Kemur ekki á óvart.

Það kemur ekki á óvart fyrir þann sem hefur fylgst með gosinu úr lofti í gærkvöldi, morgun og í kvöld að öskufall sé mikið undir Eyjafjöllum.

Efri myndin er tekin á túninu á Vestri-Garðsauka við Hvolsvöll í kvöld áður en birti til á jöklinum, en á þessu túni eða túninu í landi Lambhaga við Hótel Rangá hef ég verið að vappa á flugvél og bíl að undanförnu og skotist inn á þessum stöðum til að senda myndir eða blogga. p1011388.jpg

Á ellefta tímanum í gærkvöldi sá ég mikilfenglegustu eldgusuna, sem ég hef séð um langt skeið, koma upp úr gígnum og var einn glóandi klumpurinnn líkast til á stærð við heila íbúðablokk. p1011626.jpg

Kolsvartur mökkurinn steig hátt upp í kvöld. 

Í könnunarferð yfir jökulinn á ellefta tímanum, þegar birti til á honum, sást að aukinn kraftur hefur færst í hraunframleiðsluna með tilheyrandi eldi í gígnum og stóraukinni gufumyndun í hraunrásinni, sem liggur niður um hina mikilfenglegu ísgjá í Gígjökli.

Set hér með eina af myndunum, sem ég ætlaði að hafa með blogginu í fyrradag þegar fólk var uppi við gíginn.

Ef þið stækkið þessa mynd með því að smella tvisvar á hana sjáið þið eins og örlítil korn fólkið, sem gengur eftir klettarimanum Goðasteini andspænis gosinu, og þó sést aðeins allra neðsti hluti gosmakkarins. 

Vel sést hvernig öskureyk leggur upp af bjargi sem fellur niður í mekkinum. Skutla kannski fleiri myndum inn við tækifæri.  p1011643.jpg

Í dag hefur þoka legið á jöklinum niður í miðjar hlíðar og lýsingin frá blogginu hér á undan um það að opið hefði átt að vera fyrir ferðalög inn á hann hefði því alls ekki átt við. 

Hún átti bara við á miðvikudag, en daginn þar áður lá hins vegar þoka á jöklinum. p1011623.jpg

Flestir ferðamenn hér dvelja hér í nokkra daga og þess vegna nægir einn góður dagur alveg til þess að gefa fólki kost á að kynnast nánar fyrirbæri, sem hvergi er að sjá í heiminum, svo sem ísgjánni mikilfenglegu, fyrirbæri sem aðeins finnst á Íslandi. 


mbl.is Kolniðamyrkur við jökulinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegt í gærkvöldi, - grátlegt ástand.

Eldgosið var glæsilegt í gærkvöldi þótt skýjahula væri í hlíðum Eyjafjallajökuls. Ef einhver hefði staðið á Goðasteini og horft til gossins, þar sem engin björg hafa fallið í marga daga, og jafnvel staðið enn fjær, þótt enn fjær, langt frá því svæði þar sem glóandi björg geta komið niður, hefði hann getað öðlast alveg einstaka upplifun. 

En enginn var á ferð, enda leiðinni upp á fjallið lokað í 16 kílómetra fjarlægð. Í 16 kílómetra fjarlægð færðu að vita það að þú sért við mörk hættusvæðis þótt hvergi sé neitt athugavert að sjá næstu 16 kílómetrana framundan. Og þessi frétt berst út, frétt um ógn og skelfingu gossins. 

Hér á landi eru staddir tveir jarðfræðingar, sem hafa rannsakað eldgos um víða veröld, Haraldur Sigurðsson og svissneskur jarðfræðiprófessor sem fór upp að eldstöðinni í fyrradag.

Ekkert virðist farið að þeirra áliti varðandi það hvernig háttað er aðgengi að þessu gosi og hefur Haraldur þó látið sína skoðun i ljós.

Við eigum líka fleiri frábæra jarðfræðinga svo sem Magnús Tuma Guðmundsson, sem hefur yfirgripsmikla þekkingu, þótt ekki hafi hann komist í návígi við jafn mörg eldgos og tveir fyrrnefndir menn.

Í gær stóð vindurinn úr vestri að gígnum og leiðin upp frá Hamraendum var algerlega hrein og fullkomlega hættulaus.

Samt var hún lokuð.

Þegar lögfsóknafarganið var sem mest í Bandaríkjunum á sínum tíma voru gestir í afmælispartíum látnir undirrita yfirlýsingu um það að þeir gengju þar um sundlaugarbarminn á eigin ábyrgð svo að gestgjafinn þyrfti ekki að óttast skaðabótamál ef einhver hrasaði.

Auðvelt er að koma á slíku fyrirkomulagi hér á mun hættuminna svæði en sleipur sundlaugarbarmur er. Líka hægt að hafa þarna mannskap til eftirlits og þjónustu, sem hefur aðgang að nýjustu upplýsingum, sem gefnar eru frá mælum jarðvísindamanna í Reykjavík. 

Ég hef þegar hitt ferðafólk sem er komið gagngert til landsins til að kynnast gosinu þrátt fyrir margfaldan hræðsluáróður um það hve ógurlega hættulegt það er allt frá Keflavíkurflugvelli og norður í land.

Ekkert er fjallað um það heldur eingöngu um þá sem hafa hætt við ferðir.  

Framundan er sumar þar sem uppgrip gætu orðið vegna þess aðdráttarafls sem svona eldgos getur verið.

Ég var áðan á spjalli við fulltrúa frá Ferðamálasamtökum Suðurlands, sem eru samtök utan um milljarða tekjur af ferðamönnum.

Þeir eru svo blankir að þeir komast ekki inn í Þórsmörk nema að reyna að "fljóta með" einhverjum til þess að fara að huga að möguleikum til þess að ferðamenn geti notið svæðisins frá Landmannalaugum að Skógum í sumar, svæði sem er eitt hið fjölsóttasta sinnar tegundar. 

Það er eitthvað verulega mikið að þegar ástandið er svona og menn sjá ekkert nema svartnætti framundan og virðist fyrirmunað að sjá möguleikana sem hið stórkostlega sjónarspil náttúrunnar gefur nú á mikilfenglegast hátt sem hugsast getur og fært bæði heimamönnum og öðrum miklar tekjur.

Það væri hægt að veita góða og örugga þjónustu á leiðinni upp fjallið og hafa af því tekjur í stað þess að einu fréttirnar sem berast eru um það hve hættulegt og varasamt land okkar sé.   


mbl.is Styrkur eldgossins óbreyttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. maí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband