Hraunið og jökullinn, - einstæð orrusta.

Ég er nú staddur austur í sveitum og get ekki komið ljósmyndum inn á bloggið mitt.

Lenti við Hótel Rangá, sem er eina hótelið, sem ég veit um á Íslandi þar sem hægt er að aka flugvél nánast í hlað og þar tókst Friðriki Pálssyni og hans fólki að senda myndir til Morgunblaðsins af Gígjökli og hraunstraumnum, sem hefur átt í skæðri orrustu við hann að undanförnu. 

Þessum myndum náði ég þegar einna léttast var af skýjum á jöklinum í dag, en í kvöld hreinsaði hann allt af sér og var ógnarlegur að sjá í kvöldsólinni og mistrinu spúandi þessum öskustrók upp í heiðloftið.

Myndirnar sýna að engin leið er fyrir hraun að renna um íshelli niður í gegnum skriðjökul vegna þess hve bræðslumark hrauns er hátt og tiltölulega litla kælingu þarf til að að storkni og hætti að renna.

Þetta kom vel í ljós í gosinu í Heimaey þar sem Þorbjörn Sigurgeirsson prófessor sýndi fram á að það sem sýndust bara vera vatnssprænur andspænis hraunflykkinu, sem valt fram, kældi massann nógu mikið til að hægja á honum og stöðva svo að hann færi ekki út í höfnina. 

Neðsti hluti Gígjökuls er alveg óhaggaður og jafnvel þótt hraun hefði haldið áfram að renna hefði það tekið meira en nokkra daga fyrir hraunið að komast niður á aurkeiluna þar sem áður var Jökulsárlónið.

Og það hefði ekki tekist fyrr en að hraunið hefði alveg brætt jökulinn ofan af sér eins og hann hefur gert langleiðina þarna niður eftir.

Átök íss og elds gerast vart sérstæðari og flottari en þarna.  


Mótsagnirnar varðandi gosið.

Það er fullt af mótsögnum umhverfis gosið í Eyjafjallajökli og öskufallið frá því.

Áður hefur verið fjallað um þá mótsögn að þrátt fyrir tímabundin neikvæð áhrif á ferðaþjónustu verði áhrifin jákvæð til lengri tíma litið. 

Önnur mótsögn er sú að enda þótt þetta gos kunni með tímanum hafa reynst þjóðinni í heild happadráttur hvað það snertir að koma landinu og einstæðri náttúru þess loksins á landakortið um allan heim, þá bitna afleiðingar gossins mjög óþyrmilega á fólkinu sem býr næst fjallinu fyrir sunnan og austan það.

Þetta fólk á skilið alla samúð, hjálp og aðstoð þjóðarinnar í heild þannig að takmarkið verði það að því ekki aðeins bættur allur þess skaði, heldur gert enn betur en það.

Þriðja mótsögnin er sú að sú leið, sem askan fer nú yfir landið er sú stysta sem möguleg er og að askan fellur á eins lítið landssvæði og hugsanlegt er.

Fleir mætti nefna en læt þetta nægja. 

Tjónið yrði kannski enn meira ef öskumökkinn legði vestur yfir hinar blómlegu sveitir stærsta landbúnaðarhéraðs landsins.

Þess heldur eigum við að koma fram af myndarskap við að hjálpa þeim sem gosið bitnar á.  


mbl.is Fólk haldi sig innandyra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. maí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband