Yndisleg frétt.

Fyrir 40 árum þegar ég var íþróttafréttamaður Sjónvarpsins kynntist ég þeim brautryðjendum í körfuknattleik í Stykkishólmi sem hafa þurft að bíða í öll þessi ár eftir því að stóri draumurinn rættist og sumir hafa ekki lifað þennan þráða dag.

Mikið óskaplega gleður það mig því að þessi draumur hafi nú verið uppfylltur jafn glæsilega og raun ber vitni. 

Þess utan er þetta þeim mun gleðilegra að körfuknattleikurinn skuli hafa náð jafn góðri fótfestu á landsbyggðinni og raun ber vitni.

Það er erfitt að finna skýringu á því en einhvern veginn virðist þessi íþrótt eiga vel við í dreifbýlinu og betur en flestar aðrar. 

Sigur Snæfells nú minnir á það þegar Skagamenn komu, sáu og sigruðu í vinsælustu boltaíþróttinni, knattspyrnunni fyrir sextíu árum með gullaldarliði sínu sem hrifu jafnvel Framarann mig svo mjög að úr varð textinn "Skagamenn skoruðu mörkin". 

Til hamingju, Hólmarar! 


mbl.is Titillinn í Stykkishólm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jafnrétti og traust.

Gagnkynhneigðu fólki er treyst til þess að ákveða sjálft, hvort það vill láta viðurkenna það opinberlega að lögum að það ætli lifa í sambúð sem lífsförunautar og uppalendur og öðlist við það ákveðna stöðu gagnvart hvort öðru og nánasta venslafólki og börnum.

Nú er það svo að samkynhneigt fólk getur líka borið þær tilfinningar hvert til annars að það sækist eftir sams konar viðurkenningu. 

Rétt eins og gagnkynhneigðum er treyst til þess að takast á hendur það samband sem nefnist hjúskapur ætti hið sama að gilda um samkynhneigða. 

Hjúskapur snýst um traust, traust til þess fóllks sem vill lifa í hjúskap með þeim skyldum og réttindum sem því fylgir. 

Sumir rísa ekki undir því trausti og aðrir endast ekki í sambandinu og það slitnar eins og gengur. 

Það er hins vegar hluti af jafnrétti þegnanna að þeim sé jafnt treyst til að fást við þessi mál sjálfir.  

Margir telja hjónaskilnaði allt of marga en ekki verður samkynhneigðum kennt um það og ætti það að vera eitt helsta verkefni trúfélaga og þeirra, sem láta sig siðbót varða, að vinna að því að betur takist til í þessu efni. 

Miðað við stærð og umfang þessa vandamáls er dálítið skondið að hjúskapur samkynhneigðra skuli valda jafn miklu fjaðrafoki og raun ber vitni.  


mbl.is Tóku ekki afstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að éta kökuna en eiga hana samt áfram.

Ofangreint máltæki virðist eiga einkar vel við okkur Íslendinga oft á tíðum.

Það nýjasta er að jafnframt því sem við höldum áfram að auglýsa Ísland sem eitt virkasta eldfjallaland heims þar sem landið er í sífelldri og stórfelldri sköpun eldvirkninnar svo að annað eins er ekki að finna á jarðríki, eigum við líka að koma í veg fyrir að það spyrjist út að hér gjósi eldfjöll.

Á sínum tíma þótti þorra Íslendinga það hin mesta óhæfa að nokkur skyldi efast um að hið glæsilega fjármálakerfi okkar væri neitt annað en pottþétt og maður getur svona rétt ímyndað sér hvað hefði gerst ef forsetinn hefði vogað sér að taka undir með þeim mönnum innlendum og erlendum, sem talir voru úrtölumenn og öfundarmenn sem þyrftu að fara í endurmenntun. 

Ég skil þá gagnrýni á framsetningu hans, sem hann hafði í fyrsta viðtalinu, en ekki gagnrýnina á það sem hann sagði í viðtalinu á bandarísku sjónvarpsstöðinni, þar sem hann eydd mestöllu viðtalinu í að benda á að eldgosið hefði haft meiri áhrif á ferðir erlendis en á Íslandi og að enginn vissi nú, fremur en endranær, hvenær hvert eldfjall um sig, Katla eða önnur, gysu. 

Ég sé á blogginu gagnrýni á það að vísindamenn skuli telja líklegt að næstu 60 árin verði allt að 20 eldgos á Íslandi og gagnrýni á það að sagt sé að Katla geti gosið eftir 5 ár, 15 ár, 25 ár eða enn lengri tíma. 

Sagt er að spáin um fleiri eldgos á 21. öldinni en þeirri 20. sé aðeins spá og að enginn viti fyrir víst hvort nokkurt hinna spáðu eldgosa komi. 

Þetta gengur ekki upp. Meginlandsflekar Ameríku og Evrópu hætta ekkert að færast frá hvor öðrum nú frekar en í milljónir ára og á meðan þetta landrek er í gangi munu verða 20-25 eldgos á hverri öld rétt eins og hefur verið svo langt sem menn geta rakið aftur í tímann. 

Í áratugi hefur sá viðbúnaður við Kötlugosi sem hafður hefur verið í gangi ekki verið út í bláinn. 

Menn segja að stundum hætti eldfjöll að gjósa og þess vegna gæti Katla tekið upp á að hætta alveg að gjósa. 

Þá gleyma menn að hin eldfjöllin hætta því ekki og að ef Hekla eða eitthvert annað eldfjall gysi svipuðu gosi og Heklugosið var 1947, yrði stórfell röskun á flugi í Evrópu. 

1947 voru hins vegar í notkun bulluhreyflar í flugvélum sem voru þar að auki hægfleygar og fáar. 

Stórkostlegasta aðdráttarafl Íslands felst í hinni einstæðu náttúru og samspili elds og íss, sem á sér engan keppinaut í heiminum og gefur því frábæra möguleika á að laða hingað gríðarstóran og vaxandi markhóp ferðamanna, sem vilja upplifa þessa miklu sköpunarkrafta. 

Það er ekki bæði haft að hafa þá og auglýsa í öðru orðinu og afneita þeim í hinu orðinu. Með réttum og tæmandi upplýsingum er hægt að sýna fram á að það er nákvæmlega ekkert varasamara að ferðast til Íslands núna en alltaf hefur verið og jafnvel öruggara að komast leiðar sinnar hér en í sunnanverðri Evrópu eins og nýjasta dæmi hefur sannað. 

Mjög margir telja að hægt sé að virkja allar orkulindir Íslands og um leið að viðhalda helsta aðdráttarafli landsins sem er ósnortin og sívirk náttúra. Bæði éta kökuna og eiga hana áfram. 

Þeir halda því fram að virkjanir fari vel inni á friðuðum svæðum og hægt sé að auglýsa Dettifoss sem aflmesta foss Evrópu eftir að hann hefur verið virkjaður svo að afl hans verði aðeins hluti þess sem það var.

Áráttan til afneitunar og þöggunar virðist síst hafa minnkað við hrunið heldur hafa færst inn á ný svið.   


mbl.is Forsetinn sniðgekk tilmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband