Jafn hættulegt og ölvun.

Svefn undir stýri er hugsanlega jafn hættulegt ástand og ölvun og slysin af völdum sofandi ökumanna fleiri en upplýst er um vegna þess að í blóðsýni er hægt að sjá hvort viðkomandi hafi verið ölvaður, en ekki hvort hann hafi sofnað undir stýri.

Það þarf að gera jafn mikið átak í að minnka þessa hættu og að koma í veg fyrir ölvunarakstur, - nú þegar! 

Höfuðástæðan er sú að ef ökumaður sofnar undir stýri og sveigir í veg fyrir umferð á móti, hlýst af umferðarslys af verstu gerð, árekstur tveggja bíla, sem koma úr gagnstæðri átt. 

Nokkrar staðreyndir þarf að auglýsa rækilega: 

1. Hitinn í bílnum virkar svæfandi. Því minni hiti, því minni hætta á að sofna.Þetta sést vel ef menn gera loftið kalt í bílnum, opna gluggann eða stinga höfðinu út um hann. Stundum hressast menn við að stöðva bílinn, fara út og fríska sig nokkrar mínútur og halda síðan áfram. En þetta getur veitt falskt öryggi því að líkaminn kallar samt á svefn. 

2. Ef ökumaður er þreyttur eða vansvefta þegar hann hefur akstur, ætti hann að hafa sérstakan vara á og helst að hætta við að aka, nema að fresta ferðinni og leggja sig fyrst í nægilega langan tíma til þess að vera fær um að stjórna bílnum af öryggi alla fyrirhugaða leið.  

3. Um leið og ökumaður verður var við það, jafnvel þótt það sé aðeins eitt augnablik, að hann missir stjórn á hugsunum sínum, - fer að hugsa eitthvað annað en hann ætlaði sér, er slíkt órækt merki um að hann er á fyrsta stigi svefns. Hann á að stöðva bílinn við fyrsta tækifæri og grípa til eina ráðsins, sem völ er á, - að sofna í kyrrstæðum bílnum. 

4. Ef ökumaðurinn er mjög þreyttur og hefur bílinn í gangi og miðstöðina sömuleiðis kann svefninn að vara í 1-2 klukkutíma.  Glataður tími?  Nei, þetta er órækt merki þess hve mikinn lágmarkssvefn ökumaðurinn þurfti. Ef ökumaðurinn vill ekki sofna svona lengi, getur hann vakið sig á tvennan hátt: 

A. Drepið á bílnum og láta kuldann eftir að slökkt er á miðstöðinni, vekja sig. 

B. Notað farsímann til að vekja sig. 

Spurningin er einföld og valið augljóst : Hvort viltu sofna í smástund og vakna síðan og aka áfram -  eða sofna svefninum langa og taka fleiri með þér inn í þann svefn? 

Ég hef margsinnis verið þreyttur og illa upplagður til aksturs á ca 1,5 milljón kílómetra akstursferli. 

Ég hélt, eftir að hafa sloppið við afleiðingar þessa, að eftir akstur í 41 ár væri ég hólpinn. 

Síðan gerðist það í apríl 2006 þegar ég dró bátinn Örkina af stað austur á land eftir stranga vinnutörn dagana á undan að ég þurti að fara af stað seint að kvöldi og aka alla nóttina. 

Ég sofnaði í kyrrstæðum bílnum á útskoti á Háreksstaðaleið í 20 mínútur, hélt síðan áfram og við tók akstur upp á Brúaröræfi um morguninn, allan þann dag og basl í akstri á snjó fram á næstu nótt.

Þegar komið var snemma að morgni niður sneiðingana krókóttu, erfiðu og bröttu niður í Fljótsdal og beinn vegur tók við, hélt ég að ég væri hólpinn, - allt það erfiðasta væri að baki og beinn og breiður vegur framundan,  - aðeins hálftíma akstur eftir að afloknum erfiðum akstri í einn og hálfan sólarhring. 

Ég hafði ekki ekið nema nokkur hundruð metra þegar ég sofnaði undir stýri á nokkrum sekúndubrotum og vaknaði fyrir utan veg í móamýri. 

Það þurfti að draga mig upp úr mýrinni og ég hugsaði með skelfingu til þess hvað hefði gerst hefði ég verið að mæta bíl. 

Niðurstaða:

1. Enginn er óhultur, aldrei. 

2. Þú þarft ekki nema nokkur hundruð metra akstur til að sofna.

3. Það er alveg sama hvað þú hefur sloppið vel fram að þessu og hve vel þér hefur tekist, jafnvel í áratugi, - ein sekúnda getur breytt því öllu, - jafnvel um eilífð.  


mbl.is Hafnaði sofandi úti í á
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Að hugsa um hvað við erum að gera."

Í dag ók ég á minnsta fjögurra manna bílnum í umferðinni, Fiat 500, frá Siglufirði til Reykjavíkur. p1011473.jpg

Ég hafði skilið hann eftir á Ólafsfirði í október í fyrra eftir skemmtun þar í tilefni af hálfrar aldar starfa minna á landsbyggðinni sem skemmtikraftur, en þá dundi yfir fyrsta kafhríð vetrarins með ófærð, sem hentaði ekki fyrir sumardekkin á Fiatinum.

