Trylltir tímar fáránleika taumleysisins.

Við lifum á trylltum tímum. Árið 2002 byrjaði það fyrir alvöru, einkavinavæðing og helmgaskipti bankanna, stærsta og jafnframt versta framkvæmd Íslandssögunnar og stigvaxandi tryllingur græðgi og taumleysis. 

Eftir á sést, meðal annars í skýrslunni um hrunið, að síðasta tækifærið tll stöðva feigðarflanið var síðsumars 2006, áður en bankakerfið og græðgisbólan voru komin úr öllum böndum og áður en Hjalladal var sökkt. 

Jökulsárgangan 26. september 2006 var andóf gegn þessu brjálæði öllu, en við ekkert varð ráðið, - meirihluti þjóðarinnar var ákveðin í að ganga fyrir björg líkt og læmingjahjörð, sem hleypur, knúin óviðráðanlegu hjarðeðli, út í opinn dauðann 

Árið eftir reið brjálæðisaldan yfir borgarstjórn Reykjavíkur með REI-málinu og í hönd fór tímabil meiri óróa og vitleysu í sögu borgarstjórnar en hafði samanlagt ríkt í sveitarstjórnarmálum á Íslandi í heila öld. 

Fjórir borgarstjórar á einu ári var eitthvað, sem var svo fáránlegt, að engu tali tók. 

En það gaf tóninn fyrir þá atburðarás í þjóðmálunum öllum, sem á innan við tveimur síðustu árum hefur slegið út allt sem við þekkjum síðan þjóðin varð fullvalda fyrir tæpri öld. 

Meirihluti Besta flokksins er ekkert fáránlegri en flest það sem aðhafst hefur verið hér á landi síðustu átta ár. 

Brotavilji þeirra afla sem vilja halda áfram hrunadansi sölu auðlinda og eyðileggingu náttúruverðmæta landsins á kostnað afkomenda okkar virðist jafn sterkur sem fyrr, þrátt fyrir hrunið og þá lærdóma, sem af því mætti draga. 

Það er búið að koma svo miklu óorði á stjórnmál að það getur jafnvel virst skárra í augum meirhluta kjosenda í Reykjavík að valið sé til meirihlutavalds í borginni fólk, sem veit lítið sem ekkert í hverju það starf er fólgið sem það er kjörið til, - þ. e. að stjórna borginni, að stunda stjórnmál þrátt fyrir allt.

Í kosningunum kunna kjörnir fulltrúar Besta flokksins að verða til þess að skola fyrir borð ágætu fólki, sem hefur áunnið sér góða og nýtanlega þekkingu á borgarmálum, en er svo óheppið að vera á listum með bókstafi, sem virðast hafa unnið sér til óhelgi í augum meirihluta kjósenda eða á nýjum listum, sem drukkna í þeirri bylgju sem Besti flokkurinn berst nú áfram á.

Þótt óvenju mikil samstaða hafi ríkt í borgarstjórn eftir að óöldinni linnti virðist nú vera að koma í ljós að kjósendur hafa ekki það gullfiskaminni sem oft hefur þótt einkenna þá. 

Allur óróinn í þjóðfélaginu leitar sér útrásar hvar sem því verður við komið og þótt róast hafi hjá Borgarstjórn síðustu tvö ár hefur óróinn verið því meiri annars staðar.

Úrslit í byggðakosningum hafa oft ráðist af því að kjósendur hafa viljað láta skoðun sína á landsmálum koma í ljós. 

Oft hafa orðið furðu miklar sviptingar af þeim sökum. 

Þegar sviptingarnar í þjóðlífinu eru meiri en dæmi eru til áður um, er skiljanlegt af hverju sviptingarnar í fylgi framboða í borgarstjórnarkosningum verði meiri en elstu menn muna. 

Á fyrstu áratugum síðustu aldar nutu anarkistar eða stjórnleysingjar töluverðs fylgis í Evrópu og stundum ótrúlega mikils fylgis.

Þeir nærðust á óánægju fólks með þjóðfélagsástandið rétt eins og Besti flokkurinn gerir nú. Það er ekki flóknara en það. 

