Öðruvísi hátíðir.

Mýrarboltamótið, sem haldið verður á Ísafirði, mætti kalla öðruvísi hátíð. Það var Goslokahátíðin á Skógum líka í gærkvöldi og raunar mun einstæðari viðburður en flest það sem gerist nú um stundir hér á landi, því aðeins einu sinni áður hefur slík hátíð verið haldin, eftir Heimaeyjargosið 1973.

Um 4-500 hundruð manns komu á hátíðina sem var hreint einstök, ekki hvað síst þegar hinn 89 ára gamli Þórður í Skógum söng og spilaði á langspil á aldeilis einstakan og óborganlegan hátt. 

Gleðin og samheldnin sem skein út úr hverju andliti var ógleymanleg. Hátíðin var dæmi um það hvernig fólk getur við erfiðar aðstæður séð það jákvæða í öllu og fundið eitthvað til að gleðjast yfir. 

Þær raddir hafa heyrst að ekki sé víst að Eyjafjallajökull sé hættur, - hann hafi áður sýnt að hann geti farið af stað að nýju eins og í gosinu fyrir tæpum 180 árum og þess vegna eigi ekki að halda neina hátið fyrr en öruggt sé að slík gerist ekki. 

Á móti kemur að auðvitað er það ánægjuefni að gosinu, sem hófst í vor, hafi lokið, að minnsta kosti í bili. Jafnvel þótt það taki sig upp í haust eða á næsta ári sé full ástæða til að fagna svo eindregnu goshléi. 

Meðal þess sem var mitt erindi við hið glaðbeitta fólk, var eftirfarandi texti við nýtt lag:

 

Við ysta haf ver eyjan okkar köld

og engin höfðum við í heimi völd. 

Og okkur þótti auðvitað mjög leitt

að enginn vildi vita´um okkur neitt. 

En Eyjafjallajökull til sig tók

og topp sinn hristi´og landið ákaft skók. 

Hann frægð okkar um víða veröld bar. 

Nú vita allir hver við erum og hvar. 

 

Hann stoppaði Angelu og Obama  

og alla frægustu fótboltahópana. 

Um Ermasund þá engin flugvél flaug. 

Með flugbanni hann vakti´upp gamla draug: 

bægði öllum flugvélum frá Evrópu, 

sem ekki Hitler tóks í stríðinu. 

Hann frægð okkar um víða veröld bar. 

Nú vita allir hver við erum og hvar. 

 

Af frægð hans núna finnst mér komið nóg. 

Og flestir segja´hann megi hvíla í ró. 

Eyjafjallajökull, ekki meir ! 

Ekki meiri aska eða leir ! 

En ef hann síðar aftur gjósa fer

einhvern mun þá kannski hugga hér

að hann frægð okkar um víða veröld ber. 

Þá vita allir hvar þessi andskoti er !

 

Nú höldum við goslokahátíð, - 

hátíð sem telst afar fátíð. 

Við gosið við skiljum 

og gjarnan við viljum 

að það verði áfram í þátíð. 


mbl.is Keppt í drullulangstökki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Sigurðsson

Þessi hátíð á ÍSafirði er frábær.
Hef sett inn myndbönd á blogsíðu mína ,frá drulluboltahátíð á ÍSafirði

Halldór Sigurðsson, 11.7.2010 kl. 20:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband