Hvað næst? Kirkjurnar?

Atburðirnir í dómssalnum í dag eru hryggilegir og lítt skiljanlegir. Sagt er að menn hafi neitað að sitja að skipun lögreglu.

Dómssalir og kirkjur hafa hingað til verið friðhelgir staðir. Það kemur oft fyrir að margt fólk er við messu og í þessu tilfelli voru eitthvað fleiri í dómssal en gátu setið. Allt fór fram með friði og spekt að því er vitni bera. Þá ryðst lögregla inn og skipar tveimur mönnum, sem standa, að sitja. 

Sjáið þið fyrir ykkur að rétt áður en fjölmenn messa hefjist ryðjist lögregla inn og skipi öllum að sitja, ellegar skuli þeir fjarlægðir með valdi? 

Ég verð bara að segja að maður er kjaftstopp við að heyra þetta. 

Lögreglan hafði áunnið sér ákveðna virðingu fyrir það hvernig hún stóðst álagið þegar búsáhaldabyltingin stóð sem hæst en nú er manni brugðið við að heyra þessi tíðindi. 

Þetta kallar á rannsókn, því að þetta má ekki gerast. 

Ég hef áður andmælt því að mótmælendur virði ekki friðhelgi heimila þeirra sem þeir telja sig eiga sitthvað vantalað við. 

Friðhelgi kirkna, dómsala og heimila á að virða. Annað er ekki sæmandi. 

 

 


mbl.is „Þinghald undir lögreglustjórn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dofin þjóð.

Það mun víst vera svo að aldrei hafi jafn lítill hluti kjósenda viljað taka afstöðu til framboða í byggðakosningum og nú. Kosningabaráttan fyrir kosningarnar hefur verið óvenju dauf, ekki aðeins vegna þess að úr miklu minni peningum sé að spila nú en áður, heldur vegna þess í ljósi hinna tryllingslegu upphæða og stærða, sem við blasa í hruninu og eftirleik þess, verður fólk einfaldlega dofið.

Þetta er raunar þekkt í fréttum. Enginn frétt er stærri en hinar fréttirnar leyfa. Frétt sem hefði verið fyrsta frétt í hitteðfyrra kemst ekki á blað núna. 

Í upphafi mótmælafundanna haustið 2008 spáði Andri Snær Magnason því í ræðu að eftir gríðarlega reiðibylgju og dæmalausan óróa í samfélaginu myndi fólk sennilega verða dofið, - doðinn myndi leggjast yfir það. 

Í fréttum af málefnum einstaklinga er dag eftir dag, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð að ræða tugi þúsunda milljóna króna og jafnvel margfalt meira en það og þessi ósköp eru svo stór í sniðum að flestir verða hreinlega dofnir og ónæmir fyrir málefnum, sem áður vöktu bæði áhuga, bæði á því  að kynna sér þau eða taka afstöðu til þeirra.

Þegar við bætist að ótrúlega háar upphæðir hafa verið í umferð í styrkjum til einstakra stjórnmálamanna og það í kjölfar þess áfellisdóms yfir stjórnvöldum, sem skýrslan mikla hefur opinberað, þarf engan að undra þótt það lýsi sér á þann hátt sem nú birtist í minni áhuga en nokkru sinni fyrr. 

Í ljósi þess er eðlilegt að framboð, sem engir fyrrverandi stjórnmálamenn standa fyrir, fái hljómgrunn hjá þeim fáu sem á annað borð eru tilbúnir að taka afstöðu til þess hverjir eigi að sitja í borgarstjórn Reykjavík. 

Ekki má gleyma þeim ósköpum sem dundu yfir í borgarstjórnarmálum frá haustinu 2007 og færði Reykvíkingum fjóra borgarstjóra á mettíma. 

Þótt oft sé talað um gullfiskaminni kjósenda má ekki gleyma því, að borgarstjórnaróróanum hafði varla slotað þegar enn stærri órói á pólitíska sviðinu dundi yfir, sá stærsti í áratugi.

Segja má að frá haustdögum 2007 hafi stjórnmál og stjórnmálamenn á Íslandi lent í meiri vandræðum og orðið fyrir meiri áföllum sem hafa bitnað á trausti kjósenda til þerra en dæmi eru um.  

Meira að segja nýja framboðið, sem fékk talsverðan hljómgrunn í síðustu kosningum, klofnaði fljótar og lenti í innbyrðis deilum margfalt fjótar en dæmi eru um fyrr hjá nýju afli á þingi. 

Jón Gnarr hefur lýst því yfir að framboð hans sé fram komið til að hygla frambjóðendum þess og það kæmi mér ekki á óvart að jafnvel þótt hann myndi líka lýsa því yfir að þetta nýja framboð muni vinna að því að alefli að sundra sér eftir kosningar og hver að skara eld að eigin köku, myndu hinir dofnu kjósendur segja það í skoðanankönnun að það sé bara alveg eins gott að kjósa svona framboð því að það breyti svo sem engu. 

Þetta ástand er sannarlega umhugsunarefni fyrir þá sem vilja að stjórnmálin rétti úr kútnum. 


mbl.is Besti flokkurinn fengi fjóra kjörna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einstætt og verðmætt gos.

Ég veit ekki hvort við Íslendingar gerum okkur grein fyrir því í öllu svartagallsrausinu yfir gosinu í Eyjafjallajökli hve merkilegt þetta gos er og hve mikils virði það getur orðið fyrir landið í framtíðinni.

Nefni nokkur dæmi: p1011426_986508.jpg

Ekkert íslenskt eldgos hefur orðið jafn mikið fréttaefni eða haft meiri áhrif erlendis, allt síðan í Móðuharðindunum 1783. 

Eldgosið verður undir jökli, en slíkt samspil elds og íss á sér enga hliðstæðu í heiminum. 

Frá gosinu kemur jökulhlaup sem leiðir hugann að hundrað sinnum stærri hamfarahlaupum, sem verða á Íslandi í stærstu eldgosunum undir jöklum. p1011354_986510.jpg

Hraunið rennur nú í íshellid undir Gígjökli og komist það alla leið út undir bert loft undir jökulsporðinn hefur slíkt ekki gerst áður í veröldinni.

Á undan þessu gos varð "túristagos" í utanverðri eldstöðinni sem skóp mestu hraunfossa, sem vitað er um að hafi runnið og tekist hefur að ná myndum af. 

Að öllu samanlögðu á þetta eldgos og eldgosalandið Ísland engan keppinaut í heiminum sem ferðamannaland er bjóði upp á sköpun og eyðingu almættisins sem hvergi annars staðar er hægt að upplifa, "The Greatest Show on Earth". 

Gosið þetta, þótt lítið sé, hefur komið Íslandi og eðli landsins á betur á kortið erlendis en nokkur annar viðburður, sem hér hefur gerst. 

Hvernig væri nú að hætta að gráta yfir tímabundnum erfiðleikum og snúa sér að því að nýta sér þá nýju og einstæðu möguleika sem þetta gos hefur fært okkur upp í hendurnar? 


mbl.is 50 tonn af hrauni á sekúndu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband