Þegar Rússar tóku myndirnar mínar 1978.

Líklega er enn við lýði gömul Sovét-hefð á því svæði sem tilheyrði Sovétríkjunum sálugu, samanber sögu Páls Stefánssonar, því að síðsumars 1978 voru ljósmyndir sem ég hafði tekið í ökuferð bílablaðamanna frá Norður-Finnlandi til Murmansk gerðar upptækar þegar við fórum til baka yfir landamærin á Kolaskaga. 

Landamæraverðirnir voru sjúklega tortryggnir. Við töfðumst í margar klukkstundur við nákvæma skoðun á öllu í bæði skiptin sem við fórum yfir landamærin þar sem bílarnir voru settir upp á lyftur og skoðaðir af ótrúlegri smámunasemi, meira að segja boruð göt á bita og hvaðeina. 

Á leiðinni til baka lentum við hjónin, Helga og ég, í alveg sérstakri meðferð. Mest kom okkur á óvart þegar Helga var tekin fyrir og henni sagt að hún hefði verið með hring á fingri á austurleið sem ekki væri á fingri hennar nú!

Hún varð að sanna sitt mál, sem var það að vegna þess að fingurinn hafði bólgnað gat hún ekki sett hringinn á hann, og róta í föggum sínum til að finna hringinn, sem ekki komst upp á fingurinn eins og hún hafði sagt þeim. Létu þeir þá sér loks segjast. 

Verr fór fyrir mér. Þeir rótuðu í öllum mínum föggum af mikilli smámunasemi og tóku af mér allar filmur og myndir sem ég hafði tekið í ferðinni þrátt fyrir hávær mótmæli mín og norrænna kollega minna. 

Skipti engu þótt ég sýndi fram á að við værum í reynsluakstri fyrir norræn bílablöð og að ég yrði að koma heim með einhverjar myndir af bílnum, sem við vorum að reynsluaka.

Við höfðum orðið vör við það að rússneskar KGB-Lödur fylgdu okkur hvert fótmál í Murmansk og að hugsanlega hefði ég tekið mynd af einhverju sem ekki mátti mynda.  

Ég fór því mynda- og filmulaus heim til Íslands en þar setti ritstjórn Vísis þetta mál strax í fréttir og kvartaði við sovéska sendiráðið.

Virtist málinu nú vera lokið því ekkert svar barst lengi vel og mér sýndist einsýnt að filmunum hefði verið fargað þarna einhvers staðar inni á þeim risastóra ruslahaug sem maður hafði heyrt að Kolaskaginn væri í raun.

En þá gerðist það óvænta. Mörgum vikum eftir þetta atvik kom sending frá Murmansk til Íslands og voru ekki allar filmurnar framkallaðar og fínar komnar alla leið frá hinni afskekktu landamærastöð Raja-Joseppi norðan úr rassgati stærsta lands veraldar !  

Segið þið svo að sovétkerfið hafi aldrei virkað!  


mbl.is Handtekinn tvisvar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Emilsson

Blessaaður Ómar. Endilega lofaðu okkur að sjá þessar myndir. Eg var í Murmansk nokkrum sinnum á árum áður, en tókst aldrei að ná neinum myndum þaðan.

Björn Emilsson, 4.3.2010 kl. 15:05

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það fór ver fyrir mér og Gussa vini mínum (bróður Óskars, tengdasonar þíns) þegar hann álpaðist til að taka myndir út um lestarglugga á landamærastöð A-Þýskalnds, á leið í vestrið. Ekkert var að sjá út um gluggann annað en múrveggi og gaddavír.

Vopnaður vörður kom askvaðandi inn í lestina og skipaði okkur að koma með sér út og inn á kontór hjá foringja sínum, sem var eins og SS-maður úr Seinni heimstyrjöldinni. Hann tók af okkur myndavélarnar og dró filmurnar út í dagsljósið og henti þeim svo í ruslafötuna.

Þar glötuðust margar myndir frá ferð okkar í Svíþjóð... og ein mynd af gaddavír.

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.3.2010 kl. 16:00

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Núna á þetta hins vegar við Bandaríkin en ekki Rússland.

Þorsteinn Briem, 4.3.2010 kl. 19:20

4 identicon

jájá þetta er velþekkt hjá öllum sem vilja plögga stöffið sitt. Palli góður þarna. Einhverjir tittir að stríða honum aðeins og hann blæs þetta út og mjólkar kusu. Engin ástæða til að sleppa tækifærinu.

Leikhúsin alveg elska að plögga sýningar í gegnum óhöpp á æfingu.

Leikari dettur og puttabrýtur sig eða hruflar á sér rófubeinið: Strax hringt í blöðin með von um að fá auglýsingafrétt. Og svo eru tekin komment eftir viðkomandi leikara þar sem hann "ber sig vel en viðurkennir þó að hlutverkið sé ögn krefjandi og reyni á.. blabla". Frumsýning þennan daginn eða hinn.

hehe..

Steini. (IP-tala skráð) 4.3.2010 kl. 19:35

5 Smámynd: Valgeir

Ég hér með panta eitt stykki ævisögu og eitt stykki 1001 skemmtisögu takk.  Helst vill ég fá þetta strax, enda orðinn ansi heitur fyrir fleirri sögum eftir að hafa hlustað á þig fara yfir ferilin undanfarin mánudagskvöld.

Það væri góð eftirfylgni á þeim þætti að skella allavega út skemmtisögunum eins fljótt og auðið er og koma svo með 6 binda ævisögu...

með kærri þökk fyrir afþreyinguna í gegnum tíðina.

Valgeir , 5.3.2010 kl. 12:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband