínum í Bandaríkjunum.
Svona mætti lengi telja um menn sem minna okkur á máltækið "hraust sál í heilbrigðum líkama."
![]() |
Skákbox slær í gegn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)