Lennox Lewis hefði brillerað!

Því miður er því of lítið á loft haldið hve margir afburða íþróttamenn búa yfir miklu andlegu atgerfi. Skákboxið svonefnda er ekki út í hött því að ýmsir hnefaleikameistarar eru slyngir á andlega sviðinu.

Þannig var og er besti þungavigtarhnefaleikari heims frá 1992-2003, Lennox Lewis, slyngur skákmaður. 

Wladimir Klitschko heimsmeistari í þungavigt, er læknir, og Michael Grant, sem var kominn í hóp örfárra bestu þungavigtarhnefaleikara heims, var og er góður píanóleikari. 

Enginn þarf að efast um hvílíku andlegu atgerfi Muhammad Ali er búinn. 

Þegar Tímaritið Time valdi 100 mestu snillinga síðustu aldar var Ali eini íþróttamaðurinn í þeim hópi.

Gene Tunney, sem varð heimsmeistari í einhverjum fjölsóttasta bardaga allra tíma 1926, tók sjálfan Jack Dempsey tvisvar í bakaríið með því að gjörkanna stíl hans og bardagaaðferð á nánast vísindalegan hátt. Tunney varð síðar virtur öldungadeidarþingmaður. 

Manny Paquaio, besti hnefaleikari heims um þessar mundir, sem fyllti 51 þúsund manna íþróttahöll í Texas út úr dyrum s.l. laugardagskvöld og fór þar á kostum, er nú á góðri leið með að komast á þing á Filippseyjum. Ég vona nú samt að hann eyði ekki of miklum tíma og orku í það. 

Svo við höldum okkur bara við bardagaíþróttir er Sigtryggur Sigurðsson, sem var nánast ósigrandi um árabil í íslenskri glímu, í hópi bestu bridds-spilara þjóðarinnar og hampaði Íslandsmeistaratitli í þeirri grein. 

Sigtryggur var gagnrýndur fyrir einhæft val á glímubrögðum og fyrir að nýta sér þyngd sína og afl til að beita aðeins hábrögðum eins og sniðglímu á lofti og klofbragði. 

Sigtryggur svaraði þessu eftirminnilega á einu glímumótinu með því að leggja alla keppinauta sína, hvern á sínu bragðinu!

Kom þá í ljós að hann var jafnvígur á öll brögð, jafnt hábrögð sem lágbrögð.

Sigtryggur notaði úthugsaða bardagaáætlun. Ógn hans gagnvart keppinautunum var sú að þeir yrðu að búast við hverju sem væri og þá var auðvitað skynsamlegast fyrir Sigtrygg að nota sér hábrögðin sem úrslitabrögð úr því að þau klikkuðu aldrei og voru skæðust af mörgum góðum vopnum hans.  

Hermann Jónasson, glímukappi Íslands á sinni tíð, varð forsætisráðherra 1934-42 og aftur 1956-59. 

Steingrímur Hermannsson, sonur hans, var ágætur fjölbragðaglímumaður á skólaárum sínum í Bandaríkjunum.

Svona mætti lengi telja um menn sem minna okkur á máltækið "hraust sál í heilbrigðum líkama."


mbl.is Skákbox slær í gegn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hamarinn

Ég og bróðir minn stunduðum þetta mikið fyrir 35 árum, þetta er ekkert nýtt.

Hamarinn, 15.3.2010 kl. 13:56

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Dóttir mín, þá um 10 ára gömul, sagði eitt sinn þegar hnefaleikar voru í snjónvarpinu:

"Ekki vildi ég vera hnefaleikari".

"Nú", afhverju", spurði ég. 

"Af því að þá væri alltaf verið að berja mann", svaraði sú stutta

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.3.2010 kl. 13:56

3 Smámynd: Rebekka

Þessu er ég alveg sammála og bæti jafnvel í og segi að það sé ómögulegt fyrir íþróttamenn að skara virkilega fram úr nema að þeir séu einnig afar andlega sterkir.