 


mbl.is Besti flokkurinn með 8 fulltrúa?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Það má líka velta upp þeirri spurningu hvort einhverju hefði mátt bjarga ef Samfylkingin hefði myndað vinstri stjórn  eftir kosningarnar 2007?  Þá er ég að velta fyrir mér hugsanlegum viðbrögðum VG því SF hefði hugsanlega ekki breytt öðruvísi. Þeir voru með sinn mann, Jón Sigurðsson á vaktinn og hann steinsvaf eins og allir hinir

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 21.5.2010 kl. 21:34

2 identicon

   Engan vegin næ ég samhenginu með athugasemd Jóhannesar og pistli þínum Ómar. Kannki er ég barasta svona vitlaus. Allavegana ætla ég að fara snemma að sofa og sjá hvort að þetta lítur öðruvísi við á morgun.

Villi G. (IP-tala skráð) 21.5.2010 kl. 21:59

3 identicon

omar

Smá grín!

Baldvin Nielsen Reykjanesbæ

B.N. (IP-tala skráð) 21.5.2010 kl. 22:29

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ómar, þú spyrðir saman; hina frábæru framkvæmd sem virkjun og álver á Austurlandi er, og þeim verstu hörmungum sem dunið hafa á þjóð okkar í formi atvinnuleysis og efnahagshruns undanfarin misseri.

Þér mun reynast erfitt að sannfæra þá sem reynt hafa á egin skinni, hinar gríðalegu og jákvæðu breytingar sem orðið hafa á samfélaginu og mannlífinu hér eystra, að þær eigi eitthvað skylt við svartnættið vegna efnahagshrunsins. Þvert á móti þá er álverið og framkvæmdin öll, einn af fáu ljósu punktunum í samfélagi okkar í dag. Traustur og öruggur atvinnuvegur fyrir um 1000 manns á Austurlandi, auk afleiddra starfa víða um land, þó mest á höfuðborgarsvæðinu.

Ekki koma með þau rök að framkvæmdin hafi valdið þensu. Þenslan sem hún olli var um 15% af heildardæminu þegar mest var. Auk þess var þensla á heimamarkaði á Íslandi, ekki orsakavaldur mestu fjármálakreppu alheimsins í hundrað ár.

Fall bankanna og efnahagskerfis þjóðarinnar um leið, var og er vegna "peningaþenslu". Ódýru fjármagni var dælt í hagkerfi nánast allra þjóða. Þeir sem voru duglegastir að taka við fjármagninu, eru í dýpsta skítnum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.5.2010 kl. 22:50

5 Smámynd: Einhver Ágúst

Takk Ómar fyrir að gefa það í skyn í niðurlagi pistils þína að við séum Fasistahreyfing, það er fyndið.

Góða nótt og kveðja frá Gústa frammara sem hangir í 13 sæti Besta flokksins og hefur hugsað sér að vinna að bótum á skólamáltíðum og skólamálum almennt í Reykjavík, auk þess að starfa fyrir fíkla, öryrkja, geðsjúka og einmitt gamlingja ef kostur er.

Einhver Ágúst, 22.5.2010 kl. 02:52

6 Smámynd: Vilborg Eggertsdóttir

- tími fjórflokksins er einfaldleg útrunninn! Flestir búnir að sjá í gegnum áratuga plott, nema nokkra eftirlegu "kindur" sem eitthvað rignir upp í nefið á ennþá:o))

~ hið gamla verður að hrynja svo hið nýja geti byrjað ~ búin að bíða í mörg ár eftir að sjá þetta raungerast í efnisheiminu.

Síðan hvað verður þá - er okkar að skapa sjálfra,- linerarity speaking :o))

Vilborg Eggertsdóttir, 22.5.2010 kl. 03:33

7 identicon

Fólk er ekki endilega heillað af Jóni Gnarr og félögum enda veit enginn neitt um þeirra stefnu. Hins vegar sér fólk núna möguleikann á að hreinsa úrsérgengið og útbrunnið fólk út úr ráðhúsinu. Það er tækifæri sem fólk vonandi nýtir sér.

valdimar (IP-tala skráð) 22.5.2010 kl. 10:05

8 Smámynd: SeeingRed

" Hins vegar sér fólk núna möguleikann á að hreinsa úrsérgengið og útbrunnið fólk út úr ráðhúsinu."

Það er nú mergurinn málsins.

SeeingRed, 22.5.2010 kl. 11:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband