21.5.2010 | 20:56
Trylltir tímar fáránleika taumleysisins.
Við lifum á trylltum tímum. Árið 2002 byrjaði það fyrir alvöru, einkavinavæðing og helmgaskipti bankanna, stærsta og jafnframt versta framkvæmd Íslandssögunnar og stigvaxandi tryllingur græðgi og taumleysis.
Eftir á sést, meðal annars í skýrslunni um hrunið, að síðasta tækifærið tll stöðva feigðarflanið var síðsumars 2006, áður en bankakerfið og græðgisbólan voru komin úr öllum böndum og áður en Hjalladal var sökkt.
Jökulsárgangan 26. september 2006 var andóf gegn þessu brjálæði öllu, en við ekkert varð ráðið, - meirihluti þjóðarinnar var ákveðin í að ganga fyrir björg líkt og læmingjahjörð, sem hleypur, knúin óviðráðanlegu hjarðeðli, út í opinn dauðann
Árið eftir reið brjálæðisaldan yfir borgarstjórn Reykjavíkur með REI-málinu og í hönd fór tímabil meiri óróa og vitleysu í sögu borgarstjórnar en hafði samanlagt ríkt í sveitarstjórnarmálum á Íslandi í heila öld.
Fjórir borgarstjórar á einu ári var eitthvað, sem var svo fáránlegt, að engu tali tók.
En það gaf tóninn fyrir þá atburðarás í þjóðmálunum öllum, sem á innan við tveimur síðustu árum hefur slegið út allt sem við þekkjum síðan þjóðin varð fullvalda fyrir tæpri öld.
Meirihluti Besta flokksins er ekkert fáránlegri en flest það sem aðhafst hefur verið hér á landi síðustu átta ár.
Brotavilji þeirra afla sem vilja halda áfram hrunadansi sölu auðlinda og eyðileggingu náttúruverðmæta landsins á kostnað afkomenda okkar virðist jafn sterkur sem fyrr, þrátt fyrir hrunið og þá lærdóma, sem af því mætti draga.
Það er búið að koma svo miklu óorði á stjórnmál að það getur jafnvel virst skárra í augum meirhluta kjosenda í Reykjavík að valið sé til meirihlutavalds í borginni fólk, sem veit lítið sem ekkert í hverju það starf er fólgið sem það er kjörið til, - þ. e. að stjórna borginni, að stunda stjórnmál þrátt fyrir allt.
Í kosningunum kunna kjörnir fulltrúar Besta flokksins að verða til þess að skola fyrir borð ágætu fólki, sem hefur áunnið sér góða og nýtanlega þekkingu á borgarmálum, en er svo óheppið að vera á listum með bókstafi, sem virðast hafa unnið sér til óhelgi í augum meirihluta kjósenda eða á nýjum listum, sem drukkna í þeirri bylgju sem Besti flokkurinn berst nú áfram á.
Þótt óvenju mikil samstaða hafi ríkt í borgarstjórn eftir að óöldinni linnti virðist nú vera að koma í ljós að kjósendur hafa ekki það gullfiskaminni sem oft hefur þótt einkenna þá.
Allur óróinn í þjóðfélaginu leitar sér útrásar hvar sem því verður við komið og þótt róast hafi hjá Borgarstjórn síðustu tvö ár hefur óróinn verið því meiri annars staðar.
Úrslit í byggðakosningum hafa oft ráðist af því að kjósendur hafa viljað láta skoðun sína á landsmálum koma í ljós.
Oft hafa orðið furðu miklar sviptingar af þeim sökum.
Þegar sviptingarnar í þjóðlífinu eru meiri en dæmi eru til áður um, er skiljanlegt af hverju sviptingarnar í fylgi framboða í borgarstjórnarkosningum verði meiri en elstu menn muna.
Á fyrstu áratugum síðustu aldar nutu anarkistar eða stjórnleysingjar töluverðs fylgis í Evrópu og stundum ótrúlega mikils fylgis.
Þeir nærðust á óánægju fólks með þjóðfélagsástandið rétt eins og Besti flokkurinn gerir nú. Það er ekki flóknara en það.
![]() |
Besti flokkurinn með 8 fulltrúa? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.5.2010 | 16:49
Þarf viðameiri rannsóknir.
Sárlega skortir á vitneskjuna um öskuna og þoturnar. Sumir leggja niðurstöður rannsókna á hreyflum British Airways út á þann veg að þær sýni að engin ástæða hafi verið til að banna flug á þeim svæðum þar sem talin var hætta á ösku.
En aðrir geta dregið þá ályktun að einmitt vegna þess að bann var í gildi á öllum svæðum, sem sem hætt var við ösku, sé eðlilegt að engin aska finnist í hreyflum þotna sem flogið var á öruggum svæðum.
Sjálfur gerði ég tilraun í gærmorgun, sem sagði mér talsvert. Beint norður af Gígjökli var loft, sem var öskumettað án þess að skyggni væri lélegra en gengur og gerist í rigningu.
Ég ákvað að fljúga rólega inn að þessu svæði og vera frekar hátt.
Ef eitthvað kæmi á framrúðuna, myndi ég velta vélinni yfir á hliðina líkt og gert var í árásum steypiflugvéla í stríðinu og steypa henni niður til baka.
Skyndilega urðu droparnir, sem komu á framrúðuna dökkir og ég gerði þetta umsvifalaust.
Hugsanlega var flugvélin inni í þessu mettaða lofti í mesta lagi í 10 sekúndur en það nægði samt til að setja þunna öskufilmu á framrúðuna.
Í þessum skilyrðum hefði ekki verið vit í því að fljúga áfram jafnvel þótt maður sæi vel í gegnum þetta raka- og öskumettaða loft.
Flugvélin er með bulluhreyfli eins og bíll og ekkert fór í gegnum lofthreinsarann. Rigningin þvoði öskufilmuma af á leiðinni til Múlakots.
Vitað er að svona rakamettað öskuloft getur borist talsverða vegalengd og morguninn sem rigndi ösku á Hvolsvelli kom hún niður í 33 kílómetra fjarlægð frá gígnum og úðaði það þykku lagi á jörðina að mynd af flugvélinni á túninu þar segir sína sögu.
Ég flaug sjónflug þegar ég gerði þessa tilraun og hefði getað komist hjá því að fá nokkuð á vélina með því að forðast það svæði þar sem loftið var sjáanlega ekki eins tært og annars staðar.
Í blindflugi er útilokað að forðast að lenda inni í öskumettuðu lofti af auðskiljanlegun ástæðum.
Síðan er hefur það auðvitað áhrif hve langt frá eldstöðinni flugvélin er. Það hlýtur að hafa einhver áhrif á magn öskunnar.
Ég held að tæknilega sé hægt að koma því svo fyrir að ekki þurfi nándar nærri eins viðamiklar lokanir og hafa verið framkvæmdar.
En til þess þarf miklu viðameiri rannsóknir en gerðar hafa verið og einnig það að byggja á raunaðstæðum en ekki eingöngu á spám.
Dæmi um það að spárnar séu hæpnar eru nokkur, til dæmis það að flugvellirnir við Faxaflóa voru lokaðir þegar erfitt var að sjá að nokkur aska væri þar á ferð, en síðan voru þeir opnir á þeim tíma sem maður horfði á öskuskýið leggja frá eldstöðinni vestur yfir Suðurlandsundirlendið og sunnanverðan Faxaflóa svo að svifryk fór yfir viðmiðunarmörk í Reykjavík !
![]() |
Engin aska í hreyflunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)