Dofin þjóð.

Það mun víst vera svo að aldrei hafi jafn lítill hluti kjósenda viljað taka afstöðu til framboða í byggðakosningum og nú. Kosningabaráttan fyrir kosningarnar hefur verið óvenju dauf, ekki aðeins vegna þess að úr miklu minni peningum sé að spila nú en áður, heldur vegna þess í ljósi hinna tryllingslegu upphæða og stærða, sem við blasa í hruninu og eftirleik þess, verður fólk einfaldlega dofið.

Þetta er raunar þekkt í fréttum. Enginn frétt er stærri en hinar fréttirnar leyfa. Frétt sem hefði verið fyrsta frétt í hitteðfyrra kemst ekki á blað núna. 

Í upphafi mótmælafundanna haustið 2008 spáði Andri Snær Magnason því í ræðu að eftir gríðarlega reiðibylgju og dæmalausan óróa í samfélaginu myndi fólk sennilega verða dofið, - doðinn myndi leggjast yfir það. 

Í fréttum af málefnum einstaklinga er dag eftir dag, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð að ræða tugi þúsunda milljóna króna og jafnvel margfalt meira en það og þessi ósköp eru svo stór í sniðum að flestir verða hreinlega dofnir og ónæmir fyrir málefnum, sem áður vöktu bæði áhuga, bæði á því  að kynna sér þau eða taka afstöðu til þeirra.

Þegar við bætist að ótrúlega háar upphæðir hafa verið í umferð í styrkjum til einstakra stjórnmálamanna og það í kjölfar þess áfellisdóms yfir stjórnvöldum, sem skýrslan mikla hefur opinberað, þarf engan að undra þótt það lýsi sér á þann hátt sem nú birtist í minni áhuga en nokkru sinni fyrr. 

Í ljósi þess er eðlilegt að framboð, sem engir fyrrverandi stjórnmálamenn standa fyrir, fái hljómgrunn hjá þeim fáu sem á annað borð eru tilbúnir að taka afstöðu til þess hverjir eigi að sitja í borgarstjórn Reykjavík. 

Ekki má gleyma þeim ósköpum sem dundu yfir í borgarstjórnarmálum frá haustinu 2007 og færði Reykvíkingum fjóra borgarstjóra á mettíma. 

Þótt oft sé talað um gullfiskaminni kjósenda má ekki gleyma því, að borgarstjórnaróróanum hafði varla slotað þegar enn stærri órói á pólitíska sviðinu dundi yfir, sá stærsti í áratugi.

Segja má að frá haustdögum 2007 hafi stjórnmál og stjórnmálamenn á Íslandi lent í meiri vandræðum og orðið fyrir meiri áföllum sem hafa bitnað á trausti kjósenda til þerra en dæmi eru um.  

Meira að segja nýja framboðið, sem fékk talsverðan hljómgrunn í síðustu kosningum, klofnaði fljótar og lenti í innbyrðis deilum margfalt fjótar en dæmi eru um fyrr hjá nýju afli á þingi. 

Jón Gnarr hefur lýst því yfir að framboð hans sé fram komið til að hygla frambjóðendum þess og það kæmi mér ekki á óvart að jafnvel þótt hann myndi líka lýsa því yfir að þetta nýja framboð muni vinna að því að alefli að sundra sér eftir kosningar og hver að skara eld að eigin köku, myndu hinir dofnu kjósendur segja það í skoðanankönnun að það sé bara alveg eins gott að kjósa svona framboð því að það breyti svo sem engu. 

Þetta ástand er sannarlega umhugsunarefni fyrir þá sem vilja að stjórnmálin rétti úr kútnum. 


mbl.is Besti flokkurinn fengi fjóra kjörna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta framboð er samt eithvað svo ópólitískt að fólkið er að fíla það. Allir eru bara komnir með nóg af þessum þingmönnum og vilja bara frekar fá Jón Gnarr að flippa frekar en þessar rottur sem vilja bara fá virðingu og völd yfir öðrum í gegnum stöðu sinnar. Hver annar fer í pólitík nema með annaðhvort þessara hugsjóna að leiðarljósi?

Björn (IP-tala skráð) 30.4.2010 kl. 20:48

2 identicon

Ætli fólk hugsi ekki bara að það sé jafn gott að fá grínista inn í borgarstjórn eins og pólitíkusa, það er þó hægt að hlæja að þeim af og til og þeir tala venulega íslensku en ekki stofnanamál.

Það er alveg hárrétt Ómar að fólki er dofið og skal engan undra. Mig rekur í rogastans á hverjum degi við það eitt að heyra fréttir af ríkisstjórn okkar kæra lands. Vil þar nefna að Jóhanna Sigurðardóttir Forsætisráðherra, þessi svokallaða jafnaðarmanneskja vill afnema málskotsrétt Forsetans og fleira má telja. Maður veit varla í hvorn fótinn maður á að stíga eða hvort ekki sé bara best að setjast niður og hlæja og gráta í bland og flytja svo úr landi.

Karl Jóhann Guðmundsson (IP-tala skráð) 30.4.2010 kl. 21:27

3 identicon

Af hverju ættu grínistar að vera slæmir borgarstjórar? Þú Ómar, ert þú óhæfur til góðra stjórnmála vegna farsæls og langs ferils sem skemmtikraftur? Að sjálfsögðu ekki.

valdimar (IP-tala skráð) 30.4.2010 kl. 23:51

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef aldrei sagt það að svokallaðir grínistar séu óhæfir til annars en að spauga. 

Þvert á móti hefur beitt og snjallt háð oft verið árangursríkara og nytsamlegra en margt annað. Ég held til dæmis að Spaugstofan hafi gert þjóðinni meira gagn að undanförnu en flest annað í þessu flippaða þjóðfélagi og veit ekki hvort þjóðin gerir sér grein fyrir því hvílíkt afrek þessi hópur manna hefur unnið vikulega vetur eftir vetur. 

Ómar Ragnarsson, 1.5.2010 kl. 00:05

5 Smámynd: Snjalli Geir

Flestir kjósendur Besta flokksins eru bara að senda 4-flokknum++ fingurinn!

Snjalli Geir, 1.5.2010 kl. 00:17

6 identicon

Skoðanakönnunum gærdagsins ber að vísu ekki saman um fulltrúaskiptingu milli S og D en eru samála um að Gnarr fái fjóra fulltrúa. Sexapíll Besta flokksins er háðið, hreinleikinn og frambjóðendurnir sem eru virtir listamenn. Besti flokkurinn ætlar að hygla aðstandendum flokksins, en þeir ætla líka að brjóta kosningaloforð sín.  Frambjóðendur eru allt hið skynsamt og skemmtilegt fólk. Þeir þurfa að gera upp við sig hvort þeir eru tilbúnir að taka samræmda afstöðu til mála. Ef ekki, get ég bara ráðlagt þeim að ákveða fyrirfram að vera í stjórnarandstöðu og vera hinum aðhald.

stefan benediktsson (IP-tala skráð) 1.5.2010 kl. 11:39

7 identicon

Grín og Glæpir

Margur verður af aurum api

Hreykja sér af glöpum

von að fólkið gapi

Enda komið af öpum

Betra grín en glæpir

Póli-tíkin strandar

Flokka tíkin æpir á

Meira til hvorrar handar

Póli-Kusinn var settur á

Varð því voða kátur

Hvenær skyldi fólkið sjá

Hann ætti að vera slátur

Betra er að kjósa grín en glæpi .

Kv. ÓÁS

Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 1.5.2010 kl. 19:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband