16.6.2010 | 01:05
Myndir af fokinu, sem virðist feimnismál.
Að undanförnu hafa myndir af öskufoki og umfjöllun um það eðlilega verið mjög í sviðljósinu í fjölmiðlum.
Slíkt þykir öllum vert að sinna, enda brýnt að takast á við fyrirbæri, sem engu er um að kenna nema aðstæðum, sem menn fá ekki ráðið við. Myndarlegt átak í þessum efnum er þarft og er það vel.
Nú er hafið þriðja sumarið í röð og ekki það siðasta á þessari öld þegar mikið, nýtt og öflugt leirfok geysar á austanverðu hálendinu.
Efstu myndirnar eru tekin hátt úr lofti úr suðri yfir suðurenda Hálslóns og sést varla grilla í Kárahnjúka 25 kílómetrum fjær á myndinni, rétt hægra megin við miðju hennar, hvað þá að stíflurnar glæsilegu sjáist nokkurn tíma á neinni þessara mynda, hvort sem þær eru teknar fjær eða nær.
Já, þetta er framtíðin á þessu svæði langt fram eftir hverju sumri á heitustu dögum sunnanþeysins, hvað sem líður öllum tilraunum til þess að dreifa rykbindiefnum og bleyta leirurnar eins og gert var í fyrra og mikið gert með í fjölmiðlum.
Aðeins einu sinni, í einni frétt Sjónvarpsins í hitteðfyrra, var þetta leirfok sýnt. Að öðru leyti virðist ríkja um það mikil þöggun í fjölmiðlum, enda um manngert óáran að ræða.
Nú ríkir viku eftir vikum mikil blíða á svæðinu við Hálslón, stundum 12 til 14 stiga hiti dag eftir dag, sól og heiðríkja.
Á áróðursmynd Landsvirkjunar fyrir virkjun var sýnd sú dýrðarveröld sem opnast myndi við Hálslón með gerð heilsársvegar þangað, - fólk í sólbaði við tjöld sín, brunandi á seglbrettum og bátum um lónið og fjallaklifrarar að æfa sig utan á Kárahjúkastíflu.
Birt var framtíðarmynd af því þegar stórir vöruflutningabílar og rútur þeystu í röðum yfir stífluna á hinni nýju malbikuðu hálendishraðbraut milli Reykjavíkur og Egilsstaða.
Dýrðarvikur góðviðris ríkja þarna dag eftir dag um þessar mundir.
Hins vegar ekki hræðu að sjá á þessum slóðum þótt malbikaður Kárahnjúkavegur liggi þangað uppeftir.
Ástæðan er einföld: Þarna er engum manni vært vegna leirfoks og standstorma úr þurru lónstæðinu þar sem milljónir tonna af nýjum framburði Jöklu og Kringilsár, sem þær bera niður í lónið á hverju ári, liggja á tugum ferkílómetra lands með leirþekju yfir kafnandi og deyjandi gróðri.
Myndirnar hér á síðunni voru teknar í gær. Hin glæsilegu mannvirki, stíflurnar miklu, sjást ekki vegna leirstorma, ekki einu sinni þótt komið sé alveg að þeim, stig af stigi eins og myndirnar sýna - og það rétt grillir í Sandfell og Fremri-Kárahnjúk í kófinu.
Ég treysti mér ekki til að fljúga inn í leirkófið til þess að mynda þann raunveruleika blindandi leirfoks, sem fólk upplifir sem áræðir að fara inn í það.
Neðstu myndirnar eru af svæði þar sem Landgræðslan gerði tilraunir til að hefta fokið síðsumars í fyrra.
Daginn eftir að þessar myndir voru teknar snerst vindurinn til vesturs og má þá reikna með því að leirsandurinn hafi borist inn á gróðurlendi Vestur-Öræfa.
En þarna berst sandurinn úr lónstæðinu í allar áttir, gagnstætt því sem fullyrt var fyrirfram.
Formúlan er nefnilega einföld: Hraðasta og mesta vatnsborðslækkun í heimi plús mesti aurframburðurinn plús þurrasta svæði Íslands plús tugir ferkílómetra, sem þorna á örskammri stundu = mesta hugsanlega sandfok af mannavöldum.
Ég held að eftir ferðir mínar í leit að öðru eins víða um lönd sé óhætt að fullyrða að hvergi i Ameríku eða Evrópu eða jafnvel í heiminum öllum hafi neitt viðlíka fyrirbæri verið skapað af mannavöldum eins og það sem þessar myndir sýna.
Þrátt fyrir þetta einsdæmi er þó íklegast að þessi þessi bloggsíða verði eini vettvangurinn í fjölmiðlum sem svona myndir birtast í.
Ég tók líka kvikmyndir, bæði núna, í fyrra og í hitteðfyrra, en býst heldur ekki við að neinn hafi áhuga á þeim.
Þetta eru nefnilega myndirnar sem helst ætti ekki að birta. Þær stangast á við lýsingu eins þingmannsins í umræðu um virkjanamál þess efnis hvað það væri nú gott að fá "snyrtileg miðlunarlón" sem víðast !
Ég minni á að hægt er að stækka þessar myndir í skoðun með því að tvísmella á þær.
(Neðsta myndin á bloggsíðunni fór fyrir tæknleg mistök inn, en er sú sama og önnur stærri mynd ofar)
![]() |
Græða 4000 ferkílómetra lands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 17.6.2010 kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (46)