Hið vikulega stóriðjuhróp.

Ég hef ekki tíma til að kanna það en ég giska á að undanfarið ár hafi verið tekið vikulega sama viðtalið við Vilhjálm Egilsson eða annan talsmann atvinnurekenda sem hrópar: Án meiri stóriðju erum við glötuð!

Alltaf þykir þetta vera sama stórfréttin og næsta víst að varla muni líða vika þar til Vilhjálmur Egilsson flytji okkur í 50. skiptið þá stórfrétt að stóriðja sé það eina sem geti bjargað þjóðinni.

Talsmaður iðnaðarins segir í viðtali í dag að 35 þúsund ný störf þurfi á næstu tíu árum og stóriðja sé forsenda fyrir að skapa þessi störf. 

Nú vill svo til að verði öll orka Íslands beisluð fyrir stóriðju munu aðeins 1,3% vinnuafls landsins fá vinnu í hinum nýju álverum. Það eru um 2500 störf af þessum 35000.

Jafnvel þótt því sé haldið fram að svonefnd afleidd störf yrðu 6-7000 fer því fjarri að þetta leysi atvinnuvanda Íslendinga. 

Og fórnirnar sem felast í því að eyðileggja mesta verðmæti landsins, sem felst í náttúruundrum þess, yrðu margfalt dýrkeyptari til allrar framtíðar. 

Afleiddu störfin eru alltaf nefnd eins og aðeins stóriðja taki þau með sér. 

En þetta á við um allar atvinnugreinar og ef talsmenn þeirra allra nefna þessa tölu verður útkoman sú að afleiddu störfin verða samtals tvöfalt fleiri en búa á landinu! 

Það er hægt að margfalda störf í ferðaþjónustu eða öðrum atvinnugreinum og fá út margfalt hærri tölu en fæst með ítrasta marföldunarreikningi stóriðjutrúarmanna. 

Það blasir við að af þessum 35.00 störfum, sem áltrúarmaðurinn nefnir falla 32.500 undir skilgreininguna "eitthvað annað" sem þessir stóriðjuhrópendur mega ekki heyra nefnd.

Og jafnvel þótt samþykkt yrði að afleidd störf eigi að telja með störfunum í álverunum falla minnst 25.000 störf undir "eitthvað annað."  

Áltrúarmenn dreymir um að á næstu tíu árum verði hægt að útvega þúsundum manna vinnu við virkjanaframkvæmdir. 

En hvað gerist þegar ekki verður hægt að virkja meira? 

Þá verður allt þetta fólk atvinnulaust og það ástand skapast sem einn af helstu ráðamönnum Íslands lýsti með þessari frábæru setningu fyrir rúmum áratug: "Það verður bara verkefni þeirrar kynslóðar sem þá verður uppi." 

P.S. ... Ekki var liðinn nema hálfur sólarhringur frá því að ég bloggaði á þá leið að það væri næsta víst að varla myndi líða vika þar til Vilhjálmur Egilsson flytti okkur stórfréttina um stóriðjuna að þetta stóriðjuhróp er haft eftir honum í fréttum !


Þegar Rússar tóku myndirnar mínar 1978.

Líklega er enn við lýði gömul Sovét-hefð á því svæði sem tilheyrði Sovétríkjunum sálugu, samanber sögu Páls Stefánssonar, því að síðsumars 1978 voru ljósmyndir sem ég hafði tekið í ökuferð bílablaðamanna frá Norður-Finnlandi til Murmansk gerðar upptækar þegar við fórum til baka yfir landamærin á Kolaskaga. 

Landamæraverðirnir voru sjúklega tortryggnir. Við töfðumst í margar klukkstundur við nákvæma skoðun á öllu í bæði skiptin sem við fórum yfir landamærin þar sem bílarnir voru settir upp á lyftur og skoðaðir af ótrúlegri smámunasemi, meira að segja boruð göt á bita og hvaðeina. 

Á leiðinni til baka lentum við hjónin, Helga og ég, í alveg sérstakri meðferð. Mest kom okkur á óvart þegar Helga var tekin fyrir og henni sagt að hún hefði verið með hring á fingri á austurleið sem ekki væri á fingri hennar nú!

Hún varð að sanna sitt mál, sem var það að vegna þess að fingurinn hafði bólgnað gat hún ekki sett hringinn á hann, og róta í föggum sínum til að finna hringinn, sem ekki komst upp á fingurinn eins og hún hafði sagt þeim. Létu þeir þá sér loks segjast. 

Verr fór fyrir mér. Þeir rótuðu í öllum mínum föggum af mikilli smámunasemi og tóku af mér allar filmur og myndir sem ég hafði tekið í ferðinni þrátt fyrir hávær mótmæli mín og norrænna kollega minna. 

Skipti engu þótt ég sýndi fram á að við værum í reynsluakstri fyrir norræn bílablöð og að ég yrði að koma heim með einhverjar myndir af bílnum, sem við vorum að reynsluaka.

Við höfðum orðið vör við það að rússneskar KGB-Lödur fylgdu okkur hvert fótmál í Murmansk og að hugsanlega hefði ég tekið mynd af einhverju sem ekki mátti mynda.  

Ég fór því mynda- og filmulaus heim til Íslands en þar setti ritstjórn Vísis þetta mál strax í fréttir og kvartaði við sovéska sendiráðið.

Virtist málinu nú vera lokið því ekkert svar barst lengi vel og mér sýndist einsýnt að filmunum hefði verið fargað þarna einhvers staðar inni á þeim risastóra ruslahaug sem maður hafði heyrt að Kolaskaginn væri í raun.

En þá gerðist það óvænta. Mörgum vikum eftir þetta atvik kom sending frá Murmansk til Íslands og voru ekki allar filmurnar framkallaðar og fínar komnar alla leið frá hinni afskekktu landamærastöð Raja-Joseppi norðan úr rassgati stærsta lands veraldar !  

Segið þið svo að sovétkerfið hafi aldrei virkað!  


mbl.is Handtekinn tvisvar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. mars 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband