19.3.2010 | 21:53
Það var lagið, Hera!
Ég hef verið í hópi þeirra sem hef haft áhyggjur af því hin frábæra söngkona Hera Björk Þórhallsdóttir hefði ekki erindi sem erfiði í komandi Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.
Synd væri ef svo færi, því þetta er afbragðs söngkona.
En í kvöld sýndi hún í þættinum hjá Loga Bergmanni hvað hægt er að gera úr efniviði, sem vekur efasemdir í upphaflegum búningi.
Með því að færa lagið yfir í það sem hún nefndi "arineldsútgáfu" hefur hún kveikt hjá mér nýja von.
Þetta var næstum því eins og að heyra alveg nýtt lag.
Í þessari útfærslu njóta lagið og ótvíræðir sönghæfileikar Heru sín miklu betur en fyrr og ég vona bara að hún fari ekki að breyta útfærslunni mikið úr þessu heldur haldi sig við það sem stundum hefur kallað "less is more" eða "KISS, - keep it simple, stupid!"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.3.2010 | 13:42
Friðsamleg valdbeiting.
Ísraelsmenn hafa hersetið stór svæði í Palestínu í 43 ár með valdi þvert ofan í alþjóðalög og samþykktir Sameinuðu þjóðanna. Þeir byggja upp gyðingabyggðir á þessu landi með valdi og sýna hver það er, sem ræður, með því að tilkynna nýjustu valdbeitinguna beint upp í opið geðið á varforseta Bandaríkjanna þegar hann er þar í heimsókn.
Gagnrýni á þetta svarar íslraelski utanríkisráðherrann með því að í gagnrýninni sé verið að beita valdi og valdbeiting sé af hinu illa !
Við höfum átt dæmi í sögunni um menn sem hafa allan þann tíma sem þeir hafa beitt valdi sínu, fordæmt valdbeitingu og sagst vera að berjast fyrir friði.
Hér í gamla daga var sagt að þetta héti að snúa Faðirvorinu upp á andskotann.
Helförin fyrir 65 árum er fyrir löng hætt að réttlæta allt það sem Ísraelsmenn gera og segja. Það er afar dapurlegt fyrir svo mikilhæfa þjóð með merka sögu.
![]() |
Ísraelsmenn gagnrýna kvartettinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.3.2010 | 13:11
Aðdáandi Páls og kríunnar fer í bíó í dag.
Ég fer ekki oft í bíó en ætla að gera það í dag til að sjá heimildarmynd Páls Steingrímssonar um kríuna sem verður frumsýnd í Háskólabíói klukkan 17:00.
Ástæðan er tvöföld: Ég er frá barnæsku mikill aðdáandi kríunnar og hina síðari áratug, allt frá því í árdaga Sjónvarpsins, aðdáandi Páls Steingrímssonar og konu hans, Rúríjar, sem eru í fremstu röð baráttufólks fyrir því að við Íslendingar kynnumst mestu verðmætunum, sem við eigum, hinni einstæðu náttúru landsins.
Um kríuna þarf ekki að fjölyrða, þennan langfleygasta fugl veraldar, sem hefur valið sér sitthvorn enda hnattarins til búsetu.
Flugfimi hennar er viðbrugðið og ég set hana í flokk með súlunni og erninum, sem getur veitt lax úr vatni án þess að blotna neitt nema á klónum.
Varla er hægt að hugsa sér fugl sem búinn er bestu eiginleikum sanns Íslendings, annars vegar tryggð við heimkynni sín á hjara veraldar, og hins vegar þeirri heimshyggju sem felst í því að vera víðförlasta lifandi vera á jörðinni.
Páll er líka langfleygur að því leyti að viðfangsefni hans hafa spannað allar heimsálfur, allt frá nyrsta hjara til Suður-Íshafsins og ekkert lát er að finna á krafti og hugarafli þessa magnaða manns sem verður áttræður í sumar og hefur aldrei verið sprækari.
Hugsjónaeldiinn kyndir hann ákaft og hefur aldrei spurt um það hvort þjóðþrifaverk hans boðið upp á ávísun á fjárhagslegan ágóða.
Þannig er mér til dæmis vel kunnugt um það að myndin sem hann gerði í samvinnu við Magnús Magnússon, "Öræfakyrrð", var gerð með tapi.
Þessi mynd og ástaróður hennar til Íslands, varð svanasöngur Magnúsar og mun, þótt síðar verði, halda nafni hans á lofti ekki síður en hans miklu afrek í bresku sjónvarpi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2010 | 10:06
Gullfiskaminnið og Ragnar Reykás bregðast ekki!
Gullfiskaminni landsmanna bregst ekki. Aðeins einu ári og fimm mánuðum eftir að flokkarnir sem lögðu dag við nótt í tólf ár við að leggja grunninn að hruninu, hrökkluðust frá völdum, eru þeir komnir með meira fylgi en þeir höfðu í lok hins "farsæla" samstarfs síns.
Krafa þjóðarinnar sýnist vera ljós: Við viljum gömlu, góðu stóriðju- og einkavinavæðingarflokkana aftur!
Ekki þá, sem spruttu upp úr Búsáhaldabyltingunni og tókst að sundra sér á margfalt styttri tíma en nokkru öðru nýju stjórnmálaafli.
Ekki vinstri flokka sem eru á móti atvinnuuppbyggingu!
Nei, nýtt "gróðæri"! Nýjan Davíð! Nýjan Halldór! Nýtt fóstbræðralag manna sem kunna að stýra þjóðfélagi okkar á ný upp í hæstu hæðir!
Menn, sem hafa þor og kjark til að losa okkur við AGS og geta bægt frá okkur norrænum óvinaþjóðum!
Menn sem hafa dug til að sækja þessar hundruð milljarða sem vantar beint í ríkissjóð, sem þar að auki verði notaður til að greiða þeim, sem fóru fremstir í flokki með að stofna til milljarða skulda, minnst 20% af þeim skuldum.
Ríkissjóði verði gert kleift að standa undir slíku með því að draga saman ríkisútgjöld eins og þarf! Upp með gamla slagorðið" Báknið burt!
Gleymt verður að "báknið", ríkisútgjöldin, uxu aldrei hraðar í sögu þjóðarinnar en þegar þessi flokkar voru á hátindi valda sinna.
Hér um árið var vinsæll söngur nokkur sem var með þessari hendingu: Þú ert sjálfur Guðjón inn við beinið.
Ég skil svo sem vel margan Íslending, sem er greinilega óánægður með það hvað það er leiðinlegt og gengur illa að standa í slökkvistarfi eftir stærsta fjármunastórbruna Íslandssögunnar.
Vil tileinka honum þetta vísukorn:
Minni gullfiskanna seint um síðir /
sýnist ráða öllu, það er meinið. /
Viðurkenndu nú að þetta þýðir
að þú ert Ragnar Reykás inn við beinið. /
![]() |
Sjálfstæðisflokkurinn með 40,3% fylgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)