26.4.2010 | 23:46
Mörgum að verða mál.
Hugsanlega verða allt að tuttugu eldgos á fyrstu sextíu árum þessarar aldar eða fimmfalt fleiri en fyrstu 60 ár síðustu aldar.
Frá því sumarið 2007 hefur kvika verið að færast neðan af 17 kílómetra dýpi við Upptyppinga upp í tveggja kílómetra dýpi milli brúarinnar á Kreppu og Herðubreiðar.
Ef þarna kemur upp kvika myndi verða einna skást að fá hana upp í gegnum Álftadalsdyngju fyrir austan Kreppubrú.
Álftadalsdyngja er hægra megin á þessari mynd, en Upptyppingar rétt vinstra megin við Herðubreið, sem er fjærst. Áin Kreppa er framundan en Krepputunga er vinstra megin (vestan) við hana, á milli Kreppu og Jökulsár á Fjöllum. Fagridalur er næst okkur hægra megin. Hægt er að stækka myndina með því að smella tvisvar á hana.
Álftadalsdyngja er mjög víðáttumikil og nokkurra ára rólegt dyngjugos þar yrði "ákaflega túristavænt", myndi sjást víða að og ekki skemma hið stórkostlega landslag í Krepputungu suður af brúnni eða ógna Sönghofsdal nyrst í tungunni.
Það er kominn tími á Heklu og búast má við meiri umbrotum á svæðinu Grímsvötn-Gjálp á næstu árum en var lengi vel á 20. öld.
Allir vita um Kötlu. Vonandi verður frekari gosórói í Eyjafjallajökli á borð við gosin 1821 minni en verið hefur. Allt í lagi að þar komi upp smá hraungos eins og voru á Fimmvörðuhálsi.
Annars ráðum við engu um þetta frekar en fyrri daginn, - verðum að vera betur viðbúin hinu versta og vona það besta.
![]() |
Jörð skelfur við Kistufell |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 27.4.2010 kl. 00:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.4.2010 | 20:50
Óskýr fyrirsögn.
"Gígur í sigkatlinum stækkað."
Svona segir enginn og þess vegna held ég að ofangreind fyrirsögn dæmist vera bull.
Það má vera að vegna þess að það er einu stuttu orði lengra að segja "gígur í sigkatlinum hefur stækkað" geti einhverjum fundist það nauðsynlegt að sleppa orðinu hefur.
Hins vegar myndi enginn, sem spurður væri: "Hafa orðið breytingar í sigkatlinum?" svara því með því að segja: Gígur í sigkatlinum stækkað."
Þetta er ekki einu sinni mælt mál heldur eitthvert lítt skiljanlegt óþol blaðamannsins.
Ef hann hefði endilega talið það bráðnauðsynlegt að fyrirsögnin væri aðeins fjögur orð hefði hann getað haft fyrirsögnina svona: "Stækkandi gígur í sigkatlinum."
![]() |
Gígur í sigkatlinum stækkað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.4.2010 | 11:36
Minni truflun og meiri möguleikar á Íslandi.
Heyra má í fjölmiðlum dómsdagsspár um hrun ferðaþjónustunnar vegna hamfara í íslenskri náttúru. Útlendingar muni kjósa að fljúga til annarra landa en Íslands vegna þess hvernig íslenskt eldfjall leikur flugið.
Enn sem komið er hefur eldfjallið þó valdið miklu langvinnari og meiri röskun á flugi í öðrum Evrópulöndum en Íslandi. Millilandaflug okkar hefur til dæmis aldrei fallið með öllu niður.
Talað er um að bandarískar ferðaskrifstofur muni beina ferðamönnum þaðan til Suður-Evrópu næsta sumar.
Er þó vitað að Barcelona-liðið varð að ferðast 1000 kílómetra til þess að leika við Inter á Ítalíu og fór þangað meðfram suðurströnd Evrópu.
Við Íslendingar virðumst eiga erfitt með að komast út úr þeim förum að vilja ráða því eftir hverju útlendingar sækist hér á landi og selja Ísland sem land með "póstkortaveðri", logni, heiðríkju og steikjandi hita.
Á meðan lokka Írar hundruð þúsunda ferðamanna frá hinum heitu löndum Suður-Evrópu til þess að koma á vesturströnd Írlands og upplifa suðvestanrok og rigningu, sem hefur sviðið trjágróður á ströndinni svo mjög með saltrokinu, að trén eru lauflaus sjávarmegin.
Okkur Íslendingum virðist um megn að tileinka okkur það meginlögmál viðskipta að viðskiptavinurinn hafi alltaf rétt fyrir sér og að það eigi að sækjast eftir því að selja honum það sem hann vill kaupa frekar en það sem við viljum kaupa.
Sá markhópur í ferðamennsku, sem stækkar örast, er hópurinn sem sækist eftir upplifun, - hópurinn sem varð grundvöllurinn að veldi Lonely Planet,"raunveruleika"-sjónvarpsþátta og "survival-challenge" -upplifuninni.
Einstæð náttúra Íslands er og verður með mesta aðdráttaraflið, hvort sem hún fer hamförum eða ekki.
Við getum selt "The greatest show on earth". Um þá sýningu gildir, að í stað þess að vilja rjúka upp á sviðið og breyta hinu stórkostlega sjónarspii rétt eins og rokið sé upp á svið til að breyta sýningu á leikriti Shakespeares eða grískum harmleik, liggja möguleikarnir þvert á móti í því að snilldarsýning náttúrunnar verði notuð sem aðal aðdráttarafið.
Vettvangur Heimaeyjargoss, gosanna núna, Skaftárelda, Veiðivatnagosa, Grímsvatnagosa, Skeiðarárhlaupa, Öræfajökulsgossins 1262, Heklugosa og Kötlugosa og "Sköpunar jarðar, - ferða til mars" á Gjástykki-Leirhnjúkssvæðinu, - öll þessi svæði öðlast nýja möguleika sem aðdráttarafl eftir að Eyjafjallajökull hefur minnt á tilveru sína og þeirra.
Í stað þess að fara í baklás og harma að svona atburðir eigi sér stað skapa þeir þvert á móti ný sóknarfæri um allt land, sé rétt að málum staðið.
Okkur
![]() |
Keflavíkurflugvöllur opnaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)