Öðruvísi hátíðir.

Mýrarboltamótið, sem haldið verður á Ísafirði, mætti kalla öðruvísi hátíð. Það var Goslokahátíðin á Skógum líka í gærkvöldi og raunar mun einstæðari viðburður en flest það sem gerist nú um stundir hér á landi, því aðeins einu sinni áður hefur slík hátíð verið haldin, eftir Heimaeyjargosið 1973.

Um 4-500 hundruð manns komu á hátíðina sem var hreint einstök, ekki hvað síst þegar hinn 89 ára gamli Þórður í Skógum söng og spilaði á langspil á aldeilis einstakan og óborganlegan hátt. 

Gleðin og samheldnin sem skein út úr hverju andliti var ógleymanleg. Hátíðin var dæmi um það hvernig fólk getur við erfiðar aðstæður séð það jákvæða í öllu og fundið eitthvað til að gleðjast yfir. 

Þær raddir hafa heyrst að ekki sé víst að Eyjafjallajökull sé hættur, - hann hafi áður sýnt að hann geti farið af stað að nýju eins og í gosinu fyrir tæpum 180 árum og þess vegna eigi ekki að halda neina hátið fyrr en öruggt sé að slík gerist ekki. 

Á móti kemur að auðvitað er það ánægjuefni að gosinu, sem hófst í vor, hafi lokið, að minnsta kosti í bili. Jafnvel þótt það taki sig upp í haust eða á næsta ári sé full ástæða til að fagna svo eindregnu goshléi. 

Meðal þess sem var mitt erindi við hið glaðbeitta fólk, var eftirfarandi texti við nýtt lag:

 

Við ysta haf ver eyjan okkar köld

og engin höfðum við í heimi völd. 

Og okkur þótti auðvitað mjög leitt

að enginn vildi vita´um okkur neitt. 

En Eyjafjallajökull til sig tók

og topp sinn hristi´og landið ákaft skók. 

Hann frægð okkar um víða veröld bar. 

Nú vita allir hver við erum og hvar. 

 

Hann stoppaði Angelu og Obama  

og alla frægustu fótboltahópana. 

Um Ermasund þá engin flugvél flaug. 

Með flugbanni hann vakti´upp gamla draug: 

bægði öllum flugvélum frá Evrópu, 

sem ekki Hitler tóks í stríðinu. 

Hann frægð okkar um víða veröld bar. 

Nú vita allir hver við erum og hvar. 

 

Af frægð hans núna finnst mér komið nóg. 

Og flestir segja´hann megi hvíla í ró. 

Eyjafjallajökull, ekki meir ! 

Ekki meiri aska eða leir ! 

En ef hann síðar aftur gjósa fer

einhvern mun þá kannski hugga hér

að hann frægð okkar um víða veröld ber. 

Þá vita allir hvar þessi andskoti er !

 

Nú höldum við goslokahátíð, - 

hátíð sem telst afar fátíð. 

Við gosið við skiljum 

og gjarnan við viljum 

að það verði áfram í þátíð. 


mbl.is Keppt í drullulangstökki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Farið í kringum lögin og tilgang þeirra.

Það er túlkunaratriði og raunar orðaleikur hvort það teljist ráðleggingar þegar iðnaðarráðuneytið fer með Magma Energy yfir alla lagalega möguleika á því hvernig erlent fyrirtæki geti eignast íslenskt orkufyritæki.

Minna má á það að í lögfræðilegum álitaefnum er oft grafist fyrir um tilgang viðkomandi laga og tilgangur laganna er skýr um að aðilar utan Evrópska efnahagssvæðisins megi ekki eignast orkufyrirtæki hér á landi. 

Það er augljóslega farið á svig við þennan tilgang með því að dótturfyrirtæki Magma í Svíþjóð sé látið eiga HS orku á pappírnum. Vilmundur heitinn Gylfason notaði um gjörðir af þessu tagi orðin: "Löglegt en siðlaust". 

Línurnar eru raunar skýrari en lítur út fyrir í fljótu bragði ef maður raðar saman ýmsum ummælum ráðamanna á þeim tíma sem málið hefur verið í meðferð. 

Ég man ekki betur en að Steingrímur J. Sigfússon hafi sagt eitthvað í þá veru þegar hann var spurður hvort ekki væri einsýnt að íslenska ríkið myndi taka yfir HS orku að þeir milljarðar, sem til þess þyrfti, yrðu ekki teknir upp af götunni. 

Eftir það var nokkuð ljóst hvert stefndi þrátt fyrir gelt og gelt af og til um að svona mætti ekki fara.

Vinstri grænir geta ekki fylgt gelti sínu eftir vegna þess að stjórnmál snúast um það að reyna að hafa eins mikil áhrif og völ er á. Ef þeir sprengja ríkisstjórnina standa þeir frammi fyrir tveimur kostum: 

Annars vegar að fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum sem mun að sjálfsögðu verða enn verri viðskiptis varðandi stóriðju- og orkumál en nokkur annar nema kannski Framsóknarflokkurinn.

Með því myndi VG þar að auki taka þann flokk í sátt sem mestu olli um Hrunið og veita honum syndakvittun, flokknum þar sem þingmenn ofurstyrkja og tengsla við Hrunvaldana sitja sem fastast og formaðurinn er ekki alveg frír heldur. 

VG gæti ekki réttlætt stjórn með Sjálfstæðisflokknum með því að þannig fengju þeir örugglega fram stefnu sína í ESB-málinu því að staðan er þannig nú, hvað skoðanakannanir varðar, að eins og er virðist þjóðin hvort eð er ekki fara inn í ESB. 

Hins vegar er sá möguleiki VG að fara í stjórnarandstöðu og verða gersamlega áhrifalaus að öllu leyti og horfa upp á enn verri stjórnarstefnu að eigin mati en þá, sem núna er fylgt. 

Nokkuð ljóst er að í landinu situr í raun minnihlutastjórn í stórum málum og að hér er sérkennileg stjórnarkreppa. 

Erfitt er að sjá hvernig þetta geti breyst fram til næstu kosninga eða að hægt verði að koma í veg fyrir það að útlendingar eignist orkuauðlindir Íslands meðan ástandið er þannig að peningar til að þjóðin eigi sjálf orkulindirnar landsins verða ekki teknir upp af götunni eins og það er orðað. 

 


mbl.is Ræddu „hvernig lögin virkuðu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. júlí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband