Myndir af fokinu, sem virðist feimnismál.

Að undanförnu hafa myndir af öskufoki og umfjöllun um það eðlilega verið mjög í sviðljósinu í fjölmiðlum.

Slíkt þykir öllum vert að sinna, enda brýnt að takast á við fyrirbæri, sem engu er um að kenna nema aðstæðum, sem menn fá ekki ráðið við. Myndarlegt átak í þessum efnum er þarft og er það vel. p1012146.jpg

Nú er hafið þriðja sumarið í röð og ekki það siðasta á þessari öld þegar mikið, nýtt og öflugt leirfok geysar á austanverðu hálendinu.

Efstu myndirnar eru tekin hátt úr lofti úr suðri yfir suðurenda Hálslóns og sést varla grilla í Kárahnjúka 25 kílómetrum fjær á myndinni, rétt hægra megin við miðju hennar, hvað þá að stíflurnar glæsilegu sjáist nokkurn tíma á neinni þessara mynda, hvort sem þær eru teknar fjær eða nær. p1012148.jpg

Já, þetta er framtíðin á þessu svæði langt fram eftir hverju sumri á heitustu dögum sunnanþeysins, hvað sem líður öllum tilraunum til þess að dreifa rykbindiefnum og bleyta leirurnar eins og gert var í fyrra og mikið gert með í fjölmiðlum.  

Aðeins einu sinni, í einni frétt Sjónvarpsins í hitteðfyrra, var þetta leirfok sýnt. Að öðru leyti virðist ríkja um það mikil þöggun í fjölmiðlum, enda um manngert óáran að ræða.

Nú ríkir viku eftir vikum mikil blíða á svæðinu við Hálslón, stundum 12 til 14 stiga hiti dag eftir dag, sól og heiðríkja. p1012153.jpg

Á áróðursmynd Landsvirkjunar fyrir virkjun var sýnd sú dýrðarveröld sem opnast myndi við Hálslón með gerð heilsársvegar þangað, -  fólk í sólbaði við tjöld sín, brunandi á seglbrettum og bátum um lónið og fjallaklifrarar að æfa sig utan á Kárahjúkastíflu. 

Birt var framtíðarmynd af því þegar stórir vöruflutningabílar og rútur þeystu í röðum yfir stífluna á hinni nýju malbikuðu hálendishraðbraut milli Reykjavíkur og Egilsstaða. 

Dýrðarvikur góðviðris ríkja þarna dag eftir dag um þessar mundir. p1012161_1001076.jpg

Hins vegar ekki hræðu að sjá á þessum slóðum þótt malbikaður Kárahnjúkavegur liggi þangað uppeftir. 

Ástæðan er einföld: Þarna er engum manni vært vegna leirfoks og standstorma úr þurru lónstæðinu þar sem milljónir tonna af nýjum framburði Jöklu og Kringilsár, sem þær bera niður í lónið á hverju ári, liggja á tugum ferkílómetra lands með leirþekju yfir kafnandi og deyjandi gróðri. 

Myndirnar hér á síðunni voru teknar í gær. Hin glæsilegu mannvirki, stíflurnar miklu, sjást ekki vegna leirstorma, ekki einu sinni þótt komið sé alveg að þeim, stig af stigi eins og myndirnar sýna - og það rétt grillir í Sandfell og Fremri-Kárahnjúk í kófinu. p1012162.jpg

Ég treysti mér ekki til að fljúga inn í leirkófið til þess að mynda þann raunveruleika blindandi leirfoks, sem fólk upplifir sem áræðir að fara inn í það. 

Neðstu myndirnar eru af svæði þar sem Landgræðslan gerði tilraunir til að hefta fokið síðsumars í fyrra. 

Daginn eftir að þessar myndir voru teknar snerst vindurinn til vesturs og má þá reikna með því að leirsandurinn hafi borist inn á gróðurlendi Vestur-Öræfa. 

En þarna berst sandurinn úr lónstæðinu í allar áttir, gagnstætt því sem fullyrt var fyrirfram. 

p1012163.jpg

Formúlan er nefnilega einföld: Hraðasta og mesta vatnsborðslækkun í heimi plús mesti aurframburðurinn plús þurrasta svæði Íslands plús tugir ferkílómetra, sem þorna á örskammri stundu  = mesta hugsanlega sandfok af mannavöldum. 

Ég held að eftir ferðir mínar í leit að öðru eins víða um lönd sé óhætt að fullyrða að hvergi i Ameríku eða Evrópu eða jafnvel í heiminum öllum  hafi neitt viðlíka fyrirbæri verið skapað af mannavöldum eins og það sem þessar myndir sýna.  

Þrátt fyrir þetta einsdæmi er þó íklegast að þessi þessi bloggsíða verði eini vettvangurinn í fjölmiðlum sem svona myndir birtast í.

Ég tók líka kvikmyndir, bæði núna, í fyrra og í hitteðfyrra, en býst heldur ekki við að neinn hafi áhuga á þeim. 

Þetta eru nefnilega myndirnar sem helst ætti ekki að birta. Þær stangast á við lýsingu eins þingmannsins í umræðu um virkjanamál þess efnis hvað það væri nú gott að fá "snyrtileg miðlunarlón" sem víðast !

Ég minni á að hægt er að stækka þessar myndir í skoðun með því að tvísmella á þær. 

(Neðsta myndin á bloggsíðunni fór fyrir tæknleg mistök inn, en er sú sama og önnur stærri mynd ofar) p1012161.jpg


mbl.is Græða 4000 ferkílómetra lands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

eru þessar myndir af mýrdalssandi eða kárahnjúkum? virðist svipað

haukur kristinsson (IP-tala skráð) 16.6.2010 kl. 03:31

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þegar svona leirfok ríkir þarna er álíka ófært að aka yfir stíflurnar og er að aka um Mýrdalssand í verstu sandstormum þar. Leirinn úr Hálslóni er afar fínn og smýgur um allt.

Þegar hann blotnar verður hann eins og steypa og skórnir á manni verða eins og steypuklumpar ef maður gengur í honum. 

Ljósbrúnn leirinn við austurströnd lónsins er gerólíkur leirnum við Kringilsá sem er svartur.

Ég hef reynt að keyra inn í svona leirstorm, bæði á Jökulsárflæðum norðan Dyngjujökuls og þarna við Kárahnjúka og orðið að snúa við í báðum tilfellum.

Munurinn á fokinu af Jökulsárflæðum og þessu er sá að þetta fok er miklu nær byggð. 

Ómar Ragnarsson, 16.6.2010 kl. 07:04

3 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Sorglegt að sjá að svörtustu spáin í sambandinu við fok á Kárahnjúkasvæðinu urðu að veruleika. Og enn sorglegra að ekkert af þessu rati í fjölmiðlar.

Úrsúla Jünemann, 16.6.2010 kl. 08:23

4 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Þetta eru sláandi myndir Ómar. Það má segja að örlagavindar blási um Kárahnjúka.  Sjá hér. Getur verið að þögnin stafi af fábreytni í fjölmiðlaflórunni hérlendis? Öflugasti fjölmiðillinn er t.d. rekinn af ríkisvaldinu og er því beinn hagsmunaaðili, á allt sitt undir velvilja stjórnmálamanna, annar er hallur undir ákveðna stjórnmálahreyfingu. Fjölmiðlun virðist líka almennt séð ekki vera hagkvæm þegar til lengdar lætur hérlendis og hún líður fyrir það.

Þessu hlýtur að þurfa að breyta, sjá t.d. hér

Ragnar Geir Brynjólfsson, 16.6.2010 kl. 09:29

5 Smámynd: Sævar Helgason

Hefur þessa leirfoks ekkert gætt á Héraði ?  Það heyrist ekkert þaðan um þessi rykvandamál. Fróðlegt væri að frétta af því.

 Þessar myndir Ómars sýna það að þeir svartsýnu á leir og sandfokið þarna yfir sumartímann eftir Kárahnjúkavirkjun- voru raunsæir. Þessi sandur og leir breiðir síðan úr sér og víðátta uppfokslandsvæðisins margfaldast með árunum.

Svæðið mun leggjast af sem ferðamannsvæði. Það verður of áhættusamt að leggja leið sína þarna um að sumarlagi-vegna sand og leirfoks þegar bestu ferðadagarnir eru í boði. Við finnum fyrir gjóskunni frá Eyjafjallajökli um sinn- en þarna norðan Vatnajökuls vex vandinn með hverju ári.

Sævar Helgason, 16.6.2010 kl. 10:02

6 identicon

Ómar, er nokkuð hægt að leysa þetta vandamál? Verður þetta ekki alltaf svona á meðan virkjunin er þarna? Spyr sá sem ekki veit.

albert (IP-tala skráð) 16.6.2010 kl. 10:22

7 identicon

Önnur glæsileg arfleifð hrunstjórnarinnar. Frábær gjöf til komandi kynslóða!

Takk Sjálfstæðisflokkur, takk Framsóknarflokkur, takk Samfylking, takk Landsvirkjun og síðast en ekki síst; takk álver fyrir að bjóða ekki bara upp á spennandi og mannbætandi störf við málmbræðslu og málmsteypu heldur fyrir að gera ferðalög um landið svona miklu meira spennandi!

Tóti (IP-tala skráð) 16.6.2010 kl. 10:25

8 identicon

Sævar, kannski erum við bara ennþá í afneitun hérna fyrir austan. En maður hefur tekið eftir því að það er meira ryk í loftinu hérna núna. En það er eitt sem ég fæ ekki skilið. Og það er að það er ekkert skrifað um þennan vinnustað sem á að verða besti vinnustaður í heimi, álverið. Góður vinnustaður hefur ekki 25% starfsmannaveltu (almennir starfsmenn) á ári. Þetta á ekki við um silkihúfur og aðra yfirmenn, þeir hafa það flott. Búið að rusla allri ábirgð niður eftir línunni og á hinn almenna starfsmann(þræl). Ef hinir fyrrverandi starfsmenn fjarðaráls (eru ansi margir) myndu tjá sig yrði það sennilega ansi krassandi frásagnir.

Alex (IP-tala skráð) 16.6.2010 kl. 11:16

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Seint í ágúst er Hálslón að verða fullt og þá er komið vatn yfir leirfokssvæðin. En það er seint í rassinn gripið.

Það fékkst aldrei í gegn að ferðaþjónustan og stóriðjan fengu að keppa á jafnréttisgrundvelli um þetta svæði. 

Ferðaþjónustan hefði átt að fá að spreyta sig fyrst í 10-20. Lagður hefði verið núverandi Kárahnjúkavegur og gerð litla brúin yfir Jöklu fyrir innan Kárahnjúka og net göngustíga um Hjalladal, með Hafrahvammagljúfrum og um svæðið. 

Þessi kostur hefði ekki kostað óafturkræf umhverfisspjöll og ef þetta hefði ekki gengið mátti athuga stóriðjukostinn. 

Stóri munurinn á virkjunarkostinum og því að nýta svæðið ósnortið er sá að virkjunin eyðíleggur ferðaþjónustumöguleikana, gagnstætt því sem haldið var fram og aldrei verður aftur snúið. 

Með því að virkja er ákvörðunarvaldið tekið af komandi kynslóðum en með því að virkja ekki stóðu hverri kynslóð á eftir okkur til boða að ganga þá eyðileggingarbraut sem við kusum að taka á kostnað allra sem lifa í þessu landi á eftir okkur. 

Ómar Ragnarsson, 16.6.2010 kl. 14:51

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ómar, í fyrra sýndirðu myndir af leirfoki og fullyrtir að þetta væri vegna Hálslóns. Staðreyndin var önnur og þrátt fyrir að þú vissir það, reyndir þú að telja almenningi trú um annað. Þú virðist ekki hika við að hnika til sannleikanum í hamslausum áróðri þínum. Gerfitunglamyndir sýndu að upptök leirfoksins voru vestan Hálslóns en það litla sem fauk úr lónsstæðinu hafði lítil sem engin áhrif.

Leirfok hefur verið þekkt vandamál alla tíð hér eystra og auðvitað löngu fyrir tíð Hálslóns. Ég skal ekkert fullyrða um það hvaðan þetta leirfok kemur, sem þú sýnir á þessum myndum, en því miður er ekki hægt að taka eingöngu þín orð trúanleg hvað það varðar. Reynslan af málflutningi þínum sýnir það.

Ekkert leirfok hefur borist niður í Reyðarfjörð þetta árið, og raunar frekar lítið eftir að Hálslón varð til.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.6.2010 kl. 15:12

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Og varðandi lygabullið í þér um ferðamenn á svæðinu, þá ættirðu að kynna þér þau mál betur hjá Landsvirkjun.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.6.2010 kl. 15:14

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er hreint ótrúlegt að þú skulir voga þér að fullyrða að myndirnar sem sýndar voru í Sjónvarpinu af sandfokinu á sínum tíma, bæði mínar myndir og myndir starfsmanna RUV fyrir austan, hafi verið falsaðar.

Og gefa auk þess í skyn að ljósmyndir mínar og kvikmyndir núna séu falsaðar. 

Ég hef fengið upphringingar frá fólki sem hefur séð sandfokið úr Fokkervél Flugfélagsins en auðvitað er það allt "bull". 

En þetta ætti ekki að koma mér á óvart. Þegar einu sjónvarpsfréttirnar þar sem leirfokið var sýnt, komu á skjáinn, var strax hringt inn til RUV á Egilsstöðum og fullyrt að leirfokið væri vegna þess að það væri svo gífurlega mikil bifreiðaumferð þarna á vinsælasta ferðamannasvæði Austurlands, að rykmekkirinir þyrluðust til himins ! 

Þetta er hámark afneitunar sem er þvert á upplifun starfsmanna Landgræðslunnar og annarra sem þarna hafa verið.

Ég á líka kvikmyndaskeið af leirfokinu, bæði núna og þá, sem ber algerlega saman við ljósmyndirnar sem ég tak jafnharðan. 

Eða hvers vegna í ósköpunum heldurðu að eytt sé tugum milljóna í það að reyna að rannsaka og berjast við þetta óviðráðanlega sandfok á hverju sumri ef það er ekki til staðar ? 

Ég hef flogið yfir svæðið þarna tvívegis á síðustu dögum og ekki séð einn einasta mann á ferli þrátt fyrir eindæma hlýindi og sólskin dögum saman, bæði um helgar og á virkum dögum og tilvist eina malbikaða vegarins sem liggur upp á norðurhálendið og er fær á þessum árstíma. 

Nema allur ferðamannastraumurinn hafi verið falinn inni í sandfokinu? 

Ómar Ragnarsson, 16.6.2010 kl. 15:52

13 identicon

Þetta er skelfilegt að sjá. Ekki síður skelfilegra að lesa svona skítakomment frá Gunnari Th. Gunnarssyni. Því miður er til fólk sem neitar að horfast í augu við hlutina líkt og fólkið sem neitaði á sínum tíma að horfast í augu við voðaverk nasista í síðari heimstyrjöldinni þó svo að staðreyndirnar væru augljósar umheiminum.

 Takk fyrir að sýna okkur þetta, Ómar.

Ellert Grétarsson (IP-tala skráð) 16.6.2010 kl. 15:55

14 identicon

Ómar Ragnarson - samviska þjóðarinnar. 

Örn (IP-tala skráð) 16.6.2010 kl. 19:47

15 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég er ekki að fullyrða eitt né neitt sjálfur, heldur einfaldlega að benda á að bæði veðurfræðingur og fleiri bentu á það í fyrra að staðhæfingar þínar um að leirfokið sem var þá, væri ekki frá Hálslóni komið. Þetta veistu sjálfur Ómar, nema þú sért farinn að kalka.

En það eru fleiri en þú Ómar, sem telur að málstaður alverndunarsinna sé svo góður að hann réttlæti bull og ýkjuáróður.

Með þessu er ég ekki að fullyrða að ekki geti komið upp aðstæður þar sem leirfok verði vandamál úr lónsstæðinu, en það hafði samt einfaldlega ekki orðið að neinu vandamáli í fyrra, eins og þú sagðir frá, í óskhyggju þinni hér á blogginu.

Varðandi ferðamenn á svæðinu, þá endurtek ég það sem ég sagði í fyrri athugasemd minni hér: Kynnið ykkur staðreyndir varðandi ferðamannastraum á svæðið undanfarin þrjú ár.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.6.2010 kl. 19:49

16 identicon

Hrikalegar myndir Ómar! Já maður var búinn að frétta að þetta væri slæmt þarna uppfrá núna; sést ekki í Kárahnjúkinn frá stíflunni! Við fáum leirfok niður á Hérað á hverju sumri og það vex bara því þetta er skást þarna fyrstu árin en svo bara versnar það, og það er ekki spurning að þetta rýrir lífsgæði á Fljótsdalshéraði. Ótal raddir vöruðu við þessu en þessi virkjun var keyrð í gegn í dauðans ofboði með lygum og blekkingum ábyrgð þeirra sem að stóðu er þung. Að búist hefði verið við leirfoki niður á Reyðarfjörð hef ég ekki heyrt, en þar er mengunin; hún er ósýnileg.

Gréta Ósk Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 16.6.2010 kl. 19:54

17 identicon

Það er varla hægt að taka fullt mark á tölum um ferðamannastraum. Margir , þar á meðal ég fóru með hálfum huga þarna uppeftir til að líta eyðilegginguna augum. Engan veit ég um sem langar að sjá þetta aftur. Af hverju er engin uppbygging í gangi fyrir ferðamanna"strauminn"? Ef það er grundvöllur fyrir hóteli í Djúpuvík hlytur að vera grundvöllur fyrir sjoppu á Kárahnjúkum eða hvað?

Hrönn (IP-tala skráð) 16.6.2010 kl. 20:04

18 identicon

Samfylkingin, flokkur Ómars Ragnarssonar sem Íslandshreyfingin rann inn í, studdi gerð Kárahnjúkavirkjunar. Höldum því bara til haga. Ómar styður þá sem ollu þessum harmleik. Þetta eru hræðilegar ljósmyndir.

Jón J. (IP-tala skráð) 16.6.2010 kl. 20:34

19 identicon

Takk fyrir þessar myndir Ómar. Þær segja manni mikið og gott að þetta fór á Eyjuna þannig fréttist þetta víðar.

Þröstur Sverrisson (IP-tala skráð) 16.6.2010 kl. 21:27

20 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Gunnar Th. er auðvitað sár að þessi draumur sem virkjana- og stóriðjuframkvæmdir var hjá Austfirðingum skuli hafa snúist upp í þessa martröð.  Þessi afneitun hans er því mannleg en dónaskapurinn óþarfur.

Ég vil þó segja Gunnari það að ég fylgdist ágætlega með undirbúningi þessara framkvæmda sem sveitastjórnarmaður á Héraði og í raun var allt þetta fyrirséð.  Náttúruspjöllin, fokið, alvarleg áhrif á efnahag þjóðarinnar og hversu vonlaus byggðaaðgerð þetta var og dæmt til að mistakast. 

En Austfirðingar margir hverjir vildu ekki hlusta eða lesa og setja eðlilega kíkinn nú fyrir blinda augað eftir allt sem á undan er gengið.  En dónaskapurinn er þó óþarfur.

Jón Kristófer Arnarson, 16.6.2010 kl. 22:03

21 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Gunnar Th. skrifaði: "Ég skal ekkert fullyrða um það hvaðan þetta leirfok kemur, sem þú sýnir á þessum myndum..."

Á myndinni af téðum Gunnari má sjá mann með gleraugu. Sennilega þarf hann að fara að fá sér ný því ljóst er á ofangreindu kommenti að maðurinn sér ekki hálfa sjón.

Haraldur Rafn Ingvason, 16.6.2010 kl. 22:29

22 identicon

Skelfilegar myndir, þetta vissu landráðamennirnir og mestu landníðingar Íslandssögunar, þegar þeir ákváðu að hefjast handa við mesta umhverfishryðjuverk í sögu Íslands. Mikil er skömm þessara drullusokka sem börðu þetta í gegn. Fyrst gáfu þeir vinum sínum fiskinn okkar, svo eyðileggja þeir stóran hluta af Vesturöræfum til að ganga erinda verktaka sem þurfa að græða.

Kárahnjúkavirkjun er mestu mistök Íslandssögunnar og minnisvarði um heimsku og græðgi.

Stefán Þórsson (IP-tala skráð) 16.6.2010 kl. 22:33

23 identicon

Mikið var nú fyrirsjáanlegt að leigubílstjórinn frá Reyðarfirði kæmi hér gjabbandi með sín litlu digurmæli.

Jóhann (IP-tala skráð) 16.6.2010 kl. 22:36

24 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Jón Kristófer snýr öllu á haus eins og fyrri daginn. Merkilegt að svona viðundur skyldi fá brautargengi í pólitík á Héraðinu.

Sem fyrr er vonlaust að ræða þessi mál við fólk sem fyrirfram ákvað strax í upphafi að þessar framkvæmdir væru vonlausar og skiluðu engu í byggðalegu og efnahagslegu tilliti. 

Gréta Ósk Sigurðardóttir, myndlistarkona, segir: "Að búist hefði verið við leirfoki niður á Reyðarfjörð hef ég ekki heyrt, en þar er mengunin; hún er ósýnileg."

Í fyrsta lagi þekkir hún, Héraðsbúinn, greinilega ekki til hvernig umhorfs hefur verið niður á fjörðum í þurrum og hlýjum SV-áttum, en það er svosem allt í lagi. "Væntumþykja til manneskjunnar einsog hún er; stundum ofur hátíðleg í amstri hversdagleikans, stundum í djúpum pælingum um tilveruna."  , eins og hún segir í einni sýningarskráa sinna, er afskaplega hjartnæmt.... eða hvað?

Hún talar um mengun sem ekki sést, á Reyðarfirði. Skildi hún hafa kynnt sér eitthvað um þessi mál, eða er þetta enn ein fyrirfram ákveðin skoðunin?

Einhver "Hrönn" tjáir sig hér og vill sjoppu við Kárahnjúka. Ég hef ekki séð sjoppur spretta upp á hálendinu. Þeim sem þekkir til veðráttunnar við Kárahnjúka dytti aldrei í hug að setja upp sjoppu þarna, því ekki væri hægt að hafa opið nema endrum og sinnum, örfáa daga á ári. Sniðugur bisness það!

Vissulega getur veðrið verið þarna með ágætum, dag og dag, en oftast er þarna kalsa veður, enda svæðið í yfir 600 m. hæð.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.6.2010 kl. 22:47

25 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Ég nú ekki að snúa neinu á haus Gunnar minn.  Einungis að segja þann sannleika sem þér er svo mein illa við.

Jón Kristófer Arnarson, 16.6.2010 kl. 22:54

26 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Gunnar Th. skrifaði m.a:"Merkilegt að svona viðundur skyldi fá brautargengi í pólitík á Héraðinu."

Ósköp er þessi Gunnar ör til orðsins. Maður veltir fyrir sér hvort hanni ætti kannski að láta kíkja á eitthvað fleira en sjónina...

Hins vegar virðist á þessum myndum að margumtalaðar mótvægisaðgerðir gegn fyrirsjáanlegu foki úr lónstæðinu hafi komið að nákvæmlega jafn miklu haldi og "sérfræðingarnir fyrir sunnan" spáðu = Engu!

Haraldur Rafn Ingvason, 16.6.2010 kl. 23:28

27 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Haraldur Rafn, það var kannski ekki síst þetta sem var svo slæmt við þessar framkvæmdir  (að hagstjórnarmistökum og náttúruspjöllum meðtöldum) hvernig þetta eitraði allt samfélagið.  Menn ákváðu hreinlega að kynna sér ekki málið og allir þeir sem spurðu eða settu spurningarmerki við þetta voru viðundur og óvinir Austurlands. 

Það er auðvitað ekkert skrítið að menn eins og Gunnar Th. eigi erfitt með að sætta sig við það hvernig allt hið versta hefur ræst í sambandi við þessar framkvæmdir og grípi til gamalla vopna rökþrota manna.  En við skulum virða honum það til vorkunnar að það er auðvitað ekki auðvelt að sjá allar sínar hugsjónir afhjúpast sem villigötur og ranghugmyndir.  Þarna á Gunnar auðvitað sérstaklega erfitt verandi Sjálfstæðismaður í ofanálag.  Þessi viðbrögð hans eru því í raun bæði eðlileg og fyrirsjáanleg.

Jón Kristófer Arnarson, 16.6.2010 kl. 23:38

28 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Ég vil þó taka það fram að íbúar Austurlands eru upp til hópa hið besta fólk og einfeldningar og dónar eru undantekningar en ekki regla.  Nóg er nú víst samt búið að skaða ímynd Austfirðinga.

Jón Kristófer Arnarson, 16.6.2010 kl. 23:42

29 identicon

Satt best að segja vissi ég ekki að leirfokið væri það sama niðri á fjörðum og það er hér uppi á Héraði, en þá mun hinn bitra staðreynd um vaxandi leirfok og rýrnandi lífsgæði líka renna upp fyrir þeim sem búsettir eru á Reyðarfirði.

Gréta Ósk Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 16.6.2010 kl. 23:43

30 identicon

Takk kærlega Sjálfs-framsóknarflokkur.

Valsól (IP-tala skráð) 17.6.2010 kl. 00:52

31 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Verð að segja að menn sem ganga svo langt að halda því fram að Ómar sé að ljúga að fólki eru um leið að dæma sig úr umræðunni. Held að menn ættu að skoða fréttamannsferil Ómars þar sem hann lagið sig fram um að segja frá báðum sjónarmiðum sem og í bókum sem hann hefur skrifað um umhverfis og  virkjunarmál. Það vita allir hvaða skoðun Ómar hefur og ólíkt mörgum hefur hann eytt bæði miklum tíma og peningum í að sanna sitt mál. Og viti menn oftar en ekki hefur hann rétt fyrir sér á endanum. T.d. man ég eftir að hann fór að ræða um að jarðhiti á Reykjanesi væri takmörkuð auðlind löngu áður ég heyrði aðra tala um það og nú er komið í ljós að menn eru komnir að ystu mörkum þess sem hægt er að nýta þarna sjálfbært eða jafnvel farnir að virkja það mikið að það svæði verði ekki svipur áð áratugum liðunum. Og þá komi til að vanta þá orku sem búið er að selja þaðan til stóriðju. Í það minnst er full þörf að fylgjast með þarna upp á Kárahnjúkum og reyna að hefta þetta moldrok núna strax eins og var lofað þegar lónið var skipulagningu.

Magnús Helgi Björgvinsson, 17.6.2010 kl. 09:12

32 identicon

Verð að segja að Gunnar Th. er neikvæðasti bloggari sem ég hef rekist á og svo frámunalega dónalegurgagnvart fólki að hann leifir sér hiklaust að kalla fólk lygara og ómerkinga.

Held að hann ætti að líta í eigin barm og skoða hvers vegna engin vildi versla við hann í gróðrastöðini

sem hann rak í smá tíma í Reyðarfirði, ég er ófeimin við að segja það að Ómar Ragnarsson er ólíkt bæði skemmtilegri, fróðari, og heiðarlegri, en þú hr. Gunnar Th. leiðinlegi.

Bíbí Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 17.6.2010 kl. 10:32

33 Smámynd: Árni Gunnarsson

"Sárt bítur soltin lús."

Þú verður ekki að velli lagður Ómar en fróðlegt er að sjá hversu sannleikurinn verður alltaf óbærilegur þegar bent er á mistök stjórnvalda sem þráfaldlega var þó varað við.

En hversu stutt er þangað til að það verður of seint að stofna stjórnmálasamtök- ein enn - til að stöðva vitfirringuna sem hér hefur þróast undangengin ár og ekki sér ennþá fyrir endann?

Það var kannski óbætanlegt slys hvernig fór með Íslandshreyfinguna.

Árni Gunnarsson, 17.6.2010 kl. 10:57

34 Smámynd: Guðmundur Guðmundsson

Þetta eru svakalegar myndir. Ósjálfrátt óskar maður þess að þær hafi verið teknar á sérlega slæmum degi.

Er nokkur óháð rannsókn í gangi til þess að meta breytinga á foki fyrir og eftir virkjun? Er það allt í höndum Landsvirkjunnar?

Guðmundur Guðmundsson, 17.6.2010 kl. 14:24

35 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Er þetta Bíbí "sjáandi, miðill og kuklari", öðru nafni "loddari" sem bjó hér á Reyðarfirði um skeið, sem talar svona hlýlega til mín? 

Skrítið að hún skyldi ekki sjá það fyrir þegar brann ofan af henni hér. Bíbí leiddi flokk "Humanista" í sveitarstjórnarkosningum. Hún sá það ekki heldur fyrir að atvkæðin upp úr kjörkössunum voru færri en meðmælin sem þurfti til að mega bjóða fram.

Það er afar sérstakt  kommentið hjá henni um mig og fyrirtæki mitt sem ég rak í fjögur sumur, með 3-4 starfsmenn. Það er erfitt að ímynda sér að þetta komi frá kerlingu á sjötugs aldri.  Líkist meira frá 10 ára krakka.

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.6.2010 kl. 18:17

36 Smámynd: Pétur Kristinsson

Gunnar. Prófaðu að vera málefnalegur í stað þess að svara með fúkyrðum og án þess að kalla fólk lygara og viðundur. Þá væri eflaust frekar hlustað á þig.

 Veit ekki betur en að bent hafi verið á þessa hættu löngu áður en að hálslón fylltist og þetta er vandamál sem landsvirkjun verður að gera eitthvað í.

Þú ættir að bera meiri virðingu fyrir Ómari þar sem leitun er að manni sem hefur gert annað eins fyrir Ísland hvað varðar landkynningu og sýnt okkur mannlíf sem þjóðin hefði eflaust ekkert vitað af ef ekki væri fyrir eljusemi þessa manns. Ég á mjög erfitt að ímynda mér að hann sé lygari eins og þú heldur fram þar sem hann er ekki bundinn einhverjum flokkspólitískum ástæðum til þess að halda sínum málum fram eins og sumir.

Pétur Kristinsson, 17.6.2010 kl. 20:52

37 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Verndunarástríðan hleypur stundum með menn í gönur.

En ég get vel tekið undir hjá þér að: "...leitun er að manni sem hefur gert annað eins fyrir Ísland hvað varðar landkynningu og sýnt okkur mannlíf sem þjóðin hefði eflaust ekkert vitað af ef ekki væri fyrir eljusemi þessa manns.".

Ég ber virðingu fyrir Ómari, hann er snillingur á sumum sviðum. Og svo er hann líka skemmtilegur.... ólíkt mér

Gunnar Th. Gunnarsson, 18.6.2010 kl. 00:33

38 identicon

tak firir mindirnar ,Omar tad er sat ad tad var buid ad vara vid tessu eg heirdi pabba oft tala um ad tetta mindi gerast hann bir a heradi ,eg get ekki sagt ad eg beri virdingu firir Gunnari eftir ad hafa lesid tetta alt saman en Omar hefur margoft sannad sig og er ad minu aliti ondvegis madur 

Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 18.6.2010 kl. 08:53

39 identicon

Fýkur fokið, grátt og reitt,

er feiknar veldur skemmdum.

Náttúran nærist ekki neitt,

en nær fram hefndum.

Steina (IP-tala skráð) 18.6.2010 kl. 09:40

40 identicon

Kæru bloggarar.

Leitt er að sjá þegar rykið þyrlast enn harðar upp í afneitun, heldur rykið sjálft.

Muni ég rétt:

Ómar fór þennan dag frá Hvolsvelli, og náði algerum snilldarmyndum úr gíg Eyjafjallajökuls. Svo norður um til að ljósmynda, en var frá að hverfa vegna rykstorma og skyggnisleysis svo best ég veit. Svo um kvöldið var kallinn kominn í Hrútafjörð. Geri aðrir betur er skyggna vilja landið, og það á skömmum tíma, en löngum vinnudegi.

Ég er búinn að sjá fjúkið og efnið yfir Tindfjöllum vegna fíngerðrar ösku úr Eyjafjallajökli. Það svona dettur úr manni eitt hjartaslag að sjá að þetta er meira fok.  ef eitthvað er, þarna austur frá.  Og fyrir upprunann þarna verður ekki þrætt, og argasta ósvífni að gefa í skyn að þarna sé um e.k. fölsun að ræða, sbr. setninguna "Þú virðist ekki hika við að hnika til sannleikanum í hamslausum áróðri þínum"

Ég held að Ómari sé ekki nein hamingja í því fólgin að spá hans (og annara fróðra manna) um þetta væntanlega vandamál skuli hafa ræst. Þvert á móti. 

Leiðinlegast er þó að sjá svona ofstækisfulla afneitun.

Jón Logi (IP-tala skráð) 20.6.2010 kl. 14:31

41 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Hvernig væri nú að fólk læri að ræða hluti af yfirvegun án þess að fara í persónuleg rifrildi. Staðreyndir tala nægu máli. Og nauðsynlegt er að vinsa úr það sem eru ágiskanir, ýkjur eða uppspuni.

Efast einhver um að fok sé úr Hálslóni? Myndir þínar, Ómar, sýna það nokkuð augljóslega og ég hvet þig til að taka fleiri myndir. Blogg er líka ágætis staður til að koma þessu á framfæri, hér verða myndir og skrif aðgengileg næstu áratugina, vonandi. Og ekki verra að láta vindátt og hraða fylgja með tímasetningu myndanna.

Ein spurningin er sem sagt þessi, hversu mikið af sandfokinu fyrir austan er úr Hálslónsbökkum og hvenær og við hvaða aðstæður. Og hversu mikið af því sem fer í byggðir er annað hálendisfok sem hefur verið viðvarandi vandi fyrir austan í einhver árhundruð. Landeyðing er gamalt vandamál og nauðsynlegt að aðskilja hvað er hvað. Varað var við sandfoki og nú er eðlilegt að meta hversu mikið það er, þá koma svona myndir að góðu gagni.

Önnur spurningin er rökrétt framhald; Ef þetta er svona stórt vandamál, hvað sé hægt að gera í þessu. Eru einhverjar haldbærar hugmyndir?

Átak gegn foki er margfalt stærra en meðfram lónsbökkunum.

Er svo einhver með linka á þessar gervitunglamyndir sem mig rámar í að hafa séð í fyrra?

Kv. Ólafur

Ólafur Þórðarson, 20.6.2010 kl. 14:57

42 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er nú varla hægt að tala um að ég sé í einhverri afneitun varðandi leirfok úr Hálslóni. Ég afneita því hvergi að það geti ekki átt sér stað. Ég var hins vegar að benda á að þetta sérstaka áhugamál Ómars, og jafnvel hans eina von, um að eitthvað af hans dómsdagsspám rætist, hafi ekki verið rétt hjá honum í fyrra. Því skyldi það vera rétt núna?

Það er mikil "hysteria".... geðshræring, í sumu fólki hérna. Ekki er ólíklegt að þetta fólk sé haldið svo kölluðum "Vistkvíða", en vistkvíði er tiltölulega nýlega viðurkenndur sjúkdómur af Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni og er í flokki "andlegra"  (geðrænna) sjúkdóma.

Smá upplýsingar frá fyrstu hendi, ættu varla að drepa ykkur. Þeir sem þurfa að glíma við vandamálin, geta væntanlega helst uppfrætt okkur um hvað vandamálið sé og hvað sé verið að gera í því.

"Ekki hefur enn komið til þess að áfok hafi átt sér stað úr Hálslóni þar sem sandur fýkur yfir gróðursvæði. Uppfok, þar sem fínefni eins og mold og leir þyrlast upp, hefur hins vegar reglulega átt sér stað í hvassviðri. Landsvirkjun fylgist með uppfoki og þróun þess, en aðgerðir fyrirtækisins takmarkast við mótvægisaðgerðir gegn áfoki. Uppfok fínefna þekkist víða á hálendinu og er ekki talin vera orsök gróðureyðingar.

Mest er hætta á uppfoki og áfoki í júnímánuði, en þá er jarðvegur í lónstæði þurr og vatnsborð hefur ekki náð hámarki. Fram í byrjun júní er lónstæðið þakið ís svo lítil hætta er á uppfoki fram að því. Í júlíbyrjun er staða vatnshæðar í lóninu orðin þannig að hættan á uppfoki minnkar að nýju.

Áfoksvarnir við Hálslón krefjast samfelldrar rannsóknarvinnu og aðgerða þar sem stöðugt þarf að afla aukinnar þekkingar til að finna öflugar áfoksvarnir og endurbæta þær. Mótvægisaðgerðir gegn áfoki hafa fram til þessa verið tvenns konar. Annars vegar mannvirki, þ.e. sandgryfjur og fokgirðingar, og hins vegar jarðvegsbinding. Í samstarfi við áðurgreinda aðila hefur verið unnið að tilraunum með jarðvegsbindingu og líffræðilegar mótvægisaðgerðir svo sem bikþeytu, ræktun melgresis og styrkingu gróðurs á bökkum Hálslóns.

Það svæði sem mestur sandur safnast saman á strönd Hálslóns er beggja megin Kringilsár. Síðast liðið sumar voru settar upp fokgirðingar á svæðinu sem hindra eiga útbreiðslu sands og eru samtals 2,9 km langar. Ekki hefur reynt á fokvarnir almennt síðast liðin tvö sumur þar sem veðurfar hefur verið stillt og ekki hefur gert verulegt rok sem eykur hættu á áfoki. Landsvirkjun mun halda áfram að sinna rannsóknum, tilraunum og eftirliti við Hálslón til þess að tryggja að gróðureyðing af völdum áfoks úr lónbotni muni ekki eiga sér stað. Jafnframt, komi til gróðurskemmda, að endurheimta þann skaða sem hugsanlega gæti átt sér stað. ( http://www.landsvirkjun.is/frettir/frettasafn/nr/1153 )

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.6.2010 kl. 17:55

43 identicon

Gunnar kallinn:

Þetta frá þér:

"þetta sérstaka áhugamál Ómars, og jafnvel hans eina von, um að eitthvað af hans dómsdagsspám rætist"

vs þetta frá mér (á undan):

 "Ég held að Ómari sé ekki nein hamingja í því fólgin að spá hans (og annara fróðra manna) um þetta væntanlega vandamál skuli hafa ræst. Þvert á móti. "

...finnst mér bara ansi slappt hjá þér.

Og svo, varðandi upplýsingar frá fyrstu hendi, þá teflirðu þeim fram frá Landsvirkjum. Vissulega þeim sem þurfa við þetta að kljást, þeim sem sögðu að þetta yrði ekkert vandamál, og hafa af því beina hagsmuni að sem minnst sé a þetta minnst.

Myndirnar frá Ómari tala sínu máli og verða ekki dregna í efa með einhverjum rökum eða cur & paste frá vef landsvirkjunar. Þær eru frá fyrstu hendi, frá aðila sem hefur hingað til haft neikvæða hagsmuni af sinni umfjöllun um allt móverkið þarna austurfrá, og ég er fullviss að þórðargleði yfir aurfokinu er ekki til staðar.

Jón Logi (IP-tala skráð) 20.6.2010 kl. 20:28

44 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

En svo veltir maður því óhjákvæmilega fyrir sér hverju lítilsháttar fínefnafok breytir   Á ekki að vera búið að eyðileggja þetta svæði hvort eð er?

Aðal atriðið er að EKKERT áfok hefur átt sér stað þar sem sandur fýkur yfir gróðursvæði. Þetta staðbundna moldar og leirfjúk við Kárahnjúka, og sem víða á sér stað á hálendi Íslands, er ekki að valda mystri, hvorki á Héraði né á fjörðum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.6.2010 kl. 03:11

45 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þarna átti að standa: En svo veltir maður því óhjákvæmilega fyrir sér hverju lítilsháttar fínefnafok breytir í 3-4 vikur á ári. Á ekki að vera búið að eyðileggja þetta svæði hvort eð er?

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.6.2010 kl. 03:13

46 Smámynd: Helena Mjöll Jóhannsdóttir

Ómar, gott að þú ert svona duglegur að upplýsa okkur um þessi mál. En ég tek undir spurningar Sævars Helgasonar hér fyrir ofan, hafa þeir á Hérðai ekki orðið þessa varir? En ég kem nú til með að athuga það þegar ég fer í heimsókn heim á Seyðis seinna í sumar.

Helena Mjöll Jóhannsdóttir, 27.6.2010 kl. 02:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband