Gamall og nýr vandi stjórnarþátttöku.

Stjórnmálaflokkar eiga oft erfitt með að fóta sig þar sem ekki er hægt að stjórna án þess að til komi samsteypustjórnir, einkum þegar stærðarmunur er á flokkunum sem í stjórn eru.

Vill þá oft magnast kurr í minni flokknum sem endar með því að hann bíður mikinn ósigur eða klofnar, nema hvort tveggja sé. 

Íslensk saga geymir mörg dæmi um það sem kann að gerast nú hjá Vinstri grænum.

Eftir að Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur höfðu farið með stjórn landsins á fjórða áratugnum klofnaði Alþýðuflokkurinn og bar þess ekki barr áratugum saman. 

Í samstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 1950 til 1956 magnaðist óánægja innan Framsóknarflokksins uns hann sleit stjórninni.

Stjórnarsamstarfið í vinstri stjórninni 1956-58 varð til þess að Alþýðuflokkurinn beið afhroð í bæjarstjórnarkosningum 1958 og stjórnin sprakk í árslok eftir dauðastríð, sem hófst um sumarið. 

Eftir 13 ára samstarf um stjórn landsins í Viðreisnarstjórninni var svo komið að Alþýðuflokkurinn klofnaði og beið síðan svo mikinn ósigur að stjórnin féll. 

1978 töpuðu þáverandi stjórnarflokkar, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur, meirihluta sínum og var afhroð Framsóknarflokksins sýnu verra.

1994 klofnaði Alþýðuflokkurinn enn og aftur eftir stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum og  veiktist svo mjög í kosningum eftir að stjórnarsamstarfið rofnaði þrátt fyrir eins þingmanns meirihluta.

Svipað gerðist eftir tólf ára slímsetu samstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þegar Framsókn galt enn verra afhroð en 1978 og stjórnarsamastarfið rofnaði þrátt fyrir eins þingmanns meirihluta.

Ævinlega er það minni flokkurinn í samstarfinu sem á í hlut í þessum dæmum eins og eðlilegt er, vegna þess að þrátt fyrir tal um jafnan hlut sem stundum hlaut heitið "helmingaskipti" var sá flokkurinn sterkari sem var stærri, ekki hvað síst ef hann var í ofanálag nær miðju litrófsins hægri-vinstri.

Og nú er spurningin: Bætist nýtt nafn við í þessa nafnarunu flokka, sem hafa orðið til við klofning vegna óánægju í stjórnarsamstarfi við stærri flokk:

Kommúnistaflokkur Íslands 1930, Sameiningarflokkur alþýðu - sósíalistaflokkurinn 1938, Samtök frjálslyndra og vinstri manna 1970, Bandalag jafnaðarmanna 1987, Þjóðvaki 1994? 


mbl.is Draumsýn að flokkurinn lifi af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn ekki komið lengra, - eftir 19 ár.

Við myndun Viðeyjarstjórnarinnar, 1991, þegar þeir Davíð og Jón Baldvin settust út í eyna sem afar sterkir formenn sinna flokka og voru snöggir að því að ná samkomulagi um stjórnarsáttmála, reyndist aðeins eitt atriði erfitt, - sú krafa krata að auðlindir lands og hafs yrðu sameign þjóðarinar. 

Þótt það tækist að setja þetta inn í stefnuskrána varð þetta að sífelldu bitbeini og er það enn í dag. 

Nú virðist jafnvel enn erfiðara að koma þessu í framkvæmd, enda er ásókn erlends auðmagns í auðlindir okkar sífelld og vaxandi og viðnámsþróttur okkar jafnframt minnkandi. 

Þegar samið er um það að eitt stórfyrirtæki fái alla orku heils landshluta á silfurfati í formi sölusamnings sem útilokar alla aðra eins og gerðist með Kárahnjúkavirkjun og stefnt er að með álveri á Húsavík, er orkuauðlindin í raun afhent hinum erlenda aðila og það á spottprís til þess að efna loforðið í betlibæklingi íslenskra stjórnvalda þar sem lofað var "lægsta orkuverði og sveigjanlegu mati á umhverfisáhrifum." 

Nú er búið að afhenda útlendingum HS orku og í raun alla þá orku á Suðvesturlandi sem finnanleg verður með því að selja þeim orkufyrirtækið beint og blygðunarlaust. 

Nú er bara að bíða og sjá hve mikið verður látið í viðbót til útlendinga á 200 ára afmælisári Jóns forseta. 

Orð eru til alls fyrst, segir máltækið, og það má alveg hlusta eftir því hverjir halda uppi merkjum eignarhalds Íslendinga á auðlindum sínum og hverjir þegja um það þunnu hljóði. 

En orðin nægja ekki, - verkin verða að tala. 


mbl.is Auðlindir verði almannaeign
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. júní 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband