14.7.2010 | 19:18
Rússnesk rúlletta í umferðinni.
Maður sem ekur alla sína tíð á vegum sem hafa eina akrein í hvora átt veit aldrei hvenær að því geti komið að bíll, sem kemur á móti, komi skyndilega yfir á hans akrein.
Oftast gerist þetta vegna þess að menn dotta undir stýri en það getur líka gerst ef bílstjóri fær hjartaáfall eða heilablóðfall sem hann gat með engu móti séð fyrir.
Vinur minn og skólafélagi, Almar Grímsson, varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu skammt frá Hvalfjarðargöngunum í vor að bíll, sem kom á móti honum, beygði skyndilega í veg fyrir hann.
Almar bjargaði sér frá árekstri með því að aka út af og við það valt bíll hans. Hann slapp að mestu við meiðsli en þetta var sálrænt áfall.
90 kílómetra hámarkshraði á svona þjóðvegum er miðaður við þá hættu sem þeir bjóða upp á, en væri hraðinn meiri yrði skemmri tími til að bregðast við svona uppákomum og árekstrarnir yrðu líka miklu harðari.
Ég hef það fyrir reglu að skoða að jafnaði næsta umhverfi veganna sem ég ek á til að geta brugðist við ef einhver ekur skyndilega í veg fyrir mig. Þetta lærði ég í rallilnu á sínum tíma og það hjálpar við að finna skástu undankomuleiðina og komast hjá því að velta bílnum, sem er aðalatriði í svona tilfelli.
Atvikið 18. desember síðastliðið sýnir að það er enginn óhultur, sama hve vel hann ekur, þegar bílar sem koma á móti eiga greiða leið yfir á rangan vegarhelming. Skiptir þá engu þótt akreinar séu á móti tveimur og aðskildar með auðu svæði.
Ekki nóg með það, heldur varð slysið 18. desember við þær aðstæður að lægðin á auða svæðinu á milli akbrautanna virkaði eins og stökkpallur fyrir bíl mannsins sem fékk hjartaáfallið, svo að hann tókst á loft þegar hann kom upp á gagnstæða akbraut og fór inn um framrúðu bílsins sem kom á móti.
Í þessu tilfelli hefði verið skárra ef auða svæðið hefði verið alveg slétt. Lægðin er höfð til þess að bílar komist síður yfir á gagnstæða akrein og líklega hamlar hún því í flestum tilfellum.
En þó ekki öllum eins og dæmin sýna. Eina vörnin sem dugar er að hafa vegrið mitt á milli akbrautanna. Upplýst hefur verið það muni kosta um 500 milljónir króna að reisa þau á þeim stöðum þar sem háttar til eins og við Hafnarfjarðarveg.
Á sínum tíma var reiknað kalt út að hvert mannslíf sem glatast í banaslysi kosti þjóðfélagið um 200 milljónir krónar hið minnsta á núvirði. Er þá ekki metin til fjár þjáningar og óbeint tjón.
Þetta sýnir að aðeins eitt banaslys á Hafnarfjarðarvegi 18. desember síðastliðinn kostaði í köldum beinum peningum meira en að reisa þessi vegrið.
Í umferðinni tökum við þátt í rússneskri rúllettu sem á stórum vegarköflum er spiluð gersamlega að óþörfu og veldur ómældu og óbætanlegu tjóni.
![]() |
Ökumaður fékk hjartaáfall |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)