Bráðnunin virðist fara minnkandi.

Í gærkvöldi gafst mjög gott tækifæri til að skoða eldstöðina í skálinni á tindi Eyjafjallajökuls. Þegar gosið datt nær alveg niður eins og sést á myndum í bloggpistli á undan þessum,  virtist eldstöðin hafa einangrað sig talsvert frá ísnum í skálinni, sem er þakinn ösku. p1011394.jpg

Eftir sem áður koma gufustrókar upp sem eru væntanlega bráðinn ís en þess í milli brjótast kolsvartir öskustrókar upp í gegnum gufuna. 

Í gærkvöldi tókst að ná kvikmyndum af mekkinum við mjög góð skilyrði, þar sem hann er þrílitur eins og fáni, hvítur, svartur og brúnn. 

Því miður hafði kvikmyndatakan forgang svo að fáar ljósmyndir fengu að verða til, en kannski eiga þessar kvikmyndir eftir að sjást á skjánum í kvöld. 


mbl.is 10-15% af ísnum hefur bráðnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemur á óheppilegum tíma.

Ummæli norska flugmannsins um móðursýkiskast í formi flugbanns hlýtur að falla í grýttan jarðveg hjá finnsku herflugmönnunum sem eyðilögðu hreyfla þotnanna, sem þeir flugu í meira en tvö þúsund kílómetra fjarlægð frá eldgosinu í Eyjafjallajökli. 

DSCF5796

Að því leyti til valdi hann frekar óheppilegan tíma til að leggja til að ekkert flugbann væri í gildi.  

Tvær farþegaþotur, sem myndu lenda í svipuðu og finnsku orrustuþoturnar, væri tveimur farþegaþotum of mikið, jafnvel þótt þær gætu lent heilu og höldnu líkt og þotan, sem minnstu munaði að yrði að nauðlenda á sjó árið 1982 vegna hreyflastöðvunar af völdum örfínnar eldfjallaösku, sem ekki sést á ratsjá.  

Raunar þurfa vélfræðingar, jarðfræðingar og veðurfræðingar nú að fara í saumana á þessum málum alveg frá grunni, því að Kötlugos, eða ég tala ekki um, annað Lakagígagos, og afleiðingar þeirra, eru stórmál sem geta komið mönnum alveg í opna skjöldu.  


mbl.is Segir flugbannið vera móðursýki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stærsti íslenski heimsviðburðurinn?

Það er eitt lítið dæmi um það hver röskun hefur orðið af gosinu í Eyjafjallajökli að nú er ég að rjúfa lengsta blogghléð mitt. Er skemmst frá því að segja, að síðan þetta gos hófst hefur það ráðskast með mig bæði dag og nótt, og bera myndirnar hér á síðunni þess nokkur merki. dscf5779.jpg

Efsta myndin hér á síðunnni er reyndar tekin á sjöunda tímanum síðdegis í fyrradag en þá birti fyrst upp yfir Eyjafjöllum og gosinu og sást hvernig hið ógnvekjandi gos vofir yfir sveitinni neðst, þar sem bær kúrir undir fjalli og fólk býr sig undir að vindátt breytist og margra kílómetra hár öskuveggurinn hvolfist yfir sveitina og breyti túnunum, sem eru að byrja að fá á sig grænan blæ vorgróandans, í öskugráa eyðimörk. 

 

dscf5786.jpg

Á þeirri næstu sést yfir Mýrdalsjökul og Kötlu í átt ti "litla bróður" Eyjafjallajökuls í fjarski með mökk sinn upp í loftið, hugsanlega upphaf á enn frekari röskun flugsamgangna en orðin er. dscf5795.jpg

Í kvöld datt gosið niður um stund og þá sást vell yfir gíginn, sem gýs í suðvestanverðri gígskálinni. 

Á tveimur myndum neðan við sést þetta nánar, - á þeirri neðri er horft inn í götin, sem komin eru í Gígjökul við það að flóð hafa þrýst sér niður undir honum. 

Þetta fyrirbæri hefur sést efst í hlauprás Grímsvatnahlaupa. 

Síðastliðna nótt gafst aðeins hlé í fjórar stundir því að í morgun varð að fara upp upp úr þrjú til að undirbúa ferð á gosstöðvarnar til aðstoðar við erlenda sjónvarpsmenn, bæði breska og þýska. 

Í dagrenningu blasti jökullinn og mökkur hans vel við. 

Og ekki mátti gleyma RUV,  -  einu sinni "RÚVari" alltaf RÚVari, ekki satt?  dscf5792.jpg

Varla hefur annar viðburður hér á landi haft meiri afleiðingar og áhrif erlendis en þetta gos, enda fjallar hver sá fjölmiðill sem standa vill undir nafni um það og sendir hingað fulltrúa sína.

Röskun á flugi er þegar orðin meiri um allan heim en varð vegna árásarinnar á Bandaríkin 2001. 

Hefur verið alveg einstaklega gaman að vinna með þessu fólki, sem margt hvert er í fremstu röð. 

Varla hefur svona mikið verið viðhaft síðan leiðtogafundurinn var haldinn í Höfða. 

Nú er bara að reyna að skjóta á ská inn ýmislegu á bloggið úr því sem verið hefur að gerast í þessari miklu törn.  p1011390.jpg

Set hér neðst myndir af jöklinum og Markarfljótsaurum á mismunandi tímum dags. 

Þar sést einnig hvað gosvirknin er mismunandi mikil.  p1011398.jpgp1011392.jpg


mbl.is Margar eldingar í stróknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband