11.4.2010 | 20:03
"Fyrir og eftir skýrslu"?
Örfáir atburðir í sögu landsins verða að viðmiði gagnvart því hvenær aðrir viðburðir gerast.
Nokkur dæmi:
Fyrir og eftir landnám. 874. Fyrir og eftir kristnitöku. 1000. Fyrir og eftir siðaskipti. 1550.
Fyrir og eftir eld (Skaftárelda) 1783. Fyrir og eftir heimastjórn. 1904.
Fyrir og eftir fyrra stríð. 1914 - 1918. Fyrir og eftir stríð. 1940 - 1944.
Fyrir og eftir gos. (Heimaeyjargos) 1973. Fyrir og eftir hrun. 2008.
Fyrir og eftir skýrslu? 2010?
Ég er ekki viss um að morgundagurinn muni marka svipuð tímamót og þeir eldri atburðir sem tilgreindir.
Í okkar litla þjóðfélagi þar sem allir tengjast öllum held ég því miður að lítil líkindi séu til þess að allt það komi fram sem mestu máli skiptir.
Mér sýnist líka á viðbrögðum margra að hugsanlega verði niðurstaðan sú að þeir, sem mestu réðu um þá atburðarás áranna 2002 til 2008, muni sleppa billega og minni spámenn verða negldir í staðinn.
En vonandi kemur sem mest af sannleikanum í ljós í þessari skýrslu og kannski til lítils að giska á hvað það verður.
![]() |
Mikil eftirvænting eftir skýrslunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.4.2010 | 16:36
Að standa í biðröð.
Í kvikmyndinni um "Öskubuskumanninn", hnefaleikarann sem þurfti á tímabili að standa í biðröð í kreppunni miklu til þess að snapa vinnu við höfnina og leita á náðir fátækrahjálpar, kemur vel fram það andrúmsloft skammar, sneypu og niðurlægingar sem slíku fylgir.
Niðurlægingin varð enn meiri við það að vera hafnað hvað eftir annað á meðan aðrir voru heppnari.
James J. Braddock handarbrotnaði í atvinnugrein sinni og gaf sér ekki nægan tíma til að láta brotið gróa vegna fátæktar. Fjölskyldan svalt nema hann færi sem fyrst inn í hringinn á ný og tæki áhættuna að brjóta ekki höndina á ný. Þess vegna lenti hann í vítahring og braut höndina aftur og aftur.
Síðar snerist gæfan með honum á einstæðan hátt og hann varð dáður heimsmeistari í þungavigt.
Handarbrotið hafði að lokum orðið honum til góðs, því að hann neyddist til að nota hina hendina, sem hafði verið veikari í hringnum, og þjálfa hana upp í vinnunni á meðan hin var brotin, - vinna í raun einhentur hið sama og aðrir notuð báðar hendur til.
Þegar hann síðan kom í hringinn vegna tómrar heppni gegn þekktum boxara og enginn hafði trú á því að hann gæti neitt, kom hann hinum öfluga andstæðingi í opna skjöldu með hinu nýja leynivopni sínu.
Sú var tíðin á kreppuárunum á íslandi að svona biðraðir voru við helstu vinnustaði verkamanna í Reykjavík, svo sem "á eyrinni", - við Reykjavíkurhöfn.
Þetta var enn svona á árunum 1954 og 55 þegar ég vann við höfnina í fríum, aðeins 14-15 ára gamall.
Ég fór í biðröð og beið eftir því að Jón Rögnvaldsson yfirverkstjóri veldi þá úr sem fengju vinnu þann daginn.
Ég fór nokkrum sinnum erindisleysu en síðan kom að því að fyrsta tækifærið gafst þegar óvenju marga þurfti í vinnu dagsins. Það nýtti maður vel og hreinlega djöflaðist til þess að sanna að maður ætti erindi í þessa erfiðisvinnu og væri fullgildur verkamaður.
Ég var það ungur að ég áttaði mig ekki á því hve rangt ég gerði mörgum þeirra til, sem stóðu í biðröðinni með mér og fengu ekki vinnu á sama tíma og ég var valinn.
Kannski lögðu sumir þeirra ekki eins hart að sér og ég til að sanna sig fyrir verkstjórunum, en kannski gátu þeir það ekki.
Þegar ég síðar rifjaði þetta upp í minningunni minntist ég og minnist enn svips sumra þessara manna, svips djúprar þjáningar þegar urðu hvað eftir annað að upplifa opinbera höfnun í því litla samfélagi sem Reykjavík var.
Það er vont að slíkir tímar séu komnir aftur. Er engin leið að komast hjá því að þetta sé svona?
![]() |
Fjallað um íslenska fátækt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)