12.7.2010 | 23:06
Minnir á olíuhreinsistöðina.
Frábær rannsóknarblaðamennska fréttaskýringaþáttarins Kompáss á sínum tíma fletti ofan af því hvernig Íslendingar ætluðu að fórna einum fegursta stað Vestfjarða fyrir olíuhreinsistöð í eigu rússneskra fjárglæframanna.
Í Vesturbyggð var byrinn yfirgnæfandi með þessu og sveitarsjórinn sagði glaðhlakkalegur að það væri ekki spurning um hvort heldur hvenær stöðin yrði reist, - líkurnar væru 99,9%.
Aðeins nokkur ár þangað til búið væri að reisa stöðina sem myndi "bjarga" Vestfirðingum.
Á ferð þarna vestra þorði maður varla að nefna þetta mál af ótta við að vera úthrópaður óvinur fæðingarbyggðar konunnar minnar númer eitt, alls staðar sáu menn gull og græna skóga gróðans við að taka að sér verksmiðjuskrímsli sem er svo óvinsælt á Vesturlöndum að engin ný svona stöð hefur verið reist þar í tuttugu ár, - það vilja engir hafa þetta hjá sér frekar en svæði fyrir kjarnorkuúrgang.
Kompás rakti hvernig væntanlegir eigendur stöðvarinnar fóru að því að stunda ósvífið peningaþvætti þar sem risaupphæðir ferðuðustu um fjármálakerfi margra landa uns þær hurfu austur í hið stóra Rússland.
Kompásfólkið fann líka skúffufyrirtækið í Skotlandi, sem skrifað var fyrir væntanlegri olíuhreinsistöð og hafði hvorki síma né skrifstofu ! Í opinberum reikningum þess voru útgjöld og tekjur nokkur hundruð sterlingspund !
Skúffufyrirtæki eru ekki hátt skrifuð frekar en önnur tæki sem eru notuð til þess að fara á svig við lög og vinna gegn tilgangi þeirra eins og skúffufyrirtæki Magma Energy í Svíþjóð.
En dæmið um Magma og olíuhreinsistöðina miklu fyrir vestan sýnir að það virðist ekki þurfa annað en veifa seðlum framan í Íslendinga til þess að þeir hlaupi upp til handa og fóta hrópandi: "Take the money and run !"
Aðdragandi hrunsins byggðist á þessu allt frá upphafi þenslunnar með Kárahnjúkavirkjun til myntkörfulánanna og aðdraganda Magma-málsins, sem hófst vorið 2007 í höndum Finns Ingólfssonar og annarra sem koma aftur og aftur við sögu þegar svona mál fara í gang.
![]() |
Íslensk lög einungis útskýrð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)