Það er ekki nóg að vera bara sterkur eða snöggur eða fimur, það þarf líka að hafa hausinn á réttum stað. 

Rebekka, 15.3.2010 kl. 14:16

4 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Frábær íþrótt. Góð leið til að kynna bæði hnefaleika og skák.

Sindri Guðjónsson, 15.3.2010 kl. 14:20

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Að "hafa hausinn á réttum stað" gildir tvöfalt í hnefaleikum. Til að forðast högg þarf að hreyfa höfuðið hverju sinni þannig að höggið geigi þannig að hausinn sé á réttum stað fyrir þann sem forðast það en á röngum stað fyrir þann sem slær.

Angelo Dundee þjálfari Alis orðaði þetta svona: "Boxing is to hit and not be hit", þ. e. "hnefaleikar snúast um það að hitta og láta ekki hitta sig."

Eitt af lykilatriðum velgengni Tysons í byrjun var hve vel honum tókst þetta. Síðan slævðist þetta hjá honum og þá fór að ganga verr. 

Ómar Ragnarsson, 15.3.2010 kl. 14:29

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þorgeir Jónson (Geiri) í Gufunesi, bóndi og hestamaður, var glímukóngur Íslands á þriðja áratug síðustu aldar. Hann var bæði lítill og léttur en stórir og sterkir karlar steinlágu fyrir honum.

Mig minnir að hann hafi einnig átt Íslandsmetið í kúluvarpi, 11-12 m.

Tæknin er gulls ígildi í kröftum og snerpu, eins og mörgu öðru.

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.3.2010 kl. 15:10

7 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ómar, er það rétt sem sagt er að Evander Holyfield hafi verið á sterum?

Theódór Norðkvist, 15.3.2010 kl. 22:32

8 identicon

Má einnig minnast á Guðmund Arason fyrrverandi forseta skáksambandsins sem var öflugur skákmaður og íslandsmeistari í hnefaleikum 1944.

bjarni (IP-tala skráð) 15.3.2010 kl. 22:51

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Evander Holyfield var grunaður um að hafa öflugan lyfjasérfræðing sér til trausts og halds og fór flatt á því 1993 þegar hann tapaði heimsmeistaratitlingum til Michael Moorer og í ljós komu hjartsláttartruflanir sem raktar voru til lyfs sem þá var ekki komið á bannlista.

Frægur þriðji bardagi hans og Riddick Bowe í kjölfarið kom Bowe óverðskuldað að mínu mati upp í efsta sæti hjá tímaritinu Ring, því að eftir á að hyggja var Holyfield þá ekki búinn að ná sér og í tveimur bardögum við Andrew Golota kom í ljós að Bowe hafði líka verið á niðurleið.

Eftir bardagann við Moorer og Bow töldu menn að Holyfield væri búinn að tapa sínu besta en annað kom í ljós í bardögum hans við Mike Tyson og síðar Lennox Lewis.

Ómar Ragnarsson, 16.3.2010 kl. 13:54

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Afsakið meinlega innsláttarvilu í þriðju línu, - á að vera "heimsmeistaratitlinum".

Ómar Ragnarsson, 16.3.2010 kl. 13:56

11 Smámynd: Theódór Norðkvist

Þegar verið var að rannsaka mál lyfjasölufyrirtækis sem var í skoðun vegna grunsemda um að selja ólöglega stera ráku rannsóknarmenn augun í nafnið Evan Fields á skrá yfir viðskiptavini (orðrétt sjúklinga.) Þeir hringdu í númerið sem gefið var upp. Evander Holyfield svaraði.

Þetta var snemma árs 2007. Kemur fram á Wikipedia, sjá hér.

Er ekki sérstaklega að biðja um svar, langaði bara að láta þig vita af þessu. Bestu kveðjur.

Theódór Norðkvist, 16.3.2010 kl. 14:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband