16.3.2010 | 14:24
Hvað um blandaða lausn?
Ég hef lengi verið veikur fyrir blandaðri lausn í kjördæmamálinu eilífa auk þess sem ég er fylgjandi persónukjöri í Alþingiskosningum.
Hún felst í því að landið verði eitt kjördæmi og að tryggt sé jafnt vægi atkvæða flokkanna, þar með talin atkvæði sem þeir fá í gegnum frambjóðendur sína í sex einmenningskjördæmum.
Einmenningskjördæmin verði:
1. Höfuðborgarsvæðið, frá Mosfellsbæ til Hafnarfjarðar.
2. Vesturland og Vestfirðir að undanskilinni Strandasýslu.
3. Norðurland (Strandasýsla meðtalin).
4. Austurland.
5. Suðurland.
6. Suðurnes.
Einmenningskjördæmin yrðu ekki jafn fjölmenn en vegna þess að aðeins 10% þingmanna kemur úr þeim ætti það ekki að koma að sök.
Einmennningskjördæmin gefa möguleika fyrir frambærilega einstaklinga til að bjóða sig fram án þess að vera á vegum flokkanna.
Þröskuldur í atkvæðavægi yrði afnuminn enda sýnir reynslan af síðustu kosningum til dæmis, að hann kemur ekki í veg fyrir að þingflokkar klofni allt niður í einn mann.
Og því síður hefur það komið í veg fyrir að flokkar hafi klofnað í raun í einstökum málum eins og í Iceseve málinu.
![]() |
Vilja að landið verði eitt kjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
16.3.2010 | 13:45
Óraunsæ stjórnvöld.
Ekki skal ég verða til að verja hernað Rússa á hendur Georgíumönnum á sínum tíma. Þar beittu Rússar hörku í stíl hinna gömlu sovétleiðtoga og keisaranna á undan þeim.
En ráðamenn í Georgíu sýndu ábyrgðarleysi og dómgreindarskort í aðdraganda þessarar innrásar þegar þeir ofmátu stöðu sína og héldu að þeir gætu jafnvel reitt sig á beinan hernaðarstuðning Bandaríkjamanna vegna deilnanna við Rússa og hugsanlegs stríðs við þá.
Nú sýna þeir enn og aftur ábyrgðarleysi og dómgreindarskort með því að standa á bak við og jafnvel mæla bót gabbfrétt um innrás Rússa.
![]() |
Vestrænir sendimenn gagnrýna gabbfrétt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.3.2010 | 13:38
Hægt að gera þetta með þyrlum?
Sífellt koma upp raddir um það að Reykjavíkurflugvallar sé ekki þörf því að hægt sé að nota þyrlur til sjúkraflutninga utan af landi.
Þegar menn tala um að þyrlur geti annast þetta er horft fram hjá nokkrum grundvallaratriðum.
1. Rekstur þyrlu er 4-5 sinnum dýrari en flugvélar af sömu stærð.
2. Viðhaldstími þyrlna er er miklu lengri og þær því úr leik miklu lengur sem því nemur.
3. Flugvélar eru mun hraðfleygari en þyrlur og geta flogið í ísingu eða ofan skýja af því að þær hafa jafnþrýstibúnað. Í sumum tilfellum er ekki hægt að koma þyrlum við vegna þessa.
Þegar þetta þrennt er lagt saman kemur í ljós að miklu fleiri þyrlur þarf til að inna sama verkefni af hendi en flugvélar.
Í sumum tilfellum eru þyrlur hentugri vegna lendingargetu þeirra og þess vegna er sjálfsagt að nota þær þegar sú geta ræður úrslitum.
Það er einfaldlega hvorki hægt að vera án þyrlna né flugvéla við sjúkraflutninga eins og dæmið um 13 sjúkraflug á flugvélum á aðeins einni viku sýnir.
Hægt er að nefna fjölmörg dæmi um mismunandi atvik og aðstæður en ég læt eitt nægja.
Þegar rúta fór út af brúnni á Hólsselskíl á Fjöllum fyrir áratug, var ekki hægt að koma við þyrlu sem flygi frá Reykjavík. Mér tókst hins vegar á grundvelli reynslu og gamals refskapar gagnvart veðurskilyrðum að fljúga norður á eins hreyfils vél.
Twin Otter vél fór frá Akureyri og lenti á stuttri braut við Grímsstaði á Fjöllum og flutti slasað fólk til Akureyrar.
Síðan eru önnur tilvik þar sem þyrlurnar ráða úrslitum og ég hef áður bloggað um það að við séum á leið afturábak í þeim málum um 30 ár með því að fækka þyrlunum um of.
![]() |
13 sjúkraflug á einni viku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
16.3.2010 | 13:20
Eru "hálaunin" til skammar?
Hversu lengi hefur hann ekki verið sunginn, söngurinn um öll hin vel borguðu störf sem byðust í álverum landsins?
Hve lengi hefur ekki verið sungið um dýrð þess að selja orkuna til "orkufreks iðnaðar" og fólki talið trú um að orðið "orkufrekur iðnaður" sé það jákvæðasta sem finnst.
Það er til marks um mátt áróðursins að hægt hafi verið að gera þetta heiti jákvætt því að orðanna hljóðan segir allt annað, sem sé það að þetta er mesta orkubruðl sem mögulegt er.
Þar á ofan eru störfin, sem sköpuð eru, hin dýrustu í heimi.
Nú kemur í ljós að dýrustu störf í heimi eru "til skammar" í álverinu á Grundartanga og þegar litið er á stórfelldan gróða álversins liggur tvennt á borðinu: Þessi gríðarlegi gróði, sem fer allur úr landi, er fenginn með því að hafa launin skammarlega lág og orkuverðið sömuleiðis.
Svo lágt er orkuverðið að Landsvirkjun er sífellt rekin með tapi og skuldar 350 milljarða króna. Ekki er afkoma OR beysin heldur.
Og til þess að álfurstarnir hafi allt sitt á hreinu er verkfallsrétturinn tekinn af starfsmönnunum sem vita að álver verða að vera gangandi dag og nótt.
Samningsstaða starfsmanna álversins á Grundartanga er í raun engin.
Eigendur álversins eru búnir að búa þannig um hnúta að þeir skófli á öruggan hátt milljarðatuga gróða úr landi á meðan starfsmennirnir eru samkvæmt eigin lýsingu í hlutverki hundsins, sem tekur við því, sem að honum er rétt, og bítur ekki í höndina sem fæðir hann, þótt fóðrið sé svo lélegt að það sé "til skammar."
![]() |
Vilja af skammarlega lágum launum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.3.2010 | 00:22
Tvískinnungur í dýravernd.
Ýmis konar tvískinnungur hefur verið á kreiki varðandi dýravernd hér á landi. Fyrir um þrjátíu árum kom það upp að Íslendingum byðist að selja úsundir fjár til Arabalands, þar sem féð yrði aflífað með þess lands aðferð, sem er hin forna íslenska aðferð, stunga inn um hnakkagrófina.
Mikið ramakvein var rekið upp hér á landi vegna þess hve ómannúðleg þessi aðferð væri og varð ekkert úr þessari sölu af þeim sökum.
Ég leitaði þá sem fréttamaður að svörum hjá dýralæknum en enginn vildi láta hafa neitt eftir sér þótt mér skildist helst að þessi aðferð væri ekkert verri en að skjóta dýrin.
Jón Eiríksson, sem þá var dýralæknir á Egilsstöðum svaraði mjög skemmtilega: "Ég er ekki í neinni aðstöðu tl að dæma um þetta því að ég hef hvorki verið kind sem hefur verið slátrað í Arabíu eða á Íslandi."
Hins vegar liggur fyrir að geldiing geti verið sársaukafull aðgerð og því hefði mátt ætla að hér risi meiri andspyrna gegn misjafnlega vel heppnuðum geldingum en reis gegn hinni arabísku og forníslensku aflífun fjár á sínum tíma.
![]() |
Ekki má gelda með hrúta- eða kálfatöngum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)