Snillingurinn Sigurjón Magnússon tók hann að sér og lagfærði bilun í viftu og ég fór nú á honum yfir Lágheiði til Siglufjarðar á fimmtudag, þar sem hann stóð fyrir utan Síldarminjasafnið þar til í dag. dscf5905.jpg

Var það gert til að gefa tóninn fyrir tveggja stunda fjölmenna tónleika í safninu í gærkvöldi, þar sem mér veittist sú ánægja að vinna með Sturlaugi Kristjánssyni og hljómsveit á hans vegum við að flytja lög af margvíslegum toga frá ferli mínum.

Það var bíll af þessari gerð sem ég nefndi "Fiat-lús" í laginu Kappakstri, sem Gunnar og Felix hafa endurvakið og var meðal laga sem ég flutti á þessum tónleikum eftir nær hálfrar aldar hlé. 

 Auðvitað skaust ég á Fiatinum upp í Siglufjarðarskarð og endurlifði þá tíma þegar maður fór á "Litla gul", NSU-Prinz, um allt land í upphafi ferilsins jafnt sumar sem vetur. dscf5902.jpg

Prinzinn var fyrsti GTI-bíllinn að því leyti að hann var afar kraftmikill, 30 hestöfl, sem fóru létt með að skjóta aðeins 480 kílóa kvikindinu áfram og taka aðra og miklu stærri bíla þess tíma í bakaríið. 

Fiat 500 var hins vegar aðeins 13 hestöfl í upphafi og aldrei aflmeiri en 18 hestöfl. Í mínu eintaki er minnsta bílvél á Íslandi, 499cc, skráð 18 hestöfl, en mig grunar að vegna þess að tvívegis hefur vélin í þessum bíl yfirhitnað skili hún varla meira en 13 hestöflum. 

Engu að síður var þessi bíll upphaflega hannaður til að geta þotið þindarlaust á 95 kílómetra hraða ef vegurinn var láréttur og logn eða meðvindur. 

En á leiðinni milli Siglufjarðar og Reykjavíkur eru margar brekkur og vindar geta blásið á móti. 

Þar með er komin upp sú staða að maður reyni eftir bestu getu að tefja ekki fyrir hraðari umferð þegar ekið er hægar en á 90. 

Margt athyglisvert kemur upp þegar reynt er að leysa þetta verkefni. Fiatinn er mjósti bíll flotans, feti mjórri en minnstu nýju bílarnir og því ætti að vera auðvelt að hleypa fram úr. 

Ég gef stefnuljós til hægri og vík út á brún til merkis um að ég sé meðvitaður um framúrakstur, sé hann í bígerð. 

Með því fylgir að þegar viðkomandi bíll fer fram úr mér, hægi ég á mér eins og þarf til þess að framúraksturinn taki sem stystan tíma og verði sem öruggastur. 

En hvað eftir annað þegar verið var að leysa úr þessu í dag og hraðskreiðari bílar að fara fram úr mér, var eins og sumir bílstjórar, sem komu á móti, reiddust mjög. 

Í stað þess að hnika sér út á kantinn héldu þeir sig við miðlínuna, flautuðu og blikkuðu, gáfu í, og virtust gera allt sem þeir gátu til að gera ástandið sem hættulegast. 

Mér varð hvað eftir annað hugsað til orða sýslumannsins á Selfossi í fyrradag í spjalli okkar Andra Freys Viðarssonar við hann. Ólafur Helgi taldi mikilvægast að ökumenn "hugsuðu um það sem þeir væru að gera" og átti við það að kæruleysi, sofandaháttur og hugsunarlaust tillitsleysi væru mestu bölvaldarnir í umferðinni. 

Nokkrum sinnum kom það fyrir í dag að framundan var blindhæð og vegna þess að ég sá fyrr yfir hana en sá sem vildi fara fram úr mér, gaf ég stefnuljós til vinstri og vék inn að miðlínu til þess að vara hann við. 

Langflestir ökumannanna, sem ég varaði við, áttuðu sig á þessu og veifuð mér þakksamlega þegar ég liðkaði fyrir þeim eins fljót og vel og hægt var þegar komið var í betri skilyrði. 

Nokkrir ökumenn virtust hins vegar leggja þetta út á versta veg, þ. e. að ég væri með frekju og dónaskap, flautuðu og blikkuðu og létu óánægju sína í ljós en voru síðan fljótir að hætta því þegar þeir sáu, af hverju ég hafði gert þetta. 

Allt ber þetta að sama brunni, í átt til þess sem sýslumaðurinn sagði. Það er ekki aðeins að menn hugsi ekki um það sem þeir gera eða beri að gera, heldur virðast þeir ekki heldur hugsa um það sem aðrir eru að gera eða að horfa af yfirsýn yfir það sem er í kringum þá. 

 

Pri 


mbl.is Umferð mjög hæg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. júní 